Samningur milli Íslands og Færeyja um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

15. fundur
Fimmtudaginn 08. júní 1995, kl. 17:54:27 (524)


[17:54]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að heldur að lengja umræðuna frekar en aðrir en það voru orð hæstv. sjútvrh. sem komu mér til að biðja um orðið og sérstaklega þar sem hæstv. ráðherra sagði eitthvað misvísandi um afstöðu einstakra fulltrúa stjórnarandstöðuflokkanna eða Alþfl. og Alþb. í meðferð málsins og að það hefði gætt einhvers hringlandaháttar eða ósamræmis. Ég kannast ekki við slíkt og tel það ekki innlegg í málefnalegar umræður að koma með slíkar fullyrðingar eins og hæstv. sjútvrh. gerði.
    Ætli það fari ekki best á því að ég endursegi sjálfur það sem ég lét koma fram á fundi úthafsveiðinefndarinnar þannig að ekki þurfi að styðjast við túlkun hæstv. sjútvrh. á orðum mínum. Það sem ég sagði einfaldlega var tvennt, sérstaklega varðandi málsmeðferðina. Ég var sammála því eins og allir voru að sjálfsögðu að ekki kæmi til greina að ganga til samninga við Norðmenn á þeim nótum sem þeir höfðu verið að bjóða og lýsti því eins og ég held allir aðrir fundarmenn. Um það ríkti sem betur fer samstaða að ekki kæmi til greina að fara að ganga frá samningum sem gæti orðið leiðbeinandi inn í framtíðina við Norðmenn um einhver skitin 50 eða 70 þús. tonn eða hvað það hefði hugsanlega orðið eða einhverjar mjög lágar tölur. Þar með væri ekki verið að lýsa almennri ánægju með málsmeðferðina í heild sinni af hálfu hæstv. ríkisstjórnar og það væri langt til jafnað ef það gerðist að ég færi að lýsa sérstakri ánægju minni með frammistöðu ríkisstjórnarinnar almennt og sérstaklega þó þeirrar fyrri í sambandi við málstök varðandi úthafsveiðar og verður hæstv. sjútvrh. að taka hlut sinn af því til sín.
    Í öðru lagi lýsti ég því að rétt væri að leita eftir samstöðu við Færeyinga um sameiginlega afstöðu í viðræðunum við Norðmenn úr því að upp úr væri að slitna. Ég held að ég fari rétt með það og það má svo sem koma hér fram að ég nefndi væntanlega fyrstur manna á þeim fundi að ég teldi mikilvægt að reyna að ná í þeim samningum ákvæðum um gagnkvæmar veiðiheimildir innan lögsögu ríkjanna. Að því leyti til var einnig samstaða á þessum fundi um að þetta væri eðlilegt. En að öðru leyti fór ekki fram nein almenn úttekt á málsmeðferðinni í viðræðunum eða aðdragandanum á undangengnum mánuðum né neinar sérstakar stuðningsyfirlýsingar hafðar uppi. Ég bið hæstv. sjútvrh. að oftúlka ekki ummæli einstakra manna á fundi af þessu tagi auk þess sem það kom reyndar fram og hæstv. sjútvrh. staðfesti það að það var í öðrum tilvikum lýst mismunandi sjónarmiðum og það má endurtaka það hér að ég varaði við því á þessum fundi, þeim eina samráðsfundi sem hefur verið um málið á þessu vori að menn legðu af stað með of lágan upphafskvóta eða of lága kröfugerð því að það vita auðvitað allir sem nálægt einhverjum samningaviðræðum hafa komið að það er erfitt að komast frá því aftur ef menn einu sinni setja markið of lágt í byrjun. Ég taldi skynsamlegt að reisa kröfuna frá upphafi á þeim grunni að við ætluðum okkur fullkomlega jafnan hlut á móti Norðmönnum. Með hliðsjón af því að Færeyingar yrðu okkur samferða væri eðlilegt að kröfugerðin og/eða þá einhliða kvótinn hljóðaði upp á jafnan hlut á móti Norðmönnum og Rússum þó að auðvitað megi síðan deila um það og endanlega verði að semja um það hver verður nákvæmlega hlutdeild hverrar þjóðar. Ég er ekki með þessu að segja að hin endanlega samningsniðurstaða hljóti að verða til að mynda jafn hlutur Rússa og Færeyinga. Það er ekki þar með sagt, þannig að þetta væri eðlilegur upphafspunktur af okkar hálfu. Ég tel að öll líffræðileg og söguleg rök standi fyrir því að við Íslendingar gerum kröfu um fullkomið jafnræði á móti Norðmönnum varðandi nýtingu úr stofninum, fullkomið jafnræði, og þar vega langþyngst og langsterkast rökin sem má sækja í hefðbundið göngumynstur síldarinnar og þá staðreynd að hún dvaldi á sínum tíma iðulega meira en hálft árið innan íslensku lögsögunnar, var best veiðanleg, verðmætust og feitust á þeim tíma frá því að veiði gat hafist á henni fyrir norðan land snemma vors eða sumars og yfir sumarmánuðina og fram á haust og vetur úti fyrir Austfjörðum. Eðlilega er það þess vegna þannig að í þessi sögulegu rök má sækja fullkomlega gilda röksemdafærslu fyrir því að við eigum a.m.k. jafnan hlut á móti Norðmönnum úr þessum stofni. Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt að þannig á að byggja upp röksemdafærslu okkar í málinu en ekki einhverjar tímabundnar aðstæður sem stafa af ofveiði Norðmanna úr stofninum.
    Að vísu er svolítið athyglisvert, hæstv. forseti, að í málinu varð samstaða um það og núv. hæstv. sjútvrh. reið á vaðið með það að ákveða einhliða kvóta til handa Íslendingum úr þessum stofni. En þegar sama tillaga kom fram af hálfu þess sem hér talar og útgerðarmanna varðandi veiðar okkar í Barentshafi, að við ættum einmitt að styrkja samningsstöðu okkar með því að úthluta okkur einhliða kvóta þar með alveg sömu rökum og nú eiga við um norsk-íslensku síldina mátti ekki heyra á það minnst. Ég er þeirrar skoðunar að þetta sýni að það voru mistök að leggja ekki upp með veiðarnar í Barentshafi þannig það þær yrðu á ábyrgum nótum og að við ætluðum okkur ekki að taka nema einhvern tiltekinn hlut úr þeim stofni sem við teldum sanngjarnan og verjanlegan og ef eðlilegir samstarfsaðilar okkar um þá nýtingu, þ.e. Norðmenn og Rússar, neituðu samningum við okkur, neituðu að tala við okkur, þá ættum við ekki annan kost en að úthluta okkur einhliða kvóta sem væri réttlætanlegur og verjanlegur út frá sögulegum og líffræðilegum og alþjóðlega réttarfarslegum bindandi reglum. Þetta finnst mér áhugavert og rétt að nefna hér að nú snúa þessi rök allt í einu öðruvísi af hálfu þeirra sem á sínum tíma voru algerlega andvígir því að

