Stjórn fiskveiða

16. fundur
Fimmtudaginn 08. júní 1995, kl. 21:10:46 (541)

[21:10]
     Guðný Guðbjörnsdóttir :
    Virðulegi forseti. Sem áheyrnarfulltrúi í sjútvn. hef ég fylgst með umræðunni þar og tek fram að ég er sammála áliti minni hluta sjútvn. sem hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir gerði grein fyrir og fram kemur á þskj. 60. Við kvennalistakonur munum því styðja brtt. minni hlutans sem eru í fyrsta lagi að við viljum að róðrardagakerfi verði eina stjórnkerfi krókabáta frá og með næsta fiskveiðiári, fyrirkomulag sem ýmis rök mæla með, m.a. óskir viðkomandi krókaveiðimanna og ýmis öryggissjónarmið eins og hér hafa komið fram.
    Í öðru lagi er gerð athugasemd við ákvæði til bráðabirgða II í frv. sem er um það að Byggðastofnun eigi að ráðstafa 500 lestum af þorski til krókabáta sem gerðir eru út frá byggðarlögum sem eru algerlega háð slíkum bátum og standa höllum fæti. Í brtt. minni hlutans er lagt til að þessi úthlutun verði gerð með reglugerð frá sjútvrn. strax á næsta fiskveiðiári en ekki aðeins frá árinu 1999, eins og frv. gerir ráð fyrir. Það á alls ekki að líðast að úthlutun fjármuna af þessu tagi sé í höndum Byggðastofnunar heldur á slíkt að vera hjá framkvæmdarvaldinu.
    Það hefur vissulega verið athyglisverð reynsla fyrir mig sem nýjan þingmann að fylgjast með umræðunum í sjútvn. og þeim gífurlega hita sem er í þeim hagsmunaaðilum sem hlut eiga að máli enda mjög miklir hagsmunir í húfi og oft um lifibrauð fólks að tefla. Það er ekki síst mikill hiti í krókaveiðikörlunum sjálfum sem verulega finnst að sér þrengt með þessu frv.
    Í þessum hópi hagsmunaaðila saknaði ég hagsmuna almennings og þar á ég ekki síst við þá sem eiga auðlindina sem bitist er um. Það reyndist varla tími til að hafa samráð við fulltrúa almennings í eigin samtökum vegna hraðans sem var á afgreiðslu málsins, hvað þá að geta rætt við fleiri aðila út um borg og bæ.
    Eins og ég sagði við 1. umr. þessa máls saknaði ég allrar grundvallarumræðu um stjórnun fiskveiða í nefndinni. Í stað hennar mætti ætla að stjórnarliðar setji á svið moldrok um útfærsluatriði en láti

meginatriðin og allt það sem máli skiptir ósnert. Svo að ég beri þetta saman við svið sem ég þekki mun betur, menntamálin, þá er umræðan eins og þegar skólamenn fara í hár saman út af því hvort sé betra bekkjarkerfi eða áfangakerfi þó að meginmeinið sé það að niðurskurður til skólamála hefur verið með ólíkindum undanfarin ár þannig að menntun margra kynslóða hefur verið stefnt í voða.
    Með þessari samlíkingu er ég alls ekki að gera lítið úr mikilvægi þessa máls heldur er ég að benda á að við erum með aðferðir við stjórnun fiskveiða sem ekki ríkir sátt um og þá virðist vera mikilvægt að geta hleypt reiðinni úr fólki með átökum um eitthvað þó að meginvandinn sé ósnertur. Það er því von mín að þau vinnubrögð að hraða málum án almennilegrar umræðu út úr nefndinni verði ekki dæmigerð fyrir starf hv. sjútvn. á kjörtímabilinu sem fram undan er og að þessi mikilvægu lög komi sem fyrst aftur til grundvallarumræðu um aðalatriði fiskveiðistjórnarinnar.
    Það er löngu tímabært að taka á þeim meginókostum aflamarkskerfisins, sem eru að mínu mati brottkast fisks og kvótabraskið, og tryggja að 1. gr. laganna um stjórnun fiskveiða verði virk, að fiskimiðin séu nýtt í þágu allra þeirra sem eiga auðlindina, nefnilega í þágu allrar þjóðarinnar. Það er ekki gert nú að mínu mati og því verður að breyta ef ætlunin er að láta þá grein standa óbreytta í lögunum. Ég tala ekki um ef raunverulegur vilji er fyrir því hjá stjórnarflokkunum að lögfesta þá grein í stjórnarskrá.
    Það er réttilega hlustað á hagsmunaaðila í sjávarútvegi en það er einnig mikilvægt að hlusta á þjóðarsálina í heild sem á auðlindina. Sjómenn eru enn þá í verkfalli vegna þess að það ríkir ekki sátt um þetta kerfi og það ríkir ekki sátt um aðalatriði eins og hlutaskiptakerfi sjómanna. Það á rætur sínar að rekja til kvótabrasksins eins og allir vita. Á þessu verður að taka og það sem allra fyrst og helst á þann hátt að sæmilegur friður ríki, a.m.k. vinnufriður fyrir sjómennina sjálfa því að án þeirra er auðlindin einskis virði.