Stjórn fiskveiða

16. fundur
Fimmtudaginn 08. júní 1995, kl. 18:11:40 (527)


[18:11]
     Frsm. minni hluta sjútvn. (Svanfríður Jónasdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir áliti minni hluta sjútvn., en hann skipa auk mín Steingrímur J. Sigfússon og Össur Skarphéðinsson auk þess að Guðný Guðbjörnsdóttir, sem er áheyrnarfulltrúi í nefndinni, lýsir yfir stuðningi við nál. og brtt. minni hlutans, á því frv. sem hér liggur fyrir um breytingu á lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.
    Sameiginleg afstaða minni hluta sjútvn. til þessa frv. kemur annars vegar fram í því nál. sem ég mun gera grein fyrir og hins vegar í þeim brtt. sem undirrituð flytja við frv. eins og það liggur fyrir. Að öðru leyti munu fulltrúar minni hlutans gera grein fyrir afstöðu sinni og flokka sinna eða hreyfinga í umræðum.
    Frv. gerir skv. 1. gr. ráð fyrir að til að hemja stækkun krókabátaflotans verði settar strangar reglur varðandi endurnýjun slíkra báta. Í sóknarkerfi er stjórn á flotastærð virka stýriaðferðin svo að eðlilegt er að setja slíkar tillögur fram sem lið í breytingum varðandi krókabátana. Hitt er annað mál hvort ástæða sé til að hafa svo stífar reglur sem fram koma í frv. Rétt er að minna á í þessu samhengi að nú á að taka þessa báta inn í Þróunarsjóð ef frv. sem hér liggur fyrir varðandi það efni verður að lögum. Þar með er stefnt að fækkun þeirra á næstu árum. Sérstaklega hlýtur að teljast varhugavert að beita slíkum reglum á endurnýjun minnstu bátanna og telur minni hlutinn að athuga hefði átt að undanskilja báta t.d. undir 3 tonnum vegna endurnýjunar á sams konar báti. Hins vegar eru í frv. settar fram tillögur sem þrengja möguleika aflamarksskipa til endurnýjunar og breytinga. Í aflamarkskerfi er það aflamarkið sem er stýritækið og ætti útgerðarmönnum að vera í sjálfsvald sett með hvaða skipastærð þeir sækja þann afla sem þeim er úthlutað. Meiri hluti nefndarinnar hefur þó kynnt tillögur þar sem fallið er að hluta frá tillögum um að þrengja kosti útgerðar aflamarksskipa og yrði áfram heimilt að breyta skipum byggðum fyrir 1986 eins og verið hefur. Minni hlutinn styður að sjálfsögðu þessa breytingu frá upphaflega frv.
    Enn eru þó í því tilhneigingar til stjórnunar á sviðum þar sem undirrituð telja að aflamarkið eitt ætti að nægja því að útgerðarmönnum sé best til þess treystandi að ákveða með hvernig skipum sé hagfelldast að sækja þann afla sem þeim er samkvæmt aflamarki heimilt að veiða. En umræðan um sóknarmark, aflamark og þau stjórnkerfi sem menn vilja sjá í framtíðinni á þessum málum bíður annars betri tíma.

    Meginefni frv. ríksstjórnarinnar fjallar þó um breytingar á veiðistjórnun krókabáta. Breytingartillögur meiri hlutans gera í raun ráð fyrir að veiðar krókabáta verði með þrennu móti:
    1. Veiðar með þorskaflahámarki með banndögum skv. 2. og 4. mgr. frv.
    2. Veiðar með viðbótarbanndögum skv 5.--9. mgr. frv.
    3. Veiðar innan róðrardagakerfis skv. 2. breytingartillögu meiri hlutans.
    Fyrst um sinn geti krókabátar valið milli kosta 1 og 12 en ráðherra getur síðar ákveðið með reglugerð að þeir sem vilja kost 2 fari undir róðrardagakerfi. Ekki er í frv. eða brtt. meiri hlutans gert ráð fyrir að róðrardagakerfi komist á á komandi fiskveiðiári heldur er sett í vald ráðherra að meta hvenær tæknilegar og fjárhagslegar forsendur leyfa upptöku þess. Það er mat okkar að það sé óeðlilegt að setja það alfarið svo ákveðið í vald ráðherra hvenær tæknilegar eða fjárhagslegar forsendur leyfi upptökur þessa kerfis.