við gripum til svona ráða gagnvart deilunni sem uppi var í Barentshafi.
    Ég legg svo á það áherslu, eins og fleiri hafa gert, að það er auðvitað mjög mikilvægt að ná um það víðtækri og breiðri samstöðu hér heima fyrir hvernig málstaður Íslands í þessum erfiðu deilum allur saman er byggður upp og varinn. Það er alveg hægt að viðurkenna að það er heppilegra að það samráð eigi sér stað annars staðar en hér í þingsalnum, a.m.k. þannig að allir flokkar geti verið fullgildir aðilar og þátttakendur í því ferli. Ég legg þess vegna á það mikla áherslu að hlutunum verði háttað þannig í framtíðinni. Það hefur verið misbrestur á því, það er ljóst, og einn fundur í úthafsveiðinefnd skiptir ekki sköpum í því efni, sérstaklega ekki í ljósi þess að hann var haldinn þegar hafði, má segja, þegar slitnað í viðræðunum við Norðmenn án þess að ég sé að lasta það að til þess fundar var boðað. En mjög mikilvægt er að í svona viðkvæmum og vandasömum málum sé byggð upp samstaða heima fyrir, haft fullt samráð og að menn þurfi ekki að veikja sinn málstað út á við eða inn á við með því að standa í umræðum af þessu tagi um viðkvæm hagsmunamál sem að mestu leyti væri heppilegra að færu fram annars staðar.