Stjórn fiskveiða

16. fundur
Fimmtudaginn 08. júní 1995, kl. 20:59:03 (540)

[20:59]
     Guðjón A. Kristjánsson :
    Hæstv. forseti. Mig langar að fara nokkrum orðum um það sem hér hefur verið rætt í dag. Ég hafði ákaflega gaman af því að hlusta á ræðu hv. þm. Össurs Skarphéðinssonar. Ég er mjög sammála honum um mjög margt sem hann sagði varðandi fiskstofnana og kvótakerfið og þær afleiðingar sem það hefur haft. Reyndar lýsti hann sumu um kvótakerfið ef ég hef skilið hans mál rétt sem fer ekki alveg saman við mínar skoðanir, en um fiskstofnana og nýtingu þorskstofnsins og hvernig það mál hefur allt þróast held ég að við séum mjög sammála.
    Það er kannski rétt að draga fram upplýsingar sem hafa ekki komið fram hér í dag. Eins og allir vita höfum við verið með kvótakerfi í tíu ár eða rúmlega það. Hvaða trú hafa menn haft á því að kvótakerfið byggði upp þorskstofninn í raun og veru ef við skoðum það mjög gaumgæfilega? Í raun og sannleika hefur trú manna á því að kvótakerfið sem slíkt byggði upp þorskstofninn ekki verið nein og það sést best á því hvaða aðferðir við höfum tekið upp undanfarin 2--3 ár. Við höfum tekið upp þá aðferð til þess að byggja upp þorskstofninn að loka stórum svæðum fyrir Norðurlandi. Það var gert í kjölfar þess að menn urðu varir við mikið af smáfiski á togurunum 1993. Þá var öllu Strandagrunninu lokað, stórum svæðum fyrir Norðurlandi, og ég veit það að ef Össur Skarphéðinsson hefur skoðað það þá sér hann að sókn togara í þorsk fyrir Norðurlandi svo til horfin. Það er ástæða þess að þorskstofninn er í dag mun stærri en menn hafa þorað að setja fram í skýrslum. Það er vandamál sem við eigum við að glíma að ég tel að það sé ekki auðvelt fyrir fiskifræðinga að komast út úr þeirri fullyrðingu sem sett hefur verið fram af Hafrannsóknastofnun á undanförnum árum um það við ættum við ekki von á auknum afla í þorski fyrr en undir aldamót.
    Það er mín skoðun að við hefðum átt að vera að veiða núna um 200 þús. tonn af þorski á næsta fiskveiðiári, alveg tvímælalaust. Við erum með kvótakerfi og kvótakerfi er því verra sem aflaheimildirnar eru minni. Það er staðreynd. Ég held að enginn geti mælt á móti því. Þegar menn eru með litlar aflaheimildir í blönduðu kvótakerfi, ég kalla það blandað kvótakerfi þegar við erum með kvótakerfi sem er að stjórna veiðum á mörgum fisktegundum samtímis, eins og er í botnfiskveiðikerfinu okkar. Kvótakerfið gengur ágætlega upp í loðnu, síld og ýmsum fleiri tegundum. En það gengur afar illa upp í blandaðri botnfiskveiði og því verr sem aflaheimildirnar eru minni og því meiri sóun sem aflaheimildirnar eru minni.
    Þetta hljóta allir þingmenn að vita þó að þeir vilji kannski ekki tala um það. Þetta er innbyggt í kvótakerfið. Ef við værum að veiða núna 400 þús. tonn af þorski þá væri engin sóun í kvótakerfinu en það er mikil sóun í því í dag með ýmsum hætti. Ég ætla ekki að eyða löngu máli í það.
    Mig langar aðeins að víkja að því sem ég tel að eigi að vera grunninntak þess þegar Alþingi ætlar að setja lög um atvinnu manna. Í þessu tilviki erum við að fjalla um lög sem snúa að stærstum hluta að veiðum krókabátanna og reyndar líka viðbótarafla fyrir þau skip sem hafa farið verst út úr þorskskerðingunni. Það á að vera hlutverk Alþingis, ef ég hef skilið það hlutverk rétt sem ég vona að ég hafi gert, og okkar allra sem erum hér að störfum að setja lög sem gera þegnana jafnsetta. Hvernig förum við að því að setja lög sem gera þegnana jafnsetta? Við hljótum að gera það þannig að við tökum mið af því hvernig landshagir eru í landinu, hvernig hagar til á landsvæðunum og hvernig þarf að gera lögin úr garði þannig að menn séu jafnsettir. Það er ekki hægt með því að setja niður banndagakerfi eins og það hefur verið útfært fyrir krókabátana. Það er alveg útilokað. Það getur ekki annað en mismunað mönnum vegna þess að það er allt annað að stunda sjósókn fyrir Norðurlandi en Suðurlandi. Þess vegna er það innbyggt í kerfi sem er svona fram sett að sjósókn fyrir sunnan nýtist mun betur að öllu jöfnu en fyrir Norðurlandi. Þess vegna er innbyggð mismunun í kerfið og það eina sem getur lagfært slíka mismunun er að kerfið sé þannig útbúið að það séu sjódagar sem menn geta valið sér og þá hafa allir sömu möguleika til þess að nýta sér dagana þegar gefur til sjávar.
    Þess vegna þótti mér í sjálfu sér mjög vænt um þá yfirlýsingu sem hæstv. sjútvrh. gaf áðan að það væri markmið hans að setja upp sóknardagakerfið fyrir smábátana. En þá skil ég heldur ekki hvers vegna ekki er hægt að sameina tillögur minni hlutans og taka þá stefnumörkun sem þar er um það að taka upp

