Samningur milli Íslands og Færeyja um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

15. fundur
Fimmtudaginn 08. júní 1995, kl. 17:49:32 (521)


[17:49]
     Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það má vel vera að rétt sé hjá hæstv. utanrrh. að ekki sé rétt miðað við söguna að byggja alfarið á veiðireynslu. En ég spurði í umræðunni hvort það væri rétt að við hefðum fallist á þessar forsendur, hvort það væru Norðmenn sem hefðu gert þessar kröfur og við hefðum fallist á þær forsendur að byggt yrði að mestu á dreifingu stofnsins í lögsögunni. Að mestu fannst mér ráðherrann orða það svo og hvaða skil draga menn þar á milli? Hafa menn búið sér til einhverja formúlu varðandi það atriði þegar ráðherrann upplýsir að það eigi ekki að byggja eingöngu á veiðireynslu heldur að mestu leyti á dreifingu stofnsins? Hvað eru menn nákvæmlega að tala um í því efni? Eru Norðmenn og Íslendingar orðnir sammála um einhverja formúlu í því efni hvernig þessi hlutföll eigi að vera? Mér finnst að þetta þurfi að vera nokkuð ljóst varðandi framhald málsins. Ég geri mér vissulega grein fyrir að það skipti ekki máli varðandi þetta umrædda frv. Við erum aðeins að staðfesta orðinn hlut en ég held að það sé mikilvægt að við fáum upplýsingar um það varðandi framhald málsins og það er mikilvægt eins og ég sagði að stjórn og stjórnarandstaða hafi samráð og samstöðu um þær forsendur sem menn gefa sér í þessum mikilvægu viðræðum.