Stjórn fiskveiða

16. fundur
Fimmtudaginn 08. júní 1995, kl. 18:26:47 (529)


[18:26]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Sjútvn. hefur reynt að vinna að þessu frv. eins og aðstæður hafa leyft undanfarna daga og fengið til viðtals við sig alla helstu hagsmunaaðila sem þessu máli tengjast og aðra þá sem lýst hafa áhuga á því að koma sjónarmiðum á framfæri við nefndina. Auk þess hafa nefndinni borist ýmis erindi sem efni þessara frv. tengjast og önnur óskyld sem varða einstök atriði fiskveiðilöggjafarinnar. Enn er það svo að nokkur slík eru til skoðunar hjá nefndinni og kann svo að fara að sjútvn. flytji sameignlega brtt. annaðhvort síðar við þessa umræðu eða 3. umr. málsins á grundvelli erinda sem henni hafa borist og varða

þau lagfæringar á einstökum atriðum sem samstaða er um að betur megi fara. Vil ég þar sérstaklega nefna ákvæði varðandi rækjuveiði og möguleika útgerðaraðila til að geyma með sambærilegum hætti aflamark í rækju milli ára og tíðkast um flestallar aðrar kvótabundnar tegundir. Samkvæmt gildandi lagaákvæðum er það svo að einungis er heimilt að geyma ónýttar veiðiheimildir eða ónýtt aflamark í úthafsrækju milli ára en ekki er heimilt að fara fram yfir í þeirri tegund eins og á við um flestar aðrar.
    Þetta atriði og nokkur önnur eru enn til skoðunar í nefndinni og verði samstaða um að gera þarna tillögur um breytingar þá verður það, eins og áður sagði, annaðhvort gert síðar við þessa umræðu eða við 3. umr.
    Það liggur einnig fyrir að það er samstaða í sjútvn. um 1. tölul. brtt. meiri hluta sjútvn. sem lýtur að því að hverfa frá því að þrengja eða breyta endurnýjunarskilmálum fyrir fiskiskip sem byggð eru fyrir árið 1986. Eins og frv. er fram borið gerir það ráð fyrir því að sömu reglur yrðu settar yfir þau skip og gilt hafa um nýrri skip, þ.e. að þeim sé breytt eða afköst þeirra aukin, skipin stækkuð, þurfi að kosta til þess úreldingu. Eins og kunnugt er tóku slíkar reglur gildi á árinu 1986 og þá var valin sú leið að láta þær eingöngu taka til skipa sem byggð væru frá og með þeim tíma og hefur svo verið síðan. Þykir útgerðarmönnum eldri skipa nokkuð óvægilega að sér farið með því að taka nú hartnær áratug síðar upp þetta ákvæði og gera kröfur til þess að ef slík skip, sem eru eðli málsins samkvæmt komin nokkuð til ára sinna, eru að ganga í gegnum breytingar og endurnýjun, skuli þau þurfa að sæta þessum ströngu skilmálum.
    Kröfur hafa breyst og auðvitað hefur mikil þróun orðið í fiskiskipum á þessum tíma. Má þar nefna bæði aðbúnað manna og umbúnað um vinnslu í skipum og annað því um líkt og eðli málsins samkvæmt þarf orðið meira rými af þessum ástæðum og fleirum. Hertar reglur um meðferð afla kalla stundum á meira rými í skipum. Það er mat okkar að ef slíkar reglur yrðu settar, hertar endurnýjunarreglur, gætu þær beinlínis unnið gegn nauðsynlegri endurnýjun og hagræðingu í fiskiskipaflotanum. Sérstaklega hefur þetta komið til skoðunar varðandi loðnuskipin en sá floti er mestallur gamall og segja má úreltur í þeim skilningi að fæst skipanna í íslenska nótaveiðiflotanum eru útbúin til þess að bera að landi gæðahráefni miðað við þær kröfur sem gerðar eru í dag og bíður þar mikið verkefni ef við ætlum ekki að dragast óðfluga aftur úr öðrum þjóðum varðandi það að geta nýtt sambærilega uppsjávarfiska, loðnu og síld og aðra fiska til manneldis og í svipuðum hlutföllum og nágrannaþjóðirnar. Til þess að svo sé er augljóslega nauðsynlegt að endurnýjun eigi sér stað í þessum hluta flotans og að kæling, einangraðar lestar og annað því um líkt komi til sögunnar. Hætt er við að þessi regla hefði getað hamlað gegn slíkri þróun og því er fagnaðarefni að samstaða hefur orðið um að hverfa frá því að gera þessa breytingu.
    Að öðru leyti, herra forseti, er eins og þegar hefur komið fram í framsöguræðum meiri hluta og minni hluta ekki um sameiginlega afstöðu nefndarinnar að ræða og vísast um það til nefndarálitanna. Afstaða okkar til einstakra efnisþátta frumvarpanna hefur þegar komið fram í framsögu minni hluta sjútvn. og hef ég þar ekki miklu við að bæta en vil þó koma aðeins nánar inn á nokkur atriði.