    Í þessu sambandi er vakin sérstök athygli á því að samkvæmt frumvarpinu er þeim bátum, sem velja þorskaflahámark, ekki heimilt að skipta síðar yfir í róðrardagakerfi. Það er hins vegar í mótsögn við yfirlýsta stefnu sumra stjórnarliða sem standa að baki frv. ríkisstjórnarinnar.
    Í því sambandi er einnig athyglisvert að skoða þau fylgiskjöl sem fylgja með nál. minni hlutans en þar er vikið að því að þegar svo mjög er þrengt að mönnum eins og frv. ber með sér eru meiri líkur á slysum, að neyðin muni hreinlega villa mönnum sýn og hvetja til óhóflegra róðra í tvísýnu veðri sem menn hefðu ekki ella látið hvarfla að sér að róa í. Í þessu heyrist okkur við nema enduróm af því sem stjórnarliðar hafa sagt í þessum ræðustól þegar þeir hafa verið að undirstrika nauðsyn þess að róðrardagakerfi verði tekið upp.
    Jafnframt vil ég taka það fram að það hefur ekki tekist að sannfæra þau sem skipa minni hluta sjútvn. að ekki sé unnt að taka upp róðrardagakerfi nú þegar og notast við þau meðöl sem við höfum til þess að fylgjast með veiðunum. Ég vil aftur vísa í þau fylgiskjöl sem eru með nál. þar sem það er ljóslega sýnt hversu geysilega margir banndagar verða fyrir þá sem velja viðbótarbanndaga, hversu fáir dagar það eru sem menn geta róið og vísa þá enn í þau ummæli sem ég las hér áðan.
    Í umræðu og í umfjöllun nefndarinnar kom fram hjá flestum sem tjáðu sig um 2. gr. frv. eindreginn vilji til að taka upp róðrardagakerfi sem stjórnkerfi fyrir krókabáta. Gegn því var teflt þeirri staðhæfingu að ekki væri mögulegt að taka upp róðrardagakerfi þegar á næsta fiskveiðiári þar eð ekki væru tæknilegar forsendur til að halda uppi nægjanlega öflugu eftirliti með sjósókn bátanna. Við umfjöllun í nefndinni kom hins vegar fram að unnt væri að sinna eftirliti í gegnum hafnarverði og löggilta vigtarmenn uns fjareftirlit um landstöðvar og/eða gervihnetti væri til reiðu, en sérfræðingar, sem á fund nefndarinnar komu, töldu ekki unnt að koma slíku fjareftirliti upp fyrir byrjun næsta fiskveiðiárs.
    En ég vil endurtaka það að þó svo að þeir sérfræðingar hafi talið að ekki væri unnt að koma fjareftirliti á frá byrjun þá sannfærði það ekki þau sem skipa minni hluta nefndarinnar um að það réttlætti að bíða með upptöku kerfisins.
    Af þessum sökum er því alfarið vísað á bug að vegna tæknilegra takmarkana sé ekki hægt að taka upp róðrardagakerfi þegar í upphafi næsta fiskveiðiárs. Við leggjum því til brtt. við 2. gr. frv. þar sem lagt er til að róðrardagakerfi verði eina stjórnkerfi krókabáta frá og með næsta fiskveiðiári. Tillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Bátar minni en 6 brl., sem stundað hafa veiðar með línu og handfærum með dagatakmörkunum, krókabátar, skulu frá og með fiskveiðiárinu sem hefst 1. sept. 1995 stunda veiðar með þeim takmörkunum sem kveðið er á um í 2.--4. mgr. þessarar greinar. Þessum bátum er einungis heimilt að stunda veiðar með handfærum og línu. Þó er sjúvrh. heimilt að veita þeim leyfi til að stunda veiðar á botndýrum með þeim veiðarfærum sem til þarf, svo sem plógum og gildrum og til hrognkelsaveiða í net.
