Samningur milli Íslands og Færeyja um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

15. fundur
Fimmtudaginn 08. júní 1995, kl. 17:47:20 (520)


[17:47]
     Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Út af því síðasta sem hv. þm. nefndi um útfærslu landhelginnar er það stefnan að vinna að lausn málsins á vettvangi ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Ég tel ekki tímabært að vera með

ákveðnar yfirlýsingar um framhaldið meðan við höfum von um að niðurstaða náist á ráðstefnunni. Ég vænti þess að hún náist og vil trúa því að það geti gerst. En ef það gerist ekki er komin upp ný staða og þá verðum við að vernda stofnana, grípa til ráða til að vernda stofnana utan við lögsögu okkar og annarra þjóða. Það liggur alveg ljóst fyrir.
    Að því er varðar veiðireynslu vildi ég benda á þá einföldu staðreynd að þessi veiðireynsla er frá þeim tíma þegar landhelgi Íslendinga var þrjár mílur, fjórar mílur og tólf mílur. Hún er frá þeim tíma þegar Rússar og Norðmenn veiddu í núverandi efnahagslögsögu Íslendinga. Veiðireynslan er mjög misjöfn. Er það nú alveg víst að það sé rétt að taka mið af þeirri veiðireynslu? Ég held að það sé nauðsynlegt að hv. þm. fari mjög vel yfir þessa sögu. Þá munu þeir sjá að það er ekki hægt að byggja eingöngu á þessari veiðireynslu. Engin rök eru fyrir því vegna þeirra breytinga sem hafa orðið í hafréttarmálum og við erum að tala um 200 mílna lögsögu í dag en ekki tólf mílur eða fjórar mílur þegar þessi veiðireynsla átti sér stað. Á að viðurkenna veiðireynslu Rússa og Norðmanna í lögsögu okkar? Þetta eru grundvallaratriði og það er þess vegna sem þetta skiptir svona miklu máli og ég tel nauðsynlegt að koma þessum gögnum á framfæri þegar málið kemur til hv. utanrmn.