Stjórn fiskveiða

16. fundur
Fimmtudaginn 08. júní 1995, kl. 21:33:35 (546)


[21:33]
     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
    Herra forseti. Hv. þm. Hjálmar Árnason lauk ræðu sinni á því að brýna hæstv. sjútvrh. til dáða, þ.e. hann brýndi hann til þess að vinda bráðan bug að því að taka upp það tæknivædda eftirlit sem hann telur að þurfi með róðrardagakerfinu.
    Nú er það svo, herra forseti, að hv. þm. hefur um langt skeið haft atvinnu af því að kenna ungu fólki á Suðurnesjum að greina hismið frá kjarnanum. Hv. þm. á sæti með mér í sjútvn. og þar fengum við á fund okkar fjölda manna til að ræða við þá um eftirlitskerfið. Er það virkilega svo að hv. þm. hafi ekki við þá umfjöllun greint hismið frá kjarnanum eða á ég að trúa því að honum hafi ekki verið ljóst þegar þeirri umfjöllun var lokið að það er hægur leikur samkvæmt áliti manna sem komu að máli við nefndina að koma upp handvirku eftirliti í gegnum t.d. hafnarverði.