Stjórn fiskveiða

16. fundur
Fimmtudaginn 08. júní 1995, kl. 20:50:20 (534)

[20:50]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Ég hef jafnmiklar efasemdir um ágæti banndagakerfisins sem svo er nefnt eins og hv. 15. þm. Reykv. en eins og kunnugt er er hann höfuðsmiður þess kerfis. (Gripið fram í.) En eigi að síður er það svo að ég hef sömu áhyggjur af þróun þess kerfis og hann og tel að þau rök sem hann færði hér fram og fleiri hv. þm. hafa gert um galla þess séu rétt. Þess vegna er mér alveg jafnmikið kappsmál og honum að koma róðrardögum á sem allra fyrst vegna þess að ég er sammála hv. þm. og fleiri hv. þm. um galla þessa kerfis og ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur til þess að svo sé gert.
    Þær breytingar sem hv. sjútvn. hefur gert á frv. gera það að verkum að róðrardagakerfið er alveg skýr valkostur en það hlýtur að vera eðlilegt sjónarmið að ráðuneytið sem ber ábyrgð á framkvæmd þessara mála geti verið fullvisst um að framkvæmdin verði með öruggum hætti og það mun ráðuneytið ganga í. Það er reyndar þegar hafinn undirbúningur að því að tryggja nauðsynlegt eftirlit í þessu efni og sú vinna er farin af stað.
    En ég vil aðeins fullvissa hv. 15. þm. Reykv. og reyndar aðra hv. þm. um að það er kappsmál ráðuneytisins að þessi breyting nái fram sem allra fyrst og þess vegna er það svo að hér er um alveg skýran valkost að ræða eftir að þær breytingar hafa verið gerðar sem meiri hluti hv. sjútvn. hefur mælt fyrir um í dag.