    Í fyrsta lagi er það efni 1. gr. frv. sem varðar úreldingarreglur á skipum og smábátum þar með talið. Við teljum að um leið og það er viðurkennt að nauðsynlegt sé að setja því skorður að um hömlulausa afkastaaukningu geti verið að ræða í þessum hluta flotans eins og segja má að verið hafi á undanförnum árum verði á hinn bóginn að vega og meta hvað sanngjarnt sé að gera strangar kröfur þá þegar þær eru upp teknar. Það að leggja til að á einu bretti sé farið að gera tvöfalt stífari kröfur um úreldingu á móti endurnýjun þegar smábátar eiga í hlut en gert er í öðrum hlutum flotans er auðvitað mjög mikil breyting. Fyrir stærri skip gildir reglan tonn á móti tonni en hér er um tvöfalt stífari kröfu að ræða þar sem einungis má endurbyggja smábáta upp á helming af því sem hverfur úr notkun á móti. Eigandi að sex tonna smábát getur því eingöngu byggt eða endurnýjað fyrir eigin tonn í þriggja tonna bát.
    Sérstaklega vil ég staldra við þann þátt málsins að þetta ákvæði sé látið ganga niður úr alveg niður til minnstu skelja. Ég held að það hljóti að orka mjög tvímælis að gera eiganda smábáta, segjum þriggja tonna smábáts, sem hefur engin önnur áform í huga en þau að endurnýja í sams konar skip, jafnerfitt fyrir og raun ber vitni. Spurningar vakna hvort réttlætanlegt sé að mismuna mönnum jafnaugljóslega og þarna er gert eftir því hvaða stærð fiskiskips á í hlut. Að sjálfsögðu er eðlilegt að menn horfi til þess að stöðva þá miklu afkastaaukningu sem menn eru sammála um að hefur verið í gangi gegnum það að hæggeng og miklu lakari útbúin skip hafa verið að hverfa úr notkun og í staðinn komið mjög hraðgengir og afkastamiklir bátar, stærri og öflugri á allan hátt, en þarna er mikill munur á hvort slíkt sé stöðvað með einhverjum hætti og yfir í hitt að gera svona stífar kröfur. Ég hefði a.m.k. talið eðlilegt að athuga hvort ekki væri rétt að setja þarna einhver neðri mörk og heimila endurnýjun í sambærilegum bátum undir einhverjum tilteknum stærðarmörkum. Ég spái því að ef svo verði ekki gert þá muni því miður eiga eftir að koma upp umræða um öryggisþátt þessa máls ef sú verður þróun í sömu tilvikum að bátarnir smækka vegna þessarar reglu.
    Við minnum einnig á í nefndaráliti okkar að samtímis er verið að taka þá ákvörðun ef tillögur meiri hlutans ná fram að ganga eða ákvæði frv. að í þessu frv. og frv. til laga um breytingu á lögum um Þróunarsjóð að taka krókaveiðibátaflotann inn í Þróunarsjóðinn þannig að á grundvelli starfsemi sjóðsins má reikna með því að bátunum fækki á næstu árum. Minnkunin eða samdrátturinn á þessari tegund útgerðar gæti þar af leiðandi orðið mjög hraður á næstu árum í gegnum annars vegar helmings afkastaminnkun í allri endurnýjun og hins vegar uppkaup Þróunarsjóðs. Mér er ekki kunnugt um að nein sérstök stefnumörkun

liggi þar á bak við að það beri að beina kröftunum sérstaklega að því að minnka afköstin í þessum hluta flotans önnur en þau að menn vilji nota þá aðferð til að ná á nýjan leik niður þeirri hlutdeild í veiðum sem þessi hluti flotans er að taka. En ýmsar spurningar hljóta að vakna um sanngirni í þessu sambandi.
