Framleiðsla og sala á búvörum

17. fundur
Föstudaginn 09. júní 1995, kl. 13:31:23 (574)


[13:31]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Hæstv. forseti. Hæstv. landbrh. skýrði það fyrir þingmönnum í gær hvers vegna þetta mál er komið á dagskrá, en ég get samt ekki látið hjá líða að gera athugasemdir við það hvernig þinghaldið hefur verið þær vikur sem liðið hafa frá því að við komum hér saman. Boðað var að hér yrðu til umræðu 3--4 mál í mesta lagi en þau eru að nálgast 40. Síðast í gær kom fram nýtt mál í efh.- og viðskn. og hér er landbrh. mættur með sitt mál. Þótt ég skilji mjög vel mikilvægi málsins og sé reiðubúin að greiða fyrir því að það fái fljóta og góða afgreiðslu þá er það ekki nógu vel að verki staðið að við skulum mæta hér og verða vitni að því hve mál ríkisstjórnarinnar voru illa undirbúin og síðan er verið að vinna hér í stórmálum viku eftir viku. Það hefði verið nær að ríkisstjórnarflokkarnir tækju sér meiri tíma til undirbúnings þannig að við þyrftum ekki að vera að bíða eftir því að þeir komist að niðurstöðu í sínum málum eins og t.d. í sjávarútvegsmálum. Mér finnst vera illa farið með tímann á þessu fagra vori.
    Eins og ég nefndi er ég reiðubúin til þess að greiða fyrir því að þetta mál nái skjótri afgreiðslu. Ég skil mjög vel það sjónarmið hæstv. ráðherra sem er að koma nýr að landbúnaðarmálunum að vilja fá tíma og frest til þess að skoða þau mál frá grunni. Ég get rifjað það upp í því samhengi að okkur kvennalistakonum fannst það mjög óeðlilegt hvernig var staðið að verki bæði veturinn 1987 og veturinn 1981 þegar gengið var frá búvörusamningum við bændur rétt áður en kjósa átti nýtt þing þannig að nýr landbrh. kom þar að öllu geirnegldu og fékk litlu um þokað. Það er eðlilegt að ný ríkisstjórn geti komið að málum á þann hátt að einhverju verði um breytt ef menn vilja gera það. Þess vegna finnst mér það mjög skiljanlegt að hæstv. landbrh. skuli fara fram á þá frestun sem felst að hluta til í þessu frv.
    En þetta mál sem hér er til umræðu leiðir okkur að spurningum um stöðu sauðfjárræktarinnar og því sem kannski skiptir mestu máli í þessu samhengi, þ.e. hvernig ríkisstjórnin og þar með hæstv. landbrh. ætlar að bregðast við því ástandi og hvernig þar verður að verki staðið. Ég vildi biðja hæstv. landbrh. að upplýsa okkur um það hvar sú vinna er á vegi stödd við endurskoðun á búvörusamningnum og jafnframt hvort einhver vinna er komin í gang varðandi sérstakar ráðstafanir eða það hvernig eigi að taka á vanda sauðfjárbænda.
    Ég vil rifja það upp að landbn. fór á sl. sumri í ferð um norðvesturhluta landsins og heimsótti helstu sauðfjárræktarhéruð og þau svæði þar sem sauðfjárræktin er alls ráðandi og vandi bænda einna mestur. Það var afar lærdómsríkt að heyra það sjónarmið bænda og lýsingar þeirra á ástandinu. Ég er ekki viss um að fólk geri sér almennt grein fyrir því hversu gríðarlegur samdrátturinn er, bæði í sjálfri framleiðslunni, í sölunni og ekki síst í þeim launum sem bændur eiga að lifa á. Það vill svo til að ég er hér með fundargerðina frá fundi sem við héldum með fulltrúum bænda á Hvammstanga þar sem saman voru komnir fulltrúar bænda úr einum fjórum sýslum. Þar komu fram tölur um samdrátt í framleiðslu á dilkakjöti og reyndar á heimildum til bænda sem eru upp á allt að 47%. Samdrátturinn nam allt að 47% í fyrra og síðan þá hefur ástandið versnað. Það hefur ekkert svipað gerst varðandi mjólkurframleiðsluna og mér finnst, hæstv. forseti, að við sem förum með fjárveitingavaldið og mörkum pólitíska stefnu í landinu hljótum að verða að gera okkur grein fyrir orsökum þessa samdráttar sem að mínum dómi felst annars vegar í því kerfi sem hér er við lýði og sem því miður hefur virkað þannig að þar er sífellt skorið ofan af og fleirum og fleirum þrýst undir hungurmörkin. Á hinn bóginn hafa átt sér og eru að eiga sér stað gífurlegar breytingar á neyslumynstri landsmanna, því hvað við borðum og mér finnst að bændur hafi alls ekki áttað sig nægilega vel á þessum breytingum og hafi ekki komið með nein svör. Það eru einhverjar auglýsingaherferðir öðru hverju og útsölur en ég tel að þarna sé um mikla grundvallarbreytingu að ræða sem felst í því að Íslendingar eru farnir að borða pasta í stórum stíl og því fylgir bæði minni fiskneysla og minni kjötneysla. Þetta er einfaldlega grundvallarbreyting sem kemur mjög hart niður á íslenskum landbúnaði. Mér finnst að bændur þurfi að reyna að svara þessu. Ef þeir ætla að reyna að halda lífi í sínum búum þá verður að reyna að svara þessu. Menn verða að bregðast við markaðnum, það er ósköp einfalt mál.
    Annað dæmi um þetta er líka grænmetis- og kartöfluneysla. Það má minnast þess að ef eitthvað hleypti lífi í Íslendinga á 19. öld og kom okkur af braut vannæringar og eymdar þá voru það kartöflur. Menn geta auðvitað velt því fyrir sér hvort svona neyslubreytingar eru til góðs eða ills, en ég held að að hluta til sé þær ekki til góðs og sérstaklega ekki það ameríska fæði sem er að halda innreið sína í stórum stíl og veldur gríðarlegum hjartasjúkdómum í Bandaríkjunum og er það til mikils skaða í heilbrigðiskerfinu. Við verðum að gera okkur grein fyrir svona breytingum, orsökum þeirra og afleiðingum.
    Það væri hægt að fara mörgum orðum um stöðu sauðfjárræktarinnar en það er staðreynd að þeir bændur sem hafa orðið fyrir miklum samdrætti hafa ekki haft að neinu öðru að snúa. Það er hluti af vandanum að það hefur nánast ekki átt sér stað nein atvinnusköpun á þessum svæðum þar sem sauðfjárræktin er ríkjandi og menn hafa ekki getað snúið sér að neinu öðru. Og ég beini þeirri spurningu til hæstv.

