Áfengislög

17. fundur
Föstudaginn 09. júní 1995, kl. 12:12:09 (569)


[12:12]

     Frsm. 1. minni hluta allshn. (Ögmundur Jónasson) :
    Hæstv. forseti. Hv. formaður allshn. hefur gert grein fyrir áliti meiri hluta nefndarinnar á þeim lagabreytingum sem hér eru til umræðu. Það var gerð grein fyrir þessum breytingum í ítarlegu máli og ágætlega, mikið mál um mjög lítið innihald.
    Það sem við erum að fjalla um í grófum dráttum eru breytingar sem verið er að gera á innflutningsverslun með áfengi. Ýmsir aðilar í þjóðfélaginu hafa lýst áhyggjum vegna þessara breytinga og þeirra afleiðinga sem þetta kann að hafa í för með sér. Og viðbrögð hjá meiri hluta allshn. og reyndar hjá öðrum nefndum einnig sem hafa vélað um þessi mál eru í grófum dráttum þessi:
    Það þarf að búa svo um hnúta að fjmrh. veiti sérstök leyfi til þeirra sem höndla með þessi mál. Gott og vel. En eins og fram kom í máli hv. þm. hér áðan þá á enn eftir að koma fram á hvaða grundvelli slík leyfi verða veitt. Reglugerðin verður smíðuð síðar. Þetta þýðir það í raun og sann að við vitum ekki hvað við erum að tala um. Við erum að fjalla um hugtak sem er stafað l-e-y-f-i, leyfi, en við vitum ekki á hvaða grundvelli þessu hugtaki verður beitt. Umbúðir án innihalds.
    Í öðru lagi erum við að tala um aukið eftirlit. Hvernig skyldi því vera varið? Eins og fram kom skulu lögreglumenn gefa sérstakar gætur að starfsemi þeirra sem heimild hafa til framleiðslu eða sölu áfengis. Hvað þýðir þetta? Vakt allan sólarhringinn? Menn með uppbretta kraga og sólgleraugu fyrir utan veitingahús? Hvað er hér verið að tala um? Þetta þarf allt miklu nánari skýringa við.
    En hitt er rétt sem fram kom í framsögu hv. formanns allshn. að okkur hafa borist erindi víðs vegar að úr þjóðfélaginu vegna þeirra breytinga sem hér eru til umræðu á áfengisverslun. Ég held að það séu fá mál sem hafa vakið eins mikla athygli og þetta eins víða. Ein slík ályktun var að berast okkur í hendur nú fyrir stundu. Það er ályktun frá Starfsmannafélagi ÁTVR sem samþykkt var á fundi félagsins í morgun. Mig langar til að lesa upp úr þessari ályktun, með leyfi forseta:
    ,,Nú eru til umfjöllunar á Alþingi þrjú frumvörp er snerta rekstur ÁTVR. Þetta er í fjóðra skiptið á örfáum árum sem fjmrh. reynir að einkavæða rekstur ÁTVR. Hingað til hafa alþingismenn ekki verið tilbúnir til þess að samþykkja slíkar breytingar en nú skal reynt til þrautar. Starfsmannafélag ÁTVR hefur tekið virkan þátt í umræðunni um þessi mál, mikið af upplýsingum liggur fyrir um mögulegar afleiðingar þess ef einkaaðilar fara að keppa á frjálsum markaði um áfengissölu með tilheyrandi markaðsstarfi. Starfsfólk ÁTVR hefur aldrei hafnað umræðum um breytingar á rekstri ÁTVR en lagt á það áherslu að umræður séu málefnalegar og byggðar á rökum.