    Varðandi 2. gr. frv. og þá miklu umræðu, sem orðið hefur um það aðalefni málsins, að segja má, þ.e. ákvæði sem gildi um takmörkun eða sókn á veiðum þessa hluta smábátaflotans, er það að segja að í grófum dráttum felst í tillögum meiri hluta sjútvn. að halda sig við óbreytt efnisatriði frv. eins og það var fram borið þó að segja megi að styrkt séu með vissum hætti ákvæðin um mögulega upptöku róðrardagakerfis í framtíðinni með því að færa þau inn í 2. mgr. Eftir sem áður stendur að ekki er gert ráð fyrir því að róðrardagakerfið verði tekið upp á næsta fiskveiðiári. Það er óvissu undirorpið hvernig eða hvenær það verður gert. Breytingartillögur meiri hlutans breyta þar í raun og veru mjög litlu um að öðru leyti en einu og það virðist vera að þar sé ákveðin eða mörkuð sú stefna að þótt róðrardagakerfið komi til söpgunnar skuli hólfað niður í tímabil innan ársins eins og gilt hefur um gildandi banndagakerfi. Þar má segja að sé ákveðin stefnumörkun á ferð varðandi framtíðarfyrirkomulag róðrardagakerfisins, sem lá ekki ljóst fyrir áður og ég vil lýsa þeirri skoðun minni að ég er óánægður með þá tillögu. Ég tel að sóknardagakerfið eða róðrardagakerfið nái langbest tilgangi sínum ef menn mættu velja þá róðrardaga frjálst innan ársins. Nú liggur alveg ljóst fyrir að í vændum er mikil fjölgun annaðhvort banndaganna eða þá fáir, hlutfallslega mjög fáir róðrardagar, þegar og ef það kerfi kemur til sögunnar, og þeim mun óhagkvæmara er augljóslega að þeim dögum sé dreift yfir allt árið. Við getum hugsað okkur þá stöðu ef róðrardagarnir eru komnir niður fyrir eða um 100, að ekki er í sjálfu sér mikil hagkvæmni eða skynsemi fólgin í því að þvinga menn til þess með reglum að dreifa þeim fáu sóknardögum eða róðrardögum á allt árið þannig að menn þurfi að vera bundnir við útgerð sína allt árið og megi þá skreppa af og til á sjó innan ársins. Þannig er þetta á grundvelli núgildandi banndagakerfis. Menn hafa bundið vonir við og ekki er vafi á því að óskir smábátamanna eru þær að komi róðrardagakerfið til sögunnar, verði um að ræða mikið svigrúm og helst frjálst val á róðrardögunum innan ársins. Fyrir því eru að mínu mati einnig augljós hagkvæmnisrök. Að vísu má segja að það þýði væntanlega að sóknin muni þjappast saman yfir vor-, sumar- og hausttímann en á móti má spyrja: Er það ekki heppilegast af ýmsum ástæðum, frá öryggissjónarmiðum o.s.frv.? Það hlýtur að orka tvímælis að vera með kerfi í gangi sem að einhverju leyti þrýstir sókninni á minnstu skipum flotans yfir á vetrartímann þótt í gildi sé stopp yfir svartasta skammdegið.
    Langalvarlegasti hlutinn, sem felst í afgreiðslu málsins, eins og brtt. meiri hlutans og frv. gera ráð fyrir, er auðvitað það dagatal banndaga sem blasir nú við og hefur verið reiknað út og sjútvn. fékk í dag unnið af Landssambandi smábátaeigenda. Ég held að ástæða sé til þess að hvetja hv. þm. þó þeir séu ekki orðnir mjög margir eftir í þingsalnum að fletta upp á fskj. með nefndaráliti minni hluta sjúvn. og líta aðeins á þetta dagatal, setja sig nú --- og gekk nú fyrrv. sjútvrh. á dyr samstundis því að þetta var sagt --- og líta aðeins á það hvaða framtíð blasir við mönnum, þeim sem á grundvelli lítillar aflareynslu undanfarin ár kjósa að velja áframhaldandi banndagakerfi og/eða róðrardaga þegar þar að kemur. Meðan þetta banndagafyrirkomulag verður áfram við lýði, og má margt um það segja og forsendur og bakgrunn þess máls, er þetta myndin sem blasir við mönnum. Þetta er það svigrúm sem menn hafa þá til þessarar atvinnustarfsemi á næsta fiskveiðiári. Það er til að mynda þannig að þegar kemur fram á vetrar- og vormánuði næsta árs og banndögum hefur fjölgað gríðarlega vegna mikillar veiði á sambærilegu tímabili á árinu koma menn til með að mega róa í 10--12 daga marga bestu mánuði ársins sem verið hefur samkvæmt venju um smábátaveiðar. Svo við lítum aðeins á þetta, hæstv. forseti, yrði þetta þannig í febrúar á næsta ári að mönnum væri bönnuð sjósókn dagana 1. til og með 11. febr. á árinu 1996. Menn mættu róa 12., 13., 14., 15. og 16. febr., yrðu síðan að vera í landi 17. og 18. Menn mættu róa 19. febr. ef viðraði. Síðan yrðu menn að vera í landi 20.--25. febr. og mættu svo róa dagana 26., 27., 28. og 29. febr. Ég sé að það hlýtur að vera hlaupár á næsta ári. Þannig er nú það. Þetta eru 10 dagar og það eru ekki bara einhverjir 10 dagar í febrúar. Nei, það eru nákvæmlega þessir 10 dagar og ef ekki viðrar á sjó 19. febr. 1996 er sá dagur farinn. Þar sem um einn dag á þessu 10 daga tímabili er að ræða ætli það freisti þá ekki ýmissa að reyna að komast eitthvað út. Þannig er það. Sama má segja t.d. um vor- og sumarmánuði, sem er auðvitað alveg svakalegt, að sóknin í júní og ágúst verður bundin við tiltekna 10 daga í hvorum mánuði. Þetta er orðið mjög hæpið verð ég að segja. Spurningin er í raun og veru hvort nokkur glóra er þá lengur í kerfi sem tekur á sig þessa mynd. Vissulega er vandinn óbreyttur þó að við reynum að finna aðrar aðferðir í sambandi við málið, þ.e. stýra sókninni öðruvísi. Í því sambandi held ég að einasta svarið annað en að leyfa bátunum meira svigrúm til veiða en menn eru hér að tala um sé að hverfa frá banndagakerfinu yfir í að leyfa mönnum þó að hafa einhvern tiltekinn dagafjölda til þess að sækja sjó og ráða tiltölulega mikið og helst alveg sjálfir hvenær ársins það er.
    Hæstv. forseti. Í ljósi þessarar myndar og í ljósi umræðunnar, sem varð við 1. umr., urðu mikil vonbrigði að ekki náðist samstaða um það í sjútvn. að velja þá leið að útfæra nothæft og sanngjarnt róðrardagakerfi og hverfa að því sem stýritæki í þessu sambandi. Það er sú leið sem við í minni hlutanum viljum fara og til að sýna að okkur er alvara í þeim efnum leggjum við fram brtt. um útfærslu á slíku kerfi sem kæmi þá í stað 2. gr. frv. eins og hún er nú og í stað breytinganna sem meiri hlutinn leggur til á þeirri grein. Frsm. minni hlutans hefur gert grein fyrir þessum ákvæðum og ég þarf ekki að fara betur yfir það en ég vil undirstrika að það er sannfæring mín að langbesta niðurstaðan úr því sem komið er í málinu væri

eitt róðrardagakerfi fyrir allan krókaveiðiflotann. Ég held að engin stórfelld séu vandkvæði á því í fyrsta lagi að útfæra það kerfi, í öðru lagi að hafa fullnægjandi eftirlit með því nú þegar eða frá og með haustinu þegar það tæki gildi og í þriðja lagi að hafa hemil á sókninni eða veiðunum í því kerfi þannig að þessi hluti flotans væri ekki að auka með ósanngjörnum hætti hlut sinn. Ég fullyrði þetta þrennt. Hvað það fyrsta varðar vísa ég í brtt. á þskj. 61. Ég held að það sé mjög auðvelt að setja upp slíkt kerfi með tilteknum föstum stoppum en að öðru leyti frjálsu vali róðrardaga að byggja þar á tilteknum fjölda róðrardaga miðað við núverandi aflaúthlutun, þau 150 þúsund tonn eða þar um bil af þorski sem úthlutað er, og hafa aðrar tegundir þar frjálsar eins og verið hefur. Síðan mætti hreyfa til eða endurskoða þennan dagafjölda í ljósi þess hvernig aflamark eða veiðiúthlutun á þorski þróast á komandi árum.
    Það er alveg ljóst að afkastaveiðiaukningin í krókaveiðunum undanfarin ár er fyrst og fremst vegna stóraukinna veiða á línu. Þess vegna er nærtækt og eðlilegt að horft sé til þess ef nauðsyn krefur að takmarka einhvern veginn enn frekar en þá til að mynda með 100 róðrardögum á allan flotann, sóknina eða aflann hjá þessum hluta flotans og gera það með því að setja sérstök takmörk á þennan þátt veiðanna sem mest hefur aukið aflann og afköstin, þ.e. línuveiðarnar. Hér eru lagðar til annars vegar takmarkanir á línumagni hjá hverjum báti en hins vegar að ráðherra geti sérstaklega takmarkað línuveiðarnar yfir heildina ef heildarafli krókaveiðibáta stefnir í að aukast með ósanngjörnum hætti miðað við það sem verið hefur yfir síðastgengin ár. Þá er eðlilegt að líta ekki aðeins til þess mikla afla, sem er að verða á þessu fiskveiðiári og er mun meiri heldur en nokkur átti von á, heldur einhverjar eðlilegarar viðmiðunar einhver ár aftur í tímann fyrir þennan hluta flotans. Ég fullyrði að með slíkum aðferðum má finna sanngjarna viðmiðun og hafa varastýritæki til viðbótar við róðrardagafjöldann sem ætti að geta orðið alveg fullnægjandi. Ég held að að ekki eigi að vera að hugsa sókn þessa hluta flotans, þessara minnstu skipa sem eingöngu veiða á króka út frá því að það skipti höfuðmáli hvort hún er á einu ári 19 þús., 21 þús. eða 23 þús. tonn eða eitthvað þar um bil. Það er ekki stóra málið. Allir vita að það er nauðsynlegt og sanngjarnt að halda þessari sókn innan einhverra marka og auðvitað er ekki hægt að búa við að einhver einn hluti útgerðarinnar í landinu geti stanslaust aukið hlut sinn, það gengur ekki, um það hljóta allir að verða sammála. Það liggur í eðli sjósóknarinnar að hún er og verður sveiflukennd, bæði vegna aflabragða, mismundandi tíðarfars o.s.frv. og þó að reikna mætti með því að eitthvað meiri stöðugleiki kæmi í útgerðina með tilkomu róðrardagakerfis af augljósum ástæðum held ég að á móti mætti auðveldlega beita aðferðum eins og þeim að takmarka þá að einhverju leyti notkun afkastamesta veiðarfærisins eða þess veiðarfæris sem afkastameira er, þ.e. línunnar frekar en færaveiðanna. Fyrir því eru líka þau hagkvæmnisrök að línuveiðiútgerðin er að sjálfsögðu mun dýrari og margir telja að sá afli, sem ýmsir af krókabátunum eru að ná og mikið hefur verið umtalaður, þ.e. hjá þeim bátum