Þróunarsjóður sjávarútvegsins

18. fundur
Föstudaginn 09. júní 1995, kl. 14:30:55 (582)


[14:30]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Ég rita undir nál. sjútvn. með fyrirvara ásamt með fleiri hv. þm. stjórnarandstöðunnar í nefndinni. Sá fyrirvari tengist öðrum þræði afstöðu okkar til frv. hæstv. ríkisstjórnar um málefni sjávarútvegsins sem eru til umfjöllunar og þá einkum og sér í lagi í þessu tilviki þeim þætti þeirra frv. sem lúta að úreldingu á smábátum. Eins og kunnugt er er gert ráð fyrir því í frv. að taka krókaleyfisbáta inn í úreldingarkerfið með því að þeir taki til við að borga gjöld í sjóðinn eins og önnur fiskiskip og eigendur þeirra njóti í staðinn sambærilegs réttar til úreldingar og í öðrum tilvikum.
    Það má teljast eðlilegt sjónarmið að sama gildi um allan flotann að þessu leyti en þó verður svo ekki því samkvæmt ákvæðum í frv. til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða þá skulu gilda tvöfalt strangari reglur um endurnýjun smábáta þannig að að sjálfsögðu verða ekki sambærilegar reglur að öllu leyti þegar menn bera saman þá kosti sem þeim standa til boða, annars vegar endurnýjun í nýtt skip og hins vegar þann kost að hverfa úr útgerð og eiga þá viðskipti við Þróunarsjóðinn svokallaða sem kaupir þau skip út úr veiðum sem ætla að hætta útgerð.
    Við teljum ástæðu til að athuga betur hvaða reglur eigi að gilda um úreldingar eða endurnýjunarmálefni krókaleyfisbátanna að þessu leyti. Það á líka við um innkomu þeirra í Þróunarsjóðinn og okkar fyrirvari er að nokkru leyti tengdur afstöðu okkar til frv. í heild sinni og í þessu samhengi.
    Að hinu leytinu til, hæstv. forseti, vil ég lýsa fyrirvara á um frágang málsins í 5. gr. frv. en þar eru lagamörkin sett og segir þar, með leyfi forseta:
    ,,Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði 4. gr. skulu þó eingöngu taka til styrkloforða sem gefin verða út eftir gildistöku laganna.``
    Þetta þýðir á mannamáli að ákvæði 4. gr. fela í sér þá grundvallarstefnubreytingu að nú verður ekki frá og með þessu nauðsynlegt að eyðileggja þau skip sem úrelt verða og koma þeim niður á hafsbotn eða á áramótabrennur eða út úr landinu eins og verið hefur. En svo mikið lá við þegar ákvæðin um Þróunarsjóðinn voru sett á sínum tíma að það átti með öllum tiltækum ráðum að afmá fleyturnar af yfirborði jarðar, a.m.k. skyldu þær hvergi finnast innan 200 mílna efnahagslögsögunnar. Þess vegna hefur sú iðja verið í gangi undanfarin ár að bátar og skip sem fengið hafa úreldingarstyrki og horfið þar með út úr fiskiskipaflotanum hafa verið brotin í spón, borin á bál, söguð í sundur, þeim hefur verið sökkt eða þau flutt út úr landinu.
    Þetta hafa margir gagnrýnt á undanförnum árum af ýmsum ástæðum. Í fyrsta lagi sem hreina sóun á verðmætum. Í öðru lagi væru í sumum tilvikum þjóðminjar að fara forgörðum þar sem verið væri að eyðileggja ákveðna þætti í okkar útgerðarsögu og afmá þá efnislega. Í þriðja lagi færi þarna forgörðum möguleikar til að nýta þessi tæki til annarrar atvinnustarfsemi svo sem í ferðaþjónustu eða til sportveiðimennsku eða einfaldlega til tómstundaiðkana og yndisauka mönnum. Á þetta hefur ekki verið mikið hlustað og svo meira en það, á sl. vetri flutti hæstv. sjútvrh. frv. um að loka hugsanlegum smugum sem einhverjar fleytur af þessu tagi gætu átt aftur inn í landhelgina. Mönnum hafði borist sú óhæfa til eyrna að einhverjir kynnu að hafa selt skip úr landi og hygðust hugsanlega flytja þau aftur inn í landið og fyrir það þyrfti að girða með því að um aldur og ævi væri óhugsandi að þessi skip kæmu inn í landhelgina.