    Nú hefur verið fjallað um frumvörpin í þremur þingnefndum. Þessar nefndir hafa haft skamman tíma til umfjöllunar um frumvörpin og er augljóst að dagskipunin frá fjmrh. hefur verið að keyra málin eins hratt í gegnum nefndirnar og kostur var. Engin nefndanna var sammála um nefndarálit og skiluðu þær allar tveimur eða fleiri álitum. Fram á síðasta starfsdag í efh.- og viðskn. var verið að leggja fram umfangsmiklar brtt. sem lítill tími var til að ræða. Steininn tók þó úr þegar formaður efh.- og viðskn., Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Verslunarráðs Íslands, lagði fram tillögu um að skipa þyrfti stjórn yfir ÁTVR.
    ÁTVR hefur starfað í 73 ár í nánu samstarfi við fjmrn. Aldrei hefur borið skugga á það samstarf. Í allan þann tíma hefur fyrirtækið haft með höndum innheimtu á skattfé fyrir ríkissjóð. Fjmrh. hefur látið hafa það eftir sér á fundi með starfsfólki ÁTVR að hann álíti ÁTVR mjög vel rekið fyrirtæki. En nú þegar velta ÁTVR minnkar um 4--5 milljarða þá á allt í einu að skipa stjórn. Hvaða hvatir liggja hér að baki? Starfsfólk ÁTVR getur ekki gleymt því þegar fjmrh. skipaði nefnd til að gera tillögur um hvernig rekstri ÁTVR skyldi hagað í framtíðinni. Í þeirri nefnd sátu fulltrúar þeirra aðila sem mestan hag hafa af því að leggja ÁTVR niður. Starfsfólki ÁTVR finnst kvíðvænlegt að stjórn ÁTVR verði skipuð slíkum aðilum.``
    Sumir hafa haft á orði núna síðustu klukkustundirnar eða dagana að þessar tillögur að lagabreytingum taki svo örum breytingum að í raun séum við að fást við annað mál en var upphaflega lagt fyrir. Og að sönnu má færa rök að því að svo sé. Hitt finnst mér liggja í augum uppi að það er mjög skýrt samhengi á milli þeirra breytinga sem menn eru að leggja til núna og fyrri breytinga sem gerðar hafa verið á rekstri þessarar stofnunar. Þegar þessi mál komu til umræðu í sölum hv. Alþingis í vor þá rakti ég ýmsa nýlega áfanga í sögu ÁTVR þar sem ég færði rök fyrir því að hæstv. fjmrh. stefndi að því á markvissan hátt að einkavæða þessa starfsemi alla. Ég ætla ekki að endurtaka það en minna á að fyrsta skrefið sem stigið var var að leggja niður framleiðsludeildina eða selja hana, gefa hana væri meira réttnefni því að eins og fram kom þá var söluverðið minna en nam þeim fjárhagslega ávinningi sem ÁTVR hafði af þessari starfsemi á einu ári. Þetta fékk enga umræðu að heitið getur áður en þetta var framkvæmt enda var þetta ekki framkvæmt í gegnum Alþingi, það var hæstv. fjmrh. sem hafði sjálfdæmi um þetta.
    Annað skrefið, og það er að gerast núna, var að leggja niður iðnaðardeildina.
    Þriðja skrefið er það skref sem er til umræðu núna þessa dagana, þ.e. að einkavæða innflutningsverslunina.
    Fjórða skrefið er núna að koma upp á yfirborðið. Það er að skipa sérstaka stjórn yfir ÁTVR. Er það gert til að lýsa vantrausti á forstjóra ÁTVR eða starfsfólk? Þetta er spurning sem ýmsir velta fyrir er. Ég kann ekki svarið við þeirri spurningu en hitt veit ég að þetta eru ótrúleg vinnubrögð gagnvart starfsfólki og gagnvart þeim sem stýra málum hjá ÁTVR, að þeir skuli frétta það í fjölmiðlum að verið sé að

gera grundvallarbreytingar á skipulagi stofnunarinnar. Það er ekki haft fyrir því að ræða við þessa starfsmenn beint. Þeir frétta það í gegnum fjölmiðla hvað stendur fyrir dyrum að gera. En þetta er spurningin sem ýmsir velta fyrir sér. Er verið að lýsa vantrausti á starfsmennina? Þetta er spurning sem starfsmenn velta fyrir sér.