    Fjöldi róðardaga hjá krókabátum skal vera 100 eftir frjálsu vali innan hvers fiskveiðiárs og taka mið af 150 þús. tonna heildarafla af þorski, sbr. 3. gr. Róðrardögum skal fjölgað eða fækkað í réttu hlutfalli við ákvörðun stjórnvalda á hverju fiskveiðiári um leyfilegan hámarksafla.
    Veiðar skulu bannaðar í desember og janúar sem og í sjö daga um páska og verslunarmannahelgi samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra. Ráðherra getur þó veitt undanþágu frá þessu varðandi veiðar í sérhæfð veiðarfæri samkvæmt lokamálslið 1. mgr.
    Sé einn maður í áhöfn krókabáts er óheimilt að róa með og eiga í sjó fleiri en 12 bala af línu, en 20 bala séu tveir eða fleiri í áhöfn. Miðað er við að 420 krókar séu á línu í hverjum bala. Stefni í að heildarafli krókaveiðibáta aukist verulega frá því sem verið hefur að meðaltali undanfarin ár, vegna aukinna línuveiða krókabáta, er sjútvrh. heimilt að takmarka þær veiðar sérstaklega umfram það sem getur í þessari málgrein.
    Heimilt er án sérstaks leyfis að stunda fiskveiðar í tómstundum til eigin neyslu. Slíkar veiðar er einungis heimilt að stunda með handfærum án sjálfvirknibúnaðar. Afla, sem veiddur er samkvæmt heimild í þessari málsgrein, er óheimilt að selja eða fénýta á annan hátt.
    Ráðherra skal með reglugerð ákveða framkvæmd eftirlits, sbr. 2. mgr. Þangað til tæknilegar forsendur leyfa fjareftirlit um gervihnetti og/eða landstöðvar skal Fiskistofa semja við sveitarfélög um að eftirlit verði framkvæmt af hafnarvörðum og/eða löggiltum vigtarmönnum, eða með öðrum hætti.``
    Minni hluti gerir ekki athugasemdir við 3. og 4. gr. frumvarpsins. Brtt. meiri hlutans við 5. gr. er

í samræmi við þá breytingu sem sömu aðilar gera tillögu um að verði á 1. gr. og áður hefur verið lýst. Ekki er að sinni gerð athugasemd við ákvæði til bráðabirgða I.
    Undirrituð flytja hins vegar eftirfarandi brtt. við ákvæði til bráðabirgða II, með leyfi forseta:
    ,,Ákvæði til bráðabirgða II orðist svo:
    Árlega er heimilt að ráðstafa með reglugerð allt að 500 lestum af þorski, miðað við óslægðan fisk, til smábáta sem gerðir eru út frá þeim byggðarlögum sem algjörlega eru háð veiði slíkra báta og standa höllum fæti.``
    Herra forseti. Hér er gerð tilraun til þess að fylgja eftir þeirri hugsun sem fram kemur í frv. varðandi viðlagaákvæði vegna þeirra byggðarlaga sem algjörlega eru háð veiði smábáta og standa höllum fæti. Hér er hins vegar gerð tillaga um það að Byggðastofnun verði ekki sá aðili sem úthluti þessum veiðileyfum heldur verði það eins og úthlutun annarra veiðileyfa í höndum sjútvrn.
    Samkvæmt frv. er lagt til að á þessu kjörtímabili skuli Byggðastofnun árlega hafa til ráðstöfunar þorskaflahámark sem nemur 500 lestum. Að kjörtímabilinu loknu virðist samkvæmt frv. aftur óhætt að treysta sjútvrn. fyrir úthlutun þessara tonna og það á sama grundvelli, þ.e. til að ráðstafa til krókabáta eða smábáta sem gerðir eru út frá byggðarlögum sem algjörlega eru háð veiðum slíkra báta og standa höllum fæti.
