Samningur milli Íslands og Færeyja um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

15. fundur
Fimmtudaginn 08. júní 1995, kl. 17:31:28 (514)


[17:31]
     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
    Herra forseti. Fyrst vil ég segja af því að hæstv. sjútvrh. nefndi í ræðu sinni að það væri flökt á þingmönnum Alþfl. og Alþb. varðandi afstöðu til samningsins. Hann vísað til fundar í úthafsveiðinefnd og sagði að þar hefði fulltrúi Alþfl. lýst yfir stuðningi en síðan kæmi annar þingmaður og gagnrýndi ýmislegt sem tengist samningnum. Rétt er að rifja upp hvernig tildrög þessa fundar voru. Ég man ekki betur en að þau hafi verið slík að eftir að samningalotu lauk væri af skyndingu boðað til fundar með nánast engum fyrirvara og gafst enginn tími til samráðs og heldur ekki neinn tími fyrir þann þingmann sem sótti þennan fund fyrir Alþfl. til þess að kynna sér sögu málsins. Það er reyndar ekki einsdæmi vegna þess að mér virðist af málflutningi hæstv. sjútvrh. og utanrrh. að þeir hafi heldur ekki kynnt sér söguna nægilega vel.
    Herra forseti. Það er einkum tvennt í ræðu hæstv. sjútvrh. sem ég vil aðeins ræða. Hann tók undir með hæstv. utanrrh. að óvarlegt væri að leggja veiðireynslu liðins tíma sem grundvöll fyrir samningum. Hann sagði jafnframt og tók undir með hæstv. utanrrh. að það ætti að byggja á dreifingunni en jafnframt sagði hann að síldin hefði ekki tekið upp sitt gamla munstur. Hvers vegna hefur hún ekki gert það? Það er vegna þess að það eru aðrar aðstæður í hafinu. Köld tunga kemur í veg fyrir að síldin gangi inn í efnahagslögsöguna. Nú höfum við öll hlustað á veðurfregnir síðustu daga og vitum að gríðarlegt magn af köldum svalsjó hefur lagst upp að Norðurlandi. Veðurfræðingar hafa sagt að það gæti tekið mjög langan tíma fyrir þennan sjó að hlýna upp. Væntanlega mun hann leggja nokkuð til þessarar köldu tungu. Svo gæti farið að það liðu mörg ár, hugsanlega áratugir, áður en aðstæður í sjónum breytast með þeim hætti að síldin taki upp sitt gamla göngumunstur og að dreifingin verði hagstæð Íslendingum. Þess vegna verð ég að segja að sú stefna sem ríkisstjórnin hefur boðað í dag gerir það að verkum að hagsmunir Íslendinga eru gjörsamlega undirorpnir duttlungum náttúrunnar. Ég sé ekki að sú stefna sé í þágu okkar hagsmuna. Það er hins vegar lofsvert að hún komi loksins fram.