landbrh., hvaða hugmyndir hann hefur um atvinnusköpun í sveitum og það hvernig leysa megi atvinnuvanda bænda þannig að þeir sem vilja geti einfaldlega hætt búskap. Eflaust vill hluti bænda gjarnan hætta búskap þó að þeir segi reyndar sjálfir að það að vera bóndi sé ákveðinn lífsstíll og mikil ósköp, þeir sem hafa alist up við búskap og umönnun á skepnum eru ákaflega bundnir því tilfinningalega. En það breytir ekki því að staða þessarar atvinnugreinar er mjög slæm og það verður að taka á þeim vanda með því að breyta kerfinu, með því að gera mönnum kleift að lifa af búskap, með því að stuðla að atvinnusköpun fyrir þá sem vilja hætta og með því að gefa gaum að markaðnum og þeim breytingum sem eru að eiga sér stað.
    Hæstv. forseti. Varðandi þær breytingar sem verið er að leggja til í frv. þá geri ég ekki athugasemdir við þær að svo stöddu. Ég átta mig ekki á því hvað þetta þýðir fjárhagslega, hvort þetta þýðir einhver útgjöld fyrir ráðuneytið eða bændur. Ég hef skilið það svo að það sé verið að fresta því að borga eftir því samkomulagi sem nú er í gildi, en ég óska þess að hæstv. landbrh. skýri það fyrir okkur og tek þar undir spurningar síðasta ræðumanns. En ég ítreka það að ég fæ ekki betur séð en hér sé um brýnt mál að ræða og skil mjög vel það sjónarmið hæstv. landbrh. að vilja koma að þessum málum með hreint borð.