Stjórn fiskveiða

16. fundur
Fimmtudaginn 08. júní 1995, kl. 22:36:46 (557)


[22:36]
     Frsm. meiri hluta sjútvn. (Árni R. Árnason) (andsvar) :
    Herra forseti. Ég kann hv. 4. þm. Norðurl. e. bestu þakkir fyrir það boð sem hann gerir stjórnarsinnum í umræðunni en verð um það að segja að ég er þeirrar skoðunar að með þeim ákvæðum sem eru í frv. og í brtt. stjórnarsinna í sjútvn. séu krókaveiðimönnum boðnar fleiri valkostir en með tillögu minni hluta nefndarinnar sem hv. 4. þm. Norðurl. e. vék að í sinni ræðu. Ég er þeirrar skoðunar að þegar sóknardagar, eins og þeir eru orðaðir í brtt. okkar stjórnarsinna í nefndinni, verða komnir til framkvæmda sem við höfum heyrt í umræðunni er fyrirhyggja ráðherra að verði án nokkurs tafa þó ekki sé sýnt að það takist fyrir upphaf næsta fiskveiðiárs og með tveimur kostum, sóknardögum og þorskaflahámarki þá bjóðist þeim fleiri en einn. Hins vegar gerir tillaga þeirra stjórnarandstæðinga í nefndinni ráð fyrir aðeins einum kosti.
    Ég er þeirrar skoðunar að við náum því fram að krókaveiðimönnum bjóðist fleiri valkostir og ég býð stjórnarandstæðingum til þátttöku um þá leið.