    Hitt finnst mér líklegra að það sé verið að undirbúa fimmta skrefið. Og hvað skyldi það vera? Það er tillaga um enn eina lagabreytingu: ÁTVR verði gert að hlutafélagi. Hvers vegna? Vegna þess að hæstv. fjmrh. finnist of bratt að þjóna hugsjónum sínum svo rækilega núna á þessu stigi að Áfengisverslunin öll verði einkavædd heldur þurfi að stíga þetta skref fyrst, gera stofnunina að hlutafélagi og selja hana þá væntanlega á þeim vildarkjörum sem framleiðsludeildin var seld á.
    Ég vil vekja athygli á þessu vegna þess að það er mjög mikilvægt að þeir sem fjalla um þessi mál og eiga síðan að taka ákvörðun á endanum geri það opineygir, menn geri sér grein fyrir því hvert þeir eru að stefna og hvað þeir eru að gera.
    Mér finnst hægt að líta á þessi mál almennt út frá tveimur sjónarhornum. Annars vegar finnst mér hægt að líta á áfengisverslun eins og hverja aðra verslun með hverja aðra vöru, einfaldlega verslun með drykkjarvörur. Þá mundum við hverfa frá því fyrirkomulagi sem við búum við núna að nota áfengi sem eins konar skattstofn til afla ríkinu tekna, afla samneyslunni tekna, og við mundum fara með vörudreifinguna inn í verslanir alveg eins og annan varning, eins og hverja aðra drykkjarvöru. Þetta hangir saman að því leyti að það er mjög erfitt að fylgja þessu tvennu í senn að einkavæða alla verslunina en halda skattheimtunni áfram. Þar eru svo mikil verðmæti á ferðinni að við getum ekki falið allri verslun í landinu að gerast óbeinir skattheimtumenn þannig að þetta yrði þá að lúta lögmálum almennra viðskipta og mér finnst þetta vera sjónarmið út af fyrir sig. Þetta er fyrirkomulag sem ýmsar þjóðir hafa, t.d. Danir. Ýmsar þjóðir í Evrópu hafa það fyrirkomulag að selja áfengi á skaplegum prís að því er mönnum finnst og hafa áfengi eins aðgengilegt og kostur er hjá kaupmanninum á horninu, í mjólkurbúðinni eða hvar sem er. Þetta er sjónarmið út af fyrir sig.
    Það er bara einn hængur á. Vandinn er sá að þetta eykur neysluna á áfengi mjög mikið og þá erum við komin að hinu sjónarmiðinu sem hefur verið ríkjandi hér á landi og verslun með áfengi hefur byggt á. Það er að við eigum að skipa þessum málum í ljósi áfengisstefnu, að við eigum að búa svo um hnútana að við tryggjum aðgengi að áfengi án þess að hleypa markaðsöflunum að, án þess að ræsa allar auglýsingamaskínurnar, án þess að hagnaðarvonin verði ráðandi, að markmiðið verði það að koma eins miklu brennivíni ofan í eins marga og kostur er á. Þetta eru þessi tvö sjónarmið. Og við eigum að velja á milli þess hvora stefnuna við viljum.