sem jafnvel hafa veitt sem nemur um hundruðum tonna, sé á köflum býsna dýru verði keyptur þegar sótt er fast á litlu skipi með dýrri útgerð eins og línuútgerð er. Það er því spurning hvort það þyrfti að koma svo mjög við þessa staði og útgerðirnar ef á móti kæmi róðrardagakerfi með sanngjörnum dagafjölda. Ég er ekki í neinum vafa um að betra væri að lenda málinu með einhverjum slíkum hætti og losna við það að þurfa að þvinga fram val af því tagi sem nú stendur til milli krókaveiða með aflahámarki annars vegar eða hins vegar krókaveiða með mun fleiri banndaga eða þá í framtíðinni einhvern tíma róðrardaga. Ég ítreka að það eru vonbrigði að ekki skyldi nást samstaða um slíkar breytingar. Mér er nær að halda að það sem fyrst og fremst hafi skort í þeim efnum sé meiri tími. Ég er bjartsýnismaður að eðlisfari og er trúaður á að skynsemin hefði ráðið að lokum ef maður hefði haft tíma til að vinna betur í málinu og skoða þetta betur. Það er afar bagalegt að þurfa að afgreiða þetta frá þinginu á jafnlitlum tíma og til stefnu er.
    Ég vil líka láta sjónarmið mitt koma fram í sambandi við fiskveiðistjórnina gagnvart minnstu bátunum að í framhaldi af því að útfæra eitt sameiginlegt róðrardagakerfi fyrir allan krókaveiðiflotann, alla báta undir sex tonnum, sem stunda krókaveiðar, teldi ég eðlilegt að smábátum á aflamarki undir sex tonnum yrði jafnframt gert á nýjan leik kleift að velja hvort þeir vildu hverfa inn í það kerfi róðrardaga og verða hluti af þeirri stjórnun eða búa áfram við það aflamark, sem þeir hafa, og áfram við þá skertu aflareynslu sem margir þeirra búa við, þ.e. þeir sem eftir eru. Af sjálfu leiðir að þeir tækju þá aflareynslu sína með tilteknum hætti inn í þann pott og þar af leiðandi ætti sú breyting ekki að þurfa að hafa mikil áhrif. Með því væri verið að reyna að einfalda stjórnkerfið með því að flækja það. Með því væri hugsanlega eða vonandi verið að nálgast þá framtíð að innan ekki langs tíma væri mestallur og jafnvel svo til allur smábátaflotinn undir sex tonnum meðhöndlaður eins, allir sættu sams konar fiskveiðistjórnun. Ég er sannfærður um að sú stjórnun sem þar hentar best eru sóknartakmarkanir af því tagi sem gætu einmitt falist í tilteknum fjölda róðrardaga og þá að einhverju leyti takmörkunum á notkun krókaveiðarfæranna.
    Þá vil ég, hæstv. forseti, aðeins gera að umtalsefni ákvæði til bráðabirgða II sem fjallar um viðlagasjóðinn sem farið er að kalla svo. Það þarf alltaf að finna nýtt nafn á hvern einasta sjóð. Ef við segjum að þetta sé einhvers konar viðlagasjóður, þ.e. 500 lestir af þorski sem heimilt sé að ráðstafa til byggðarlaga sem eru algerlega háð veiði smábáta og standa höllum fæti. Ég er þeirrar skoðunar að eins og ákvæðið er útfært í frumvarpstextanum sé það afar gallað og mér er ekki alveg ljóst hvernig menn ætla í sjálfu sér að útskýra að ákvæðið nái að óbreyttu tilgangi sínum. Það er þannig úr garði gert, hæstv. forseti, að gert er ráð fyrir að þessum 500 lestum megi einungis úthluta til krókaveiðibáta og þá væntanlega þeirra sem veiðar stunda á grundvelli aflahámarks, þ.e. þeirra sem valið hafa aflahámark því að engin ástæða er til að

úthluta öðrum bátum aflamarki en þeim sem sæta takmörkunum á slíkum grundvelli nema umreikna eigi aflamark yfir í róðrardaga eða fækkun banndaga hjá þeim hluta krókaveiðiflotans sem velur það kerfi. Ég hef spurt að því, hvað ætla Danir að gera ef enginn bátur velur aflahámarksleiðina. Hvernig á þá að koma pottinum út? Ég held að þetta sé mjög vanhugsað auk þess sem það er auðvitað engin trygging, það liggur engin trygging eða athugun fyrir um það að þeir staðir sem mest kynnu að þurfa á slíkum stuðningi að halda sé hlutfall krókaveiðibáta, ég tala nú ekki um þeirra báta sem velja aflahámark það mikið að þeir skipti sköpum. Þar getur alveg eins hugsast að uppistaðan séu smábátar á aflamarki. Hvað ætla menn þá að gera samkvæmt ákvæðinu eins og það er útfært er ekki heimilt að úthluta þessu til þeirra heldur er þetta bundið við krókaveiðibáta?
