Stjórn fiskveiða

16. fundur
Fimmtudaginn 08. júní 1995, kl. 23:01:36 (564)


[23:01]
     Einar Oddur Kristjánsson (andsvar) :
    Herra forseti. Ég vona að það sé óvart sem hv. 15. þm. Reykv. misskilur mig. Það liggur alveg fyrir í mínum huga að róðrardagakerfið hefur óteljandi marga kosti umfram banndagakerfið. En ég sagði að miðað við þá banndaga eða róðrardaga, sem núgildandi lög gera ráð fyrir, býður mér í grun að hvort tveggja verði óbærilegt fyrir krókaleyfiskarla. Þess vegna er svo brýnt að við rýmkum heimildina í nokkur ár þangað til jafnvægi hefur náðst. Þó að við verðum fordæmdir af einhverjum og sagt að við séum ábyrgðarlausir þá vitum við að við erum það ekki.