    Ýmsir vilja núna hafna þessari síðari leið, Kaupmannasamtökin segja t.d. í sínu áliti að þau vilji ganga enn lengra en nú er og koma léttvínum og bjór inn í matvöruverslanir. Verslunarráðið er mjög ákaft að fá þetta í gegn, Verslunarráðið og starfsmenn þess hafa talað mjög eindregið fyrir því. Með öðrum orðum hafa þeir sem hafa hagsmuni af aukinni áfengissölu og þeir sem búa yfir þeirri hugsjón að brennivín, áfengi, skuli markaðsvætt eins og hver önnur vara viljað hverfa frá þessari stefnu sem við höfum búið við. Ég virði hugsjónamenn. Fólk sem er tilbúið að vaða eld og brennistein til að koma sinni sannfæringu til skila. En maður gerir að sjálfsögðu þá kröfu til hugsjónamanna sem annarra að þeir færi rök fyrir máli sínu og það sé einhver skynsemi sem búi að baki. Þær breytingar sem lagt er til að við gerum eru eiginlega hvorki fugl né fiskur. Það er verið að gera kerfið óhagkvæmara, erfiðara. Það er verið að opna á einhverja sýndarmennsku sem á síðan að reyna að lappa upp á með lögregluaðgerðum, breytingar sem sannanlega eru til þess að torvelda allt eftirlit.
    Áður en ég kem að þeim þáttum langar mig að gera þriðja efnisþáttinn að umræðuefni og hann er Evrópska efnahagssvæðið. Ég held að þeir séu nokkrir sem eru reiðubúnir til að fylgja þessum málum vegna þess að þeir telja að við þurfum að gera það vegna EES. Þeir vita og þeim finnst í hjarta sínu þetta vera mjög heimskulegt. Þeir eru jafnvel mjög andvígir þessu og sumir sem mér er sagt að hafi lagt blessun sína yfir þetta í ríkisstjórn komu opinberlega fram, eins og hæstv. viðskrh. og fleiri ráðherrar, og lýstu mjög eindregnum skoðunum eins og hæstv. félmrh. á sínum tíma og sögðust vera mjög andvígir breytingum af þessu tagi. Ég hef grun um það að þessir aðilar telji að við þurfum að gera þetta vegna skuldbindinga okkar út af hinu Evrópska efnahagssvæði.
    Við fyrri umræðu rakti ég hvernig utanrrn. hefði á sínum tíma í formlegu svari til BSRB lýst því afdráttarlaust yfir að engar breytingar þyrfti að gera á skipulagi ÁTVR til þess að við stæðum við skuldbindingar okkar gagnvart EES. Mig langar til að vitna í þáv. dómsmrh., Þorstein Pálsson, þegar hann í umræðum á Alþingi 30. apríl 1992 sagði eftirfarandi, með leyfi forseta:
    ,,Samkvæmt upplýsingum sem dómsmrn. hefur frá fjmrn., þá lítur það ekki svo á að samningarnir um Evrópska efnahagssvæðið feli í sér neinar kvaðir um það að breyta því einkasölufyrirkomulagi sem nú er við lýði. Samvæmt þeim upplýsingum bendir ekkert til þess að þessir samningar feli í sér neinar skuldbindingar af því tagi gagnvart íslenskum stjórnvöldum.``
    Svo mörg voru þau orð, mjög afdráttarlaus yfirlýsing. Og allar þær yfirlýsingar sem voru gefnar, hvort sem var á Alþingi eða annars staðar í þjóðfélaginu af hálfu stjórnvalda, voru á þennan veg. Þetta var yfirlýst markmið og þjóðinni var sagt að það markmið gengi eftir. Ef svo væri að það væru einhverjir hnökrar á þessu þyrftum við þá ekki að endurskoða viðkomandi ákvæði í samningnum. Reyndar er það mín

trú að fyrirkomulagið eins og það er núna standist fyllilega EES en ég geri mér hins vegar grein fyrir því að það eru margir sem telja það vera mikið álitamál.
    Fyrir efasemdarmennina var við fyrri umræðu komið fram með minni háttar breytingu á lögum sem tæki af öll tvímæli gagnvart EES. Mér finnst það mjög undarlegt að þeir sem eru í hjarta sínu andvígir þessum breytingum skuli ekki vilja gangast fyrir því að sú leið verði farin. Það finnst mér mjög undarlegt ef það verður raunin þegar upp er staðið.