    Ég held að þetta sé mjög vanhugsað og þarna ætti að hafa ákvæðin rýmri, þ.e. þarna væri um að ræða varasjóð sem heimilt væri að ráðstafa í aðalatriðum fyrst og fremst til þessara byggðarlaga með þeim hætti sem best nýttist atvinnulífinu á viðkomandi stöðum og a.m.k. væri það að einhverju leyti opið að úthluta þessu til smábáta á staðnum, ekki bara krókaleyfisbáta og í öllu falli ekki bara sumra krókaleyfisbáta. Ég skil þetta ekki almennilega og það eru mikil vonbrigði ekki skuli hafa verið reynt að lagfæra þetta ákvæði þrátt fyrir umræður og ábendingar þar um við 1. umr. og fyrirspurnir í sjútvn. E.t.v. liggur einhver dýpri hugsun á bak við sem á eftir að koma fram og ég lýsi þá eftir henni.
    Við leggjum til í brtt. minni hlutans að horfið verði frá því ráði að láta Byggðastofnun úthluta þessu og fyrir því eru ýmis rök. Það er að sjálfsögðu ekki frumskylda Byggðastofnunar að fara að blanda sér inn í stjórn fiskveiða og ráðstöfun aflaheimilda og er náttúrlega nokkuð frumleg hugsun að láta sér detta það í hug. Hitt hefði verið miklu eðlilegri framsetningarmáti að sjútvrn. færi með þessar veiðiheimildir eins og aðrar en leitaði þá álits og tillagna þeirra aðila, þar á meðal sérfróðra aðila um byggðamál og stöðu byggðarlaganna sem tilefni væru til. Ég vil láta það sjónarmið mitt koma fram að ég teldi eðlilegt samanber brtt. okkar í minni hlutanum að sjútvrn. leitaði um ráðstöfun þessara aflaheimildar eða þessa potts á hverjum tíma tillagna og samráðs við Byggðastofnun og sjútvn. Alþingis og úthlutaði þessu svo eftir þörfum þegar og ef svo bæri undir. Hugsuninni er ég hins vegar sammála. Ég er orðinn þeirrar skoðunar að það verði í raun aldrei viðunandi niðurstaða í þessum efnum fyrr en menn fást til þess að taka í einhverjum mæli tillit til algerrar sérstöðu nokkurra byggðarlaga hvað þetta snertir. Við erum með nokkur byggðarlög í landinu sem eru algerlega háð sókn smábáta og þar sem smábátaútgerð er undirstaða atvinnulífs og undirstaða byggðar og reyndar eru mörg þessara byggðarlaga landfræðilega mjög einangruð. Mörg þeirra búa við þannig hafnarskilyrði að þar er ekki möguleg útgerð stærri skipa, hafnirnar eru einfaldlega svo litlar og grunnar að þaðan verða ekki gerðir út annað en bátar. Þar af leiðandi er sérstaða þeirra alveg skýrt afmörkuð, landfræðilega og hvað alla aðstöðu snertir og verður svo væntanlega um langa hríð. Ég geri ekki ráð fyrir því á næstu árum og þykist þar tala af nokkurri þekkingu að ráðist verði í hafnargerð fyrir stór skip, togara eða stór skip í Grímsey, á Bakkafirði, Borgarfirði eystra o.s.frv. Fyrir því eru líka ýmis slík rök sem má tína til ef menn telja sig vera fátæka af rökum til þess yfirleitt að hafa slíkt úrræði til þess að koma til móts við byggðarlög í sérstökum erfiðleikum. Hér er auðvitað gamalkunnug hugsun á ferðinni. Þetta er að mörgu leyti sambærilegt ákvæði og var í lögunum um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins á sínum tíma áður en hann var eyðilagður en þar var einmitt gert ráð fyrir því að Hagræðingarsjóður gæti í fyrstu umferð selt eða ráðstafað byggðarlögum fyrir endurgjald í veiðiheimildum til byggðarlaga sem ættu í erfiðleikum og hefðu misst frá sér veiðiheimildir en ef enginn kaupandi fyndist að veiðiheimildum á staðnum og ekki væru önnur úrræði gerðu þau ákvæði ráð fyrir því að Hagræðingarsjóði væri að endingu heimilt að útdeila slíkum veiðiheimildum án endurgjalds til byggðarlaga. Hér er í raun alveg sambærileg hugsun á ferð bara með þessum sérstaka og frumlega hætti að Byggðastofnun var og er ætlað að fara með þetta úthlutunarvald algerlega án allra fyrirmæla eða afmörkunar um það hvenær og hvernig því skuli beitt.