    En nú er aldeilis brotið í blað því 4. gr. frv. gerir ráð fyrir því að gerbreytt sé um stefnu í þessum efnum, 180 gráður, og nú verði það sem sagt bara heimilt og frjálst sem áður var algjörlega bannað og mikið lá við að framfylgja að væri bannað. Frá og með gildistöku laga þessara verður ekki nauðsynlegt að eyðileggja báta heldur má skrá þá sem skip í íslenska flotanum en án veiðileyfa, án leyfa til að stunda veiðar í atvinnuskyni í íslensku efnahagslögsögunni sem eðlilegt er og allan tímann átti náttúrlega að vera. Auðvitað var þetta ofstæki alveg út yfir allan þjófabálk og ekkert því til fyrirstöðu að ganga frá þessu máli eins og öðrum sambærilegum þannig að til að mynda væri þinglýst kvöð á bátunum um að þeir yrðu aldrei framar notaðir til veiða í atvinnuskyni. Þó má auðvitað spyrja hvort ástæða hefði verið til að hafa svo mikið við því ósköp einfaldlega hefði átt að vera fullnægjandi að slík skip hefðu ekki veiðileyfi og væru þar með utan fiskveiðilöggjafarinnar og þess grunns sem veiðar í atvinnuskyni grundvallast á.
    Á það var bent og ég man að ég benti á það í ræðum á fyrri þingum að þetta mætti leysa með mjög sambærilegum hætti og hefur verið gert í öðrum úreldingartilvikum. Til að mynda þegar sláturhús hafa verið úrelt og í það notað fé úr sameiginlegum sjóðum þá hefur verið farin sú einfalda leið að það er þinglýst kvöð á húsnæðið um að það verði ekki notað til sömu atvinnustarfsemi. En það er að sjálfsögðu heimilt að nýta það húsnæði til annars og eru mörg ágæt dæmi um það þó það frægasta sé sennilega sláturhúsið á Dalvík því í því húsnæði er nú rekin einhver fullkomnasta neytendapakkningafullvinnslulína í landinu en á því er að vísu sú kvöð að þar megi ekki taka til við að slátra kindum og kálfum á nýjan leik og er sennilega ekki á dagskrá.
    Alveg eins á þetta að vera með smábátana enda er það loksins lagt hér til og því ber auðvitað að fagna. En þá er valið að gera það þannig, og það er að mínu mati gagnrýni vert, að það tekur eingöngu til þeirra sem fá úreldingarstyrki eða loforð um þá eftir gildistöku laganna. Með öðrum orðum tekur það ekki til þeirra sem þegar hafa fengið loforð eða fengið útgreidda styrki en eiga eftir sem áður enn óeyðilagða báta, ef svo má að orði komast. Þeir verða annað tveggja að brjóta sín skip eftir sem áður eða sækja um til sjóðsins á nýjan leik en þá fylgir sá böggull skammrifi að sé um að ræða skip sem fengu loforð fyrir síðustu áramót þá lækkar verulega sú upphæð sem eigendur þeirra frá greidd. Það getur orðið allt að 20%, að mér skilst, vegna þess að þar hefur margt gerst í senn. Í fyrsta lagi lækkaði styrkhlutfallið um 5% um síðustu áramót, úr 45% í 40%. Í öðru lagi lækkaði tryggingamatið og í þriðja lagi hafa viðkomandi eignir tekið á sig fