Stjórn fiskveiða

16. fundur
Fimmtudaginn 08. júní 1995, kl. 20:56:11 (538)


[20:56]
     Guðjón Guðmundsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Össur Skarphéðinssyni fyrir þau fallegu ummæli sem hann lét falla um þá ræðu sem ég flutti við 1. umr. um þetta frv. Ég hafði satt að segja ekki gert mér grein fyrir að sú ræða hafi verið jafnafburðasnjöll og hann lýsti en fyrst hv. þm. segir svo þá freistast ég til að trúa því.
    Hv. þm. nefndi það að þeir stjórnarliðar sem töluðu við 1. umr. hafi gefið fyrirheit um að frv. yrði lagfært af hv. sjútvn. milli 1. og 2. umr. Ég gaf reyndar engin slík fyrirheit en ég vonaði og trúði að hv. sjútvn. mundi gera jákvæðar breytingar á frv. milli umræðna. Það hefur því miður ekki orðið og því er frv. jafnómögulegt og það var við 1. umr. fyrir viku. Þess vegna eiga allar þær athugasemdir sem ég gerði þá við frv. jafnt við nú við 2. umr. Þær voru helstar að ég er óánægður með það hvernig á að úthluta þeim 5.000 tonnum sem á að bæta við kvóta aflamarksflotans á þessu fiskveiðiári. Ég er óánægður með fyrirhugaða kvótasetningu krókaleyfisbátana. Ég tel að það eigi að stjórna veiðum þeirra með róðrardögum frá og með næsta fiskveiðiári 1. sept. Ég tel það ekki vandamál að hafa eftirlit með sjóferðum þessara báta frá höfnum landsins eins og ég gat um í ræðu minni við 1. umr. og ég tel hægt að koma í veg fyrir að menn svindli á því kerfi með því að beita ströngum viðurlögum. Allar þessar athugasemdir eiga jafnt við við 2. umr. og 1. umr.