Samningur milli Íslands og Færeyja um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

15. fundur
Fimmtudaginn 08. júní 1995, kl. 17:35:51 (516)


[17:35]
     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
    Herra forseti. Ég er glaður að heyra það að hæstv. sjútvrh. hefur þá reynslu af mér að ég taki rökum. Ég verð því miður að segja, herra forseti, að það er ekki gagnkvæmt. Ég hef ekki þá reynslu af hæstv. sjútvrh. Til að mynda sagði hæstv. sjútvrh. rétt áðan að það væri hagur okkar að síldarstofninn stækkaði svo mjög að hann tæki upp sitt gamla göngumunstur. Er það ekki svo að einmitt sérfræðingar hæstv. sjútvrh. hafa verið að tönnlast á því í fjölmiðlum að það séu sérstakar aðstæður í hafinu sem gera það að verkum að hann hefur ekki tekið upp sitt gamla göngumunstur. Stofninn er núna orðinn þegar jafnstór og hann var á sumum ágætum síldveiðiárum. Ég verð að segja, herra forseti, að við verðum að taka mið af því sem gerist í náttúrunni og mér sýnist að hæstv. sjútvrh. hafni því alfarið að taka náttúrufræðilegum rökum. Við þurfum auðvitað að lágmarka áhættu okkar. Einn áhættuþáttur er þessar sérstöku aðstæður í hafinu, við vitum ekki hversu varanlegar þær verða. Þess vegna eigum við ekki að leggja allt okkar í hreiður þess dreifingarmódels sem þeir eru að tala um, hæstv. ráðherrar, heldur eigum við auðvitað að byggja ekki síður á veiðireynslunni. Við höfum hana í hendi. Þar er málstaður okkar góður svo fremi sem hæstv. ráðherrar skoði söguna og læri af henni. Ég hef kvartað yfir því í dag og í blaðagreinum að mér finnst nokkuð skorta á það.