    Eins og ég gat um áðan hafa fjölmargir aðilar ályktað um þessi mál og ég ætla ekki að þreyta þingheim á því að lesa þessar ályktanir upp. Mikið af þeim eru birtar með öðrum þinggögnum. En mig langar til að lesa upp úr ályktun sem samþykkt var á trúnaðarmannafundi SFR, Starfsmannafélagi ríkisstofnana, 24. maí 1994 og er eftirfarandi, með leyfi forseta:
    ,,Starfsmannfélag ríkisstofnana varar eindregið við samþykkt þeirra frumvarpa sem nú liggja fyrir Alþingi um breytingar á verslun með áfengi. Ljóst er að einkavæðing á innflutningsversluninni eins og fyrirhuguð er hefði alvarlegar afleiðingar í för með sér á mörgum sviðum. Þannig hefði breyttur viðskiptamáti með áfengi í för með sér aukna samkeppni um að koma áfengi á markað en ljóst er að slíkt er gert til að örva sölu og neyslu á áfengi. Það væri í hæsta máta óábyrgt að innleiða áfengisstefnu sem hefði slíkar afleiðingar.
    Í annan stað er ljóst að erfiðara yrði að hafa yfirsýn yfir áfengisneyslu og allt eftirlit yrði miklu torveldara. Skattfé sem nú er í öruggri innheimtu væri sett í mikla óvissu en til glöggvunar má geta þess að sala á áfengi hefur numið 12--13 milljörðum kr. á ári undanfarin ár. Enda þótt nú sé einvörðungu gert ráð fyrir að einkavæða innflutningsverslunina er ljóst að skilin á milli innflutningsverslunar og smásöluverslunar verða óljósari en verið hefur eða hver mun fylgjast með því að umboðsmenn selji einvörðungu til veitingahúsa en ekki einnig almennra neytenda?
    Þá er ljóst að heilbrigðiseftirliti mun hraka. Nú er það fyrirkomulag við lýði að ÁTVR ber ábyrgð á öllum vörum sem fyrirtækið selur og tryggir réttan uppruna þeirra. Þannig er hægt að hindra innflutning af heilbrigðisástæðum. Hætt er við að sú neytendavernd minnki þegar ÁTVR hefur ekki lengur hönd í bagga með innflutningnum og markaðsmál ráða ferðinni.
    SFR vekur athygli á því að það er yfirlýst stefna fjmrh. að leggja niður Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Ljóst er að þetta á að gilda í áföngum með því að selja frá fyrirtækinu starfsemi sem hefur verið á þess vegum. Þegar hefur framleiðsludeildin verið seld. Ljóst er að með þeim breytingum sem nú eru fyrirhugaðar mun ÁTVR veikjast mjög sem hagkvæm rekstrareining. ÁTVR er þannig gert að draga saman seglin og segja upp fólki.
    Fyrirhuguð einkavæðing á innflutningsversluninni hefur þannig ókosti för með sér með tilliti til áfengisstefnu og heilbrigðiseftirlits í landinu, skattheimtu ríkissjóðs og rekstrargrundvallar stofnunarinnar.``
    Svo mörg eru þau orð. Þetta var úr ályktun frá SFR þar sem á mjög hnitmiðaðan hátt er komið að kjarna þessa máls.
    Í minnihlutaáliti frá undirrituðum í allshn. er vakin athygli á því að við höfum fengið álit frá fjölmörgum aðilum í þjóðfélaginu auk þess sem við höfum haft til skoðunar álit frá heilbrigðisnefnd þingsins og að sjálfsögðu meirihlutaálit og minnihlutaálit og það er vakin athygli á því í þessu minnihlutaáliti frá allshn. að það sé ljóst að í þessum viðbrögðum séu tvö meginsjónarmið: Annars vegar að markaðsvæðing innflutningsverslunar með áfengi sé ekki skaðleg, jafnvel spor í framfararátt.