    Undirrituð leggjast ekki gegn því að í lögunum um stjórn fiskveiða sé viðlagaákvæði vegna þeirra aðstæðna sem upp kunna að koma og bregðast þarf við á stöðum sem algerlega eru háðir veiðum smábáta. Að okkar mati, og það hefur áður komið fram, er Byggðastofnun hins vegar ekki sá aðili sem á að úthluta veiðiheimildum. Þessi aðferð, að setja úthlutun veiðiheimilda í hendur Byggðastofnunar, er vísasti vegurinn til þess að skapa tortryggni og enn frekari deilur um og gagnrýni á fiskveiðistjórnunina. Sjútvrh. getur hins vegar leitað álits Byggðastofnunar eða annarra varðandi mótun reglugerðar eða úthlutun.
    Í verkefnaskrá sjútvrn. er boðað að gera eigi úttekt á mismunandi leiðum við fiskveiðistjórnun og bornir saman kostir og gallar ólíkra fiskveiðistjórnunarkerfa. Jafnframt er lýst yfir að niðurstöðurnar eigi að nýta við þróun fiskveiðistjórnunar. Þetta felur í sér þann möguleika að algjör uppstokkun kunni að verða á stjórnun fiskveiða í kjölfar boðaðrar úttektar. Þetta skapar mikla óvissu fyrir greinina í heild og torveldar áætlanagerð til framtíðar. Forustumenn í atvinnulífi, jafnt innan sem utan sjávarútvegsins, tala gjarnan um að skapa þurfi sátt um sjávarútvegsstefnuna og í stefnuræðu forsrh. kom fram að ríkisstjórnin leggur þunga áherslu á að sjávarútvegurinn búi við festu í starfsskilyrðum sínum. Því er nauðsynlegt að treysta starfsumhverfi greinarinnar með því að tímasetja lok boðaðrar endurskoðunar hið fyrsta og með það að markmiði leggur minni hlutinn til bráðabirgðaákvæði um að endurskoðun verði lokið í árslok 1996, en það er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Lög þessi skal endurskoða fyrir 1. janúar 1997 og skulu fulltrúar allra þingflokka eiga aðild að þeirri endurskoðun.``
    Bæði í verkefnaskrá sjútvrn. og í umræðum í þinginu um frv. þetta og stefnuna í málefnum sjávarútvegsins hafa komið fram ýmsar hugmyndir sem farsælast yrði fyrir greinina að menn færu yfir og næðu samstöðu um sem allra fyrst. Þar má nefna, auk framangreindra tillagna sem snúa beint að þeim þætti veiðanna sem frv. ríkisstjórnarinnar fjallar um, hugmyndir um að taka línutvöföldun inn í kvóta, um sveiflujöfnun í sjávarútvegi --- sem fram koma í verkefnaskrá sjútvrn. og um veiðileyfagjald en þær hugmyndir hafa verið kynntar af ýmsum hv. þm. úr þessum ræðustól --- verðmyndun á sjávarafla, en um það er fjallað í verkefnaskrá sjútvrn., og fiskmarkaði --- en þær hugmyndir hafa einnig verið viðraðar úr þessum ræðustól af ýmsum hv. þm. --- umgengni um auðlindir sjávar, en þar eru menn sammála um að taka þurfi til hendi, og ýmislegt fleira.
    Það er ljóst að í frv. ríkisstjórnarinnar er ekki að finna heildstæða stefnumótun varðandi sjávarútvegsmál og þar er ekki fjallað um þætti sem sem tengjast framangreindum atriðum, heldur einungis um afmarkaðan hluta fiskveiðistjórnunarinnar. Því flytjur minni hlutinn ekki tillögur sem þeim tengjast að sinni.