    Spurt var um hvaða staðir væru hafðir hér sérstaklega í huga og við því voru fá svör önnur en þau að mæta með einn helsta sérfræðing Byggðastofnunar á fund í sjútvn. sem vel að merkja höfðu aldrei af ákvæðinu heyrt þegar þeir voru beðnir að mæta fyrir nefndina svo þess að það upplýsist að þessi snilld var sett inn í frv. án þess að um það væri haft hið minnsta samráð við Byggðastofnun. Spyrja má hvort það séu eðlileg vinnubrögð.
    Afstaða okkar er sem sagt sú að eðlilegast sé að sjútvrn. fari með veiðiheimildirnar en leiti þá samráðs og tillagna frá aðilum eins og Byggðastofnun eftir því sem ástæða þykir til.
    Að síðustu um endurskoðunarákvæði laganna. Við leggjum til úr því að boðuð er endurskoðun laga um stjórn fiskveiða og fleiri málefna sjávarútvegsins á annað borð í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar verði það afgreitt nú með hvaða hætti menn hugsa sér að sú endurskoðun fari fram og hve langan tíma hún taki. Á það hefur verið margoft bent að ekki er æskilegt að endalaust sé verið með slík ákvæði uppi og það skapi óvissu og óöryggi í greininni hvað sé í vændum. Við leggjum þess vegna til að endurskoðuninni verði afmarkaður ákveðinn tímarammi og jafnframt verði bundið í lögum að fulltrúar allra þingflokka eigi aðild að þeirri endurskoðun. Þá verði tekið upp á nýjan leik eldra vinnulag, sem tíðkaðist allt fram að síðasta kjörtímabili, að fulltrúar allra þingflokka ásamt með þá eftir atvikum hagsmunaaðilum áttu aðild að slíkri vinnu. Ég spurði hæstv. sjútvrh. eftir því við 1. umr. hvað væri að frétta af slíkum málum og mér þætti fróðlegt að fjallað yrði um það hér á eftir og hann lýsti viðhorfum sínum í þeim efnum. Það virðast vera eitthvað mismunandi sjónarmið uppi hjá stjórnarliðinu um hversu mikið sé í vændum að þessu leyti. Sumir hv. þm. stjórnarliðsins tala um að stórátökin bíði haustsins og sé aldeilis í vændum að taka sjávarútvegsmálunum tak en af máli annarra, þar með talið stundum hæstv. sjútvrh., virðist helst mega ráða að ekki sé mikið fyrirhugað annað en það sem hér er á ferðinni. Að öðru leyti eigi að mestu að ríkja óbreytt ástand á þessu sviði þjóðlífsins eins og væntanlega mörgum fleirum í tíð þessarar kyrrstæðu ríkisstjórnar.
    Hæstv. forseti. Að þessu sögðu er ekki tilefni til að hafa um þetta öllu fleiri orð af minni hálfu. Það er alveg ljóst að hér er ekki á ferðinni tímamótaafgreiðsla á málefnum sjávarútvegsins, einhver heildstæð stefnumörkun eða annað því um líkt sem ástæða sé til að staldra við og fagna nema síður sé. Það örlar hvergi á slíku hjá hæstv. ríkisstjórn. Stjórnarsáttmáli og verkáætlun eru að þessu leytinu til afar fátækleg og ekki virðist mikils að vænta í þeim efnum á kjörtímabilinu. Hér eru fyrst og fremst á ferðinni aðgerðir gagnvart smábátum og minnsta hluta útgerðarinnar. Það er alveg ljóst að þetta sem er á ferðinni mun koma mjög víða við, sérstaklega ef það nær óbreytt fram að ganga eins og frv. og brtt. meiri hlutans gera ráð fyrir. Ég veit að það verða smábátasjómönnum um allt land mikil vonbrigði ef ekki næst betri niðurstaða en hér er boðuð og held ég þó að í þeim hópi hafi öllum verið ljóst að til einhvers konar takmarkana umfram það sem nú er á þessu ári hlyti að koma. Að búa áfram við algerlega óbreytt ástand var ekki heldur ásættanlegur kostur. Það sýnir okkur dagatalið ljóta sem í vændum er að óbreyttu banndagakerfi. Þess vegna ber að leita einhverra annarra viðunandi leiða til þess að gera mönnum eftir sem áður sæmilega lífvænlegt að stunda sjósókn á þessum hluta flotans og hafandi þá líka í huga þær kringumstæður sem menn búa þarna við, öryggisþátt málsins og annað því um líkt sem hér hefur verið nefnt til sögunnar.
