Stjórn fiskveiða

16. fundur
Fimmtudaginn 08. júní 1995, kl. 23:02:31 (565)


[23:02]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Herra forseti. Það sem mér fannst ekki koma nægilega skýrt fram í annars ágætri ræðu hv. þm. er að það er ólíku saman að jafna því róðrardagakerfi sem menn hafa verið að tala um og almennur stuðningur hefur verið við sem og sú útfærsla sem kemur fram í brtt. minni hlutans annars vegar og þeim tillögum sem meiri hlutinn flytur brtt. um hins vegar. Á því þarf að gera skýran greinarmun. Það er sérstaklega af tveimur ástæðum. Það er vegna þess að annars vegar er um að ræða verulega ólíkan fjölda sóknardaga. Þó að af því verði að hægt verði að taka upp það kerfi, sem boðað er í tillögum meiri hlutans, og fyrirætlanir eru um að sögn af hálfu hæstv. sjútvrh. er þar á ferðinni kerfi sem gerir ráð fyrir að sóknardagarnir verði 40% færri en banndagarnir verða að óbreyttu á næsta fiskveiðiári á hverju tímabili. Hvað þýðir það? Það þýðir að miðað við að banndagar verði 234 á næsta fiskveiðiári, það skilur þá væntanlega eftir 131 sóknardag sem menn mega fara á sjó nema um hlaupár verði að ræða, nú man ég það ekki, gott ef ekki er, 132 þá og 0,6 sinnum það eru 78,6 dagar, þó við hækkum það upp í 79 daga. En þessum dögum verður skipt niður á fjögur tímabil og það þrengir mjög valkosti manna til að nota þá þannig að hér er um ósambærilega hluti að ræða. Það róðrardagakerfi, sem við erum að leggja hér til og sem almennur stuðningur hefur komið fram við, er með einhverjum tilteknum lágmarksfjölda daga og með miklu frjálsræði og helst fullkomnu frjálsræði til að velja róðrardagana innan ársins. Þetta tvennt er alveg nauðsynlegt að menn hafi í huga og geri skýran greinarmun á.