Samningur milli Íslands og Færeyja um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

15. fundur
Fimmtudaginn 08. júní 1995, kl. 17:24:20 (510)


[17:24]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Það var mikill misskilningur hjá hv. 8. þm. Reykn. að ég hafi verið með ásakanir í hans garð. Ég var að draga fram ákveðnar staðreyndir í þeim málflutningi sem hann hafði hér í frammi. Ég vona að hann kveinki sér ekki við málefnalegum umræðum. En ég tók eftir því að hann notaði tíma sinn til þess að leiða umræðurnar inn á allt aðrar brautir. Frá þeim efnisatriðum, sem ég var að tala um, og ég skil það mætavel. Það er líka réttur hans að gera tilraunir í þá veru.
    Varðandi þau atriði sem hann minntist á um afstöðu mína til deilna við Norðmenn er ég fús til þess að eiga öll þau samtöl og allar þær viðræður sem hann óskar eftir, hv. þm., í þeim efnum. Þar hef ég fyrst og fremst verið að gæta að því að málflutningur okkar væri samræmdur í afstöðu okkar og að við gættum þess jafnan að huga að hagsmunum okkar þar sem þeir væru mestir til lengri tíma. Það hefur verið grundvöllurinn í afstöðu minni. Ég hef ekki orðið var við mikinn ágreining um þau meginviðhorf. En óski hv. 8. þm. Reykn. eftir frekari viðræðum um þau mál á breiðum grundvelli er það auðvitað alveg guðvelkomið af minni hálfu.