    Ég vil líka nefna að mér finnst ástæða til að hafa í huga þegar þessi mál eru til skoðunar að er þetta sú umgengni um lífríkið að flestra dómi sem hvað vinsamlegust er. Ég hef að vísu orðið fyrir því að enda í rökræðum við menn sem halda jafnvel gagnstæðum hlutum fram og fullyrða að þarna eigi sér fyrst og fremst stað veiði á smáfiski og það megi færa fyrir því rök að það sé jafnvel heppilegra að taka aflann í stórvirk veiðarfæri á annan hátt. Ég held að því sé samt ekki á móti mælt að krókarnir drepa þó í öllu falli ekki meira en það sem á þeim lendir og ef ekki er um aflamarkstakmarkanir að ræða er ekki fyrir hendi sá hvati til úrskasts sem er í öðrum tilvikum að flestra dómi og viðurkennt er sem stórfellt vandamál. Ég er eftir sem áður sannfærður um það að flest rök hnígi til þess að það sé að breyttu breytanda heldur vinsamlegt lífríkinu að sjósókn sé stunduð með þessum hætti.
    Mér er líka nokkurt umhugsunarefni hvort það er að verða svo að við Íslendingar séum að lenda í fiskveiðistjórnunarfarvegi sem eigi með öllu að klippa á öll samtímaskilaboð frá lífríkinu. Það er eins og enginn taki það sem neina stærð inn í þetta samhengi sem menn þurfa að hugsa um hvað aflabrögðin hafa aukist einmitt á smábátunum undanfarna mánuði og missiri. Hvers vegna er það? Eru það ekki einhverjar fréttir úr lífríkinu sem ástæða er til að taka a.m.k. eitthvert mark á og hugleiða? Getur það ekki einmitt verið vegna þess að það sé mikil fiskgengd á þeirri slóð sem þessi hluti flotans sækir á? Er það þá eitthvað sem kemur okkur ekki við og við eigum sem sagt að klippa á slík skilaboð með því að fiskveiðistjórnunarkerfið sé ónæmt fyrir þeim upplýsingum og þar gildi einhver fyrir fram ákveðin föst magntala, þök eða kvóti sem sé ekki næm á slíkt? Ég hef efasemdir um það að við séum á réttri braut varðandi þá hlið málsins að reyna að nálgast nýtingu lífrænna auðlinda á grundvelli næmni og þekkingar á eðli og eiginleikum þeirra. Ég á afar erfitt með að sjá að frá þessum forsendum sé sá afli sem tekinn er á smábát á Íslandi eitthvert stórfellt vandamál. Hinu er auðvitað ekki nokkur leið að mótmæla að það skapar óánægju og úlfúð ef einhver einn hluti flotans eykur mjög hlutdeild sína og sérstaklega ef það er á kostnað annarra og á sama tíma og aðrir fá minna. Um það má margt segja. Eitt er ljóst í því sambandi að möguleikar smábátanna eru ekki þeir sömu og annarra til að bæta sér upp t.d. minni veiði á þorski með sókn í aðrar tegundir og önnur mið. Það hefur a.m.k. hluta stærri skipanna tekist að gera. Stóru úthafsveiðiskipin hafa þar mikla möguleika og hafa sýnt að þau geta það. En það er kannski bátaflotinn að öðru leyti og einkum og sér í lagi vertíðarbátaflotinn eða netabátarnir sem hafa ekki átt sömu möguleika. Í mínum huga er út frá sanngirnisrökum innbyrðisstaða smábátaútgerðarinnar og útkoma mismunandi hópa þar frá réttlætissjónarmiði séð meira vandamál en endilega samanburður þessara báta við stóru skipin. Markmiðið hlýtur auðvitað að vera að reyna að finna einhverja fiskveiðistjórnun og verkaskiptingu sem skapar öllum möguleika til að komast af. Það hlýtur að vera keppikefli og markmið okkar allra að reyna að haga málum þannig að allir geti haft verkefni, allir geti haft afkomu. Í því sambandi ber auðvitað að fagna sérstaklega þeirri þróun í átt til aukinna veiða á úthafinu og veiða á vannýttum tegundum, sem hefur þó orðið undanfarin ár, og þarf ekki að fjölyrða um hvernig staða okkar væri ef slíkt hefði komið til sögunnar, t.d. stórauknar veiðar á rækju, veiðar í Barentshafi, á Reykjaneshrygg, á Flæmska hatti, nýtilkomnar veiðar á síld o.s.frv. En við erum ekki að fjalla um þau mál hér heldur fyrst og síðast þau mál sem snúa að smábátunum og ég verð því miður að segja að niðurstaðan eins og hún er hér lögð fram af hálfu meiri hlutans er mér vonbrigði. Ég hafði bundið vonir við að samstaða gæti tekist um útfærslu á þessum málum sem ég hafði ástæðu til að ætla að gæti orðið farsælli en þetta.