beina róðrardaga á næsta fiskveiðiári. Ef ekki er nægur tími miðað við næstu fiskveiðiáramót þá mætti auðveldlega taka það upp um næstu áramót eða t.d. í febrúar. Það liggur í því sem þingmenn geta séð á þessu blaði. Það má búa við kerfið, eins og það á að vera þegar kemur fram í september, október og nóvember næsta haust ef menn þurfa meiri tíma til að komast inn í sóknarstýringuna.
    Síðan koma bannmánuðirnir. Ég held að sé ekki ágreiningur um að vera ekki að halda úti sókn smábáta yfir svartasta skammdegið, og síðan gæti kerfið tekið við. Um þetta held ég að þingmenn ættu að reyna að sameinast. Eins og framsetningin er nú á tillögum meiri hlutans þá mun ég ekki fylgja því ákvæði sem snýr að því að skammta sóknina eins og þar er upp sett. Ég tel að tillaga minni hlutans sé mun betri í þessu atriði, ég tala alveg skýrt um það. Og ég held að við eigum að bera gæfu til þess að ganga þannig frá lögum á Alþingi að við getum nokkurn veginn varið það fyrir fólkinu sem á að búa við lögin að það sé jafnsett að því leyti. Það er hlutverk okkar að setja lög sem ekki mismuna þegnunum og hafa lögin þannig úr garði gerð að við þau megi búa. Við eigum ekki að setja upp kerfi sem leiðir til þess að hætta er á því að við drepum fólk.
    Það mætti svo sem margt fleira um þessi mál segja en ég vil víkja að einu. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson minntist á stuðning minn við viðhorf krókaleyfisbáta til steinbítsveiði eða annarrar utankvótaveiði. Það eru fleiri tegundir sem ekki eru í kvóta sem betur fer heldur en steinbíturinn þó að hann eigi aðallega heima fyrir vestan. Ég tel að þær tegundir sem ekki eru í kvótakerfi eigi að vera frjálsar öllum til veiða og þannig eigi þær líka að vera frjálsar þeim mönnum sem stunda veiðar með krókum. Það á að vera markmið okkar að útfæra veiðikerfið fyrir smábátana þannig að það megi við það búa. Við eigum ekki að setja af stað nýja hringferð í sölu kvótans. Við gerðum það fyrir nokkrum árum og er kannski rétt að rifja það aðeins upp.
    Þeir sem áttu 11 tonna bátana þegar var krókaleyfi á bátum undir 10 tonn seldu kvótann á skipastærðinni 10 og upp í 20 tonn. Og hvað gerðu þeir? Þeir keyptu sér báta undir 10 tonnum. Síðan settum við kvóta á báta milli 6 og 10 tonn. Hvað gerðu þessir menn sem ekki vildu una því að vinna eftir þeirri reglu? Þeir seldu líka þann kvóta og jafnvel bátinn og keyptu sér krókabáta undir 6 tonnum. Það hefur verið gagnrýni á það einmitt hjá krókamönnunum sjálfum að það væri allt of mikil keppni hjá sumum mönnum í krókaveiðiskerfinu og þar væru menn að gera út með tveimur áhöfnum. Til hvers? Til þess að búa til betri pott ef e.t.v. kæmi kvóti. Og við erum að sumu leyti að leggja það hér til. Að vísu þak sem menn geta farið upp í en ég tel hætt við því að ef farið verður að veiða eftir þeirri reglu, sem ég vona að verði ekki, þá verði innan skamms tíma kvóti sem þeir krefjast að hafa sama rétt með og í kvótakerfinu, geta selt hann fram og til baka, og þá muni þeir selja hann og fara aftur inn í krókakerfið. Þá eru menn búnir að selja þrisvar. Menn eru þegar búnir að selja kvótareynslu sína, sumir, tvisvar.
    Ég held að við eigum ekki að halda áfram á þessari braut. Við eigum að marka eðlilegt, réttlátt og skynsamlegt sóknardagakerfið fyrir smábátana og koma því á sem allra fyrst. Ef sjútvrh. meinar að hægt sé að koma því á og minni hlutinn getur fallist á að því verði komið á í upphafi næsta árs þá held ég að menn ættu að bera gæfu til að sameinast um þann málflutning, gera hann að sínum í Alþingi og fylgja honum eftir.