Framleiðsla og sala á búvörum

17. fundur
Föstudaginn 09. júní 1995, kl. 13:15:44 (572)


[13:15]
     Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. forseta og hv. þm. Svavari Gestssyni fyrir að leyfa mér að koma að þessu máli þó annað dagskrármál hafi verið til umræðu og þurfi auðvitað líka að ganga fram og klára en af sérstökum persónulegum ástæðum óskaði ég eftir því ef hægt væri að koma málinu til umræðu og vonandi til nefndar án þess að umræða yrði mjög löng og ég þakka fyrir það.
    Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum.
    Frv. þetta er flutt vegna þeirra vandamála sem blasa við í sauðfjárrækt. Í stefnuyfirlýsingu stjórnarflokkanna er kveðið á um að taka skuli búvörusamninginn, sem samþykktur var 11. mars 1991, til endurskoðunar, sérstaklega með tilliti til þess mikla vanda sem sauðfjárbændur standa nú frammi fyrir. Auk þess sem tekjugrundvöllur bænda verður treystur skuli losað um framleiðsluhömlur og sveigjanleiki aukinn í framleiðslustjórnun jafnframt sem stuðlað verði að nýsköpun og fjölbreyttari atvinnu til sveita og bændum auðveldaðar breytingar á búháttum og búskaparlokum.
    Í samræmi við þessi áform ríkisstjórnarinnar hóf ég samningaumleitanir við Bændasamtök Íslands um að kanna möguleika á að koma áðurnefndri stefnumörkun til framkvæmda. Hlutur sauðfjárræktarinnar kemur fyrst til umfjöllunar við þessa endurskoðun vegna þess bráða vanda sem þar er orðinn. Komi til breytinga á framleiðslustjórnunarhluta búvörusamningsins þarf að fylgja því eftir með breytingu á búvörulögunum. Ákvörðun á greiðslumarki sauðfjárbænda vegna framleiðslu haustið 1996 á að fara fram áður en Alþingi kemur saman í haust, þ.e. 15. september. Verði sú ákvörðun tekin verður ekki unnt að koma til framkvæmda þeim breytingum á framleiðslustjórnun í sauðfjárrækt sem þeir samningar, sem hafnir eru milli bænda og ríkisstjórnarinnar, kunna að leiða til. Þannig tapast í raun heilt ár í nauðsynlegri aðlögun ef sú breyting á búvörulögum, sem hér er lögð til, verður ekki að lögum á þessu vorþingi. Þær breytingar, sem lagðar eru til með frv. því sem nú liggur fyrir, geta því ekki beðið haustþingsins.
    Áður en ég geri grein fyrir þeim breytingum sem frv. felur í sér ætla ég að víkja aðeins að þeim vanda sem sauðfjárræktin stendur nú frammi fyrir. Eins og kunnugt er var með búvörusamningunum frá 11. mars 1991 gert ráð fyrir að draga framleiðslurétt sauðfjárframleiðenda saman um 3.700 tonn og laga framleiðsluna að innlendum markaði sem er áætlaður 8.150 tonn. Jafnframt að hætt yrði afgreiðslu útflutningsbóta við útflutning sauðfjárafurða en framleiðsla umfram það sem innanlandsmarkaðurinn krefði yrði á ábyrgð framleiðenda og sláturhúsa. Gert var ráð fyrir að unnt yrði að styrkja stöðu þeirra framleiðenda sem eftir yrðu í greininni með því að sú aðstoð, sem þeim var ætluð, kæmi til flats niðurskurðar á framleiðslurétti, yrði þeim til hjálpar við að kaupa sér rétt til framleiðslu í stað þess sem þeir töpuðu.
    Tvennt er sem hefur einkum orðið til að þessi áform gengu ekki eftir. Í fyrsta lagi hefur þeim sauðfjárbændum sem vilja reka búskap í líkum mæli og áður ekki tekist að bæta upp í þau skörð sem flatur samdráttur myndaði. Minna varð um frjálsa sölu fullvirðisréttar upp í þau 3.700 tonn sem áður eru nefnd en vonast hafði verið til með þeim afleiðingum að grípa varð til skerðingar hjá heildinni með svonefndum flötum niðurskurði. Meginástæða þess er væntanlega sú alvarlega aukning atvinnuleysis sem upphófst á líkum tíma og framkvæmd búvörusamningsins og hefur haft áhrif á þróun samningsins í æ ríkari mæli. Þannig hafa þeir sem vilja bregða búi vegna samdráttar í sauðfjárræktinni og snúa sér að öðrum atvinnutækifærum ekki séð þess nokkurn kost og orðið að sitja uppi með sífellt rýrari afkomu.
    Í öðru lagi hefur orðið mjög verulegur samdráttur í sölu kindakjöts á innanlandsmarkaði og alvarlegur fyrir hag bænda. Þessi samdráttur hefur orðið þrátt fyrir að allverulegir fjármunir hafi verið lagðir fram til markaðsstarfsemi af hálfu framleiðenda og sláturleyfishafa. Þessari markaðsstarfsemi var fyrir gildistöku búvörusamningsins sinnt af því opinbera. Í ástandslýsingu í sauðfjárrækt vegna endurskoðunar búvörusamningsins, sem fylgir með frv., er spá um sölu kindakjöts út gildistíma búvörusamningsins. Þar er gert ráð fyrir því að með sömu þróun og verið hefur á samningstímanum megi reikna með því að í stað þeirra 8.150 tonna innanlandsneyslu á kindakjöti, sem voru forsendur samningsins, verði ársneyslan aðeins um 6.500 tonn síðasta ár samningsins. Mögulegar skýringar á þeirri þróun verður ekki farið út í hér svo sem neyslubreytingar sem hver og einn þekkir af sínu eigin heimilishaldi en aðeins drepið á þær afleiðingar sem þessi þróun kynni að hafa á hag bænda að óbreyttu.
    Hagþjónustu landbúnaðarins var falið að gera reikningslegar kannanir á því hvaða afleiðingar þróunin hefði á hag bænda. Þær niðurstöður verður að taka með alvöru og kanna allar mögulegar leiðir til að afstýra því að þær verði að raunveruleika. Niðurstöður á könnun Hagþjónustunnar gefa einfaldlega til kynna að til greiðslu launa af sauðfjárbúskap árið 1993 hafi einungis verið 770 þús. kr. og því til viðbótar af öðrum búrekstri 160 þús. Þessi útkoma ein og sér er óásættanleg fyrir bændur og tilefni til endurskoðunar og lagfæringar á búvörusamningnum. Hins vegar verður útkoma könnunarinnar enn lakari þegar horft er til ársins 1996 samkvæmt þeirri markaðsspá sem nefnd var. Þá verða teknar til launa af sauðfjárbúskap einungis 270 þús. kr. eða meira en helmingi minna en árið 1993. Þessa þróun verður að stöðva nú þegar og því mjög áríðandi að tæknilegar hindranir í gildandi lögum eins og tímabundin ákvörðun á greiðslumarki sauðfjár verði ekki til þess að tefja endurskoðun á gildandi búvörusamningi sem má segja að sé þegar orðin of seint á ferðinni vegna þess ástands sem skapast hefur.
    Hæstv. forseti. Ég mun nú víkja aðeins að einstökum greinum frv.
    Í 1. gr. er lagt til að bætt verði nýrri málsgrein við 19. gr. laganna. Hefur málsgreinin að geyma heimild til sérstakrar verðjöfnunar milli afurðastöðva vegna útflutnings á kindakjöti, þ.e. kjöt sem lagt er inn í afurðastöð en fellur utan efri marka greiðslumarksins. Aðstaða afurðastöðvanna er mismunandi, bæði hvað varðar möguleika til að verka afurðir fyrir erlenda markaði og til afsetningar afurðanna innan lands. Því verður að stýra afurðunum frá einstaka afurðastöðvum sem gefa mishátt verð. Nauðsynlegt er því talið að búvörulög hafi að geyma heimild til að jafna uppgjör við framleiðendur, a.m.k. að vissu marki.
    Í 1. gr. frv. er lagt til að heimilt verði að innheimta sérstakt verðjöfnunargjald er nemi allt að 10% af því verði kindakjöts, sem kemur til skila við útflutning hjá hverri afurðastöð, í því skyni að verðbæta þá markaði sem lægstu verði skila.

    Í 37. gr. búvörulaganna er kveðið á um að heildargreiðslumark sauðfjárafurða skuli ákveða fyrir 15. september ár hvert vegna framleiðslu næsta verðlagsárs. Ákvæði þetta er óundanþægt. Við ákvörðun greiðslumarks skal byggja á neyslu síðasta almanaksárs og söluþróun fyrstu sex mánuði yfirstandandi árs. Jafnframt skal tekið tillit til birgða þann 1. september þannig að þær samsvari þriggja mánaða sölu. Verði sala kindakjöts minni en nemur heildargreiðslumarki ársins þannig að þær birgðir aukist skal heildargreiðslumarkið lækka til samræmis við það.
    Fulltrúar Bændasamtaka Íslands hafa sett fram þá hugmynd að heildargreiðslumark sem viðmiðun fyrir beingreiðslur til framleiðenda sauðfjárafurða verði fest miðað við tiltekið afurðamagn. Hver svo sem niðurstaðan verður í þeim viðræðum, sem nú standa yfir, er ljóst að núgildandi 1. mgr. 37. gr. búvörulaganna getur staðið í vegi fyrir því að hugsanlegt samkomulag samningsaðila um breytta viðmiðun að þessu leyti nái fram að ganga. Því er lagt til að í 3. gr. frv. að unnt sé að fresta ákvörðun heildargreiðslumarks verðlagsársins 1996--1997 til 15. september nk., þó ekki lengur en til 1. mars 1996.
    Í 2. gr. frv. er lögð til breyting á 27. gr. laganna í þá veru að öll gjöld sem heimilt er að innheimta samkvæmt V. kafla laganna séu aðfararhæf þannig að fullt jafnræði verði að því leyti.
    Frv. þessu fylgja tvö fylgiskjöl. Annars vegar útdráttur úr skýrslu sem gerð var af landbrn. og Framleiðsluráði landbúnaðarins um ástandið í sauðfjárrækt vegna endurskoðunar búvörusamningsins og hins vegar um kostnaðaráhrif af lögfestingu frv. þar sem staðfest er að samþykkt frv. hafi ekki í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð.
    Hæstv. forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um frv. að þessu sinni. Ég legg til að því verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.