    Ég man eftir því að við umræður lét hæstv. forsrh. þau orð falla að hér væri á ferðinni mál sem hann líkti við VISA-kortin á sínum tíma, eða ég man ekki hvort hann líkti þessu við Landssímann eða sjónvarpið, það væru einhver framfaramál sem við værum að véla um. En undir það sjónarmið að hér sé á ferðinni framfaramál, spor í framfaraátt, taka fulltrúar verslunar og viðskipta og vilja sumir reyndar ganga enn lengra og eins og ég rakti áðan, hafa Kaupmannasamtök Íslands ályktað um þetta efni og þau segja í sínu áliti að heimilað skuli að selja bjór og létt vín í almennum matvöruverslunum. Það er sjónarmið Kaupmannasamtakanna. Undir þetta sjónarmið taka aðrir sem sjá hag sínum betur borgið ef þessar breytingar ná í gegn, geta hagnast á þessari verslun.
    Hitt sjónarmiðið gengur í þveröfuga átt og er stutt af þeim aðilum sem sinna áfengisvörnum og eftirliti með veitingahúsum. Þannig segir eftirfarandi í áliti frá Áfengisvarnaráði, með leyfi forseta:
    ,,Áfengisvarnaráð hefur leitast við að afla upplýsinga um það hvort einhvers staðar í veröldinni finnist dæmi um að einkavæðing áfengissölu --- heildsölu og smásölu --- hafi dregið úr drykkju og tjóni af hennar völdum. Slík dæmi höfum við hvergi fundið en mörg um hið gagnstæða.``
    Hér var vitnað í álitsgerð áfengisvarnaráðs og má reyndar taka fram að álitsgerðir sem hafa komið frá allflestum aðilum sem sinna áfengisvörnum í landinu eru á þennan veg. Á meðal þeirra gagna sem allshn. bárust þegar hún fjallaði um þessi mál var bréf frá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Undir það ritar forstjórinn, Höskuldur Jónsson, þar sem hann gerir grein fyrir því hve miklar breytingar verði á starfsemi ÁTVR nái þessi lagafrumvörp fram að ganga. Hann rekur það í sínu erindi hvernig ÁTVR safni saman og birti ítarlegar upplýsingar um sölu áfengis og hvernig ÁTVR kemur við sögu þegar heilbrigðisþættir eru annars vegar en varðandi fjármálahliðina segir forstjóri ÁTVR eftirfarandi meðal annars, með leyfi forseta:
    ,,Í umræðu um mál það sem hér er um fjallað verður að hafa í huga að ÁTVR er ekki síður skattheimtustofnun en vörusala. Við þær breytingar sem gera á með þeirri lagasetningu sem nú er að unnið verður skatturinn hluti virðis vörubirgða sem geyma má nánast hvar sem er í landinu. Sem dæmi má nefna að áfengisskattur af einu vörubretti af vodka er 1,4 millj. Til viðbótar þessum skatti þarf innflytjandinn að binda 340 þús. kr. í virðisaukaskatti vegna áfengisskattsins að viðbættum virðisaukaskatti af verðmæti vörunnar. Ekki má vanmeta þá þörf sem eigandi þessa varnings hefur til að koma honum í verð. Ástæða væri því til að kanna hvernig því eftirliti, sem skattyfirvöld eiga að hafa með því að innflytjandi selji aðeins til handhafa fastra veitingaleyfa og til ÁTVR, verður háttað. Verði það eftirlit ekki virt má búast við að í raun opni hver og einn innflytjandi verslun fyrir almenning í starfsstöðvum sínum.``
    Ég ætla ekki að vitna nánar í þessi gögn sem bárust frá ÁTVR þar sem vakin er athygli á ýmsum efnisþáttum þessa máls. Hins vegar vil ég nefna að víneftirlitsmenn sem komu fyrir nefndina bentu á að reyndar væri málum svo komið núna að áfengiseftirlitinu væri mjög ábótavant og það þyrfti að stórbæta það. Þeir sögðu t.d. að forsendan fyrir því að hægt væri að hafa eftirlit með áfengissölunni, og hér erum við að tala um mjög mikla fjármuni og við skulum ekki gleyma því að hér í þessum sal hefur verið mikið talað um skattsvik; það hefur verið talað um að 11 milljarðar kr. skili sér ekki inn í samneysluna vegna skattsvika og við erum að tala um það hér og eigum eflaust eftir að gera það á næstu missirum og árum hvernig hægt sé að búa til reglur sem séu sem skilvirkastar í þessu efni og við erum að gera það líka núna. Víneftirlitsmennirnir bentu á að forsenda þess að hægt væri að hafa eftirlit sem að gagni kæmi væri sú að merkingar á áfenginu væru í mjög góðu lagi. Það er ljóst að þessar merkingar fara núna í gegnum ÁTVR, þar er þetta einfalt framkvæmdaatriði. Menn hafa velt því fyrir sér hvort hægt sé að gera þetta í tollinum núna en við skulum ekki gleyma því að við erum líka að tala um framleiðendur á áfengi innan lands. Við erum að búa til kerfi sem er miklu erfiðara og svifaseinna.
    Reyndar fannst mér það skoplegasta sem kom fram við umræðu um þessi mál í einhverri hv. nefndinni að óhagræðið væri svo mikið af öllu þessu skrifstofubatteríi, eftirlitsdeildum, nýjum stofnunum hjá skattinum sem þyrfti að setja á fót og það yrði svo mikill tilkostnaðaraukinn við þetta að kannski væri einhver von til þess að í því fælist áfengisvörn. Óhagræðið gæti þrátt fyrir allt orðið til góðs. En allir viti bornir menn sem koma að þessum málum, allir þeir sem þekkja til þessara mála og þeir sem hafa starf af því sjálfir að fylgjast með þessu benda okkur á það að fyrirkomulagið sem við höfum núna sé það heppilegasta. Það sé auðveldast að laga það sem aflaga hefur farið á grundvelli þess kerfis og það deilir enginn um það að ástandið sé mjög slæmt núna. En við þurfum að hyggja að því á hvaða grundvelli best er að laga það og það verður ekki gert með því að keyra í gegn þær lagabreytingar sem hér eru til umræðu því að þær ganga þvert á ráðleggingar þeirra aðila sem sinna eftirliti og hollustuvernd.
    Þær minni háttar breytingar sem sagðar eru eiga að koma til móts við þessi sjónarmið gera það engan veginn og mun ég víkja að því í umræðum síðar vegna þess að það á eftir að fjalla um álit frá öðrum nefndum einnig og við erum núna að hefja 2. umr. á þessum lagabreytingum. Svo veit maður náttúrlega ekki hvað gerist á næstu klukkustundum hvort það dúkka upp einhverjar nýjar tillögur, einhverjar skipulagsbreytingar í ÁTVR, einhverjar skipulagsbreytingar varðandi eftirlitið, heilsuverndina. Það getur vel verið að það komi einhverjar nýjar tillögur undir kvöldið því þannig hefur þetta mál verið rekið. Þess vegna spyr ég: Ef allir þessir óvissuþættir eru til staðar, hvers vegna að gefa sér ekki góðan tíma til að skoða málið og vinna það í stað þess að reka það með þessum andateppustíl --- liggur mér við að kalla það --- og keyra þetta í gegn? Maður hefði talið að önnur mál væru kannski mikilvægari núna, GATT-málin, sjávarútvegsmálin, kjör fjölskyldunnar, í fyrramálið verður fjallað um húsnæðismál. Í rauninni eru það þessi mál, kjaramál almennings, sem hefðu átt að vera hér til umfjöllunar þessa vordaga en ekki einhver sérstök einkavæðingarprógrömm frá frjálshyggjudeild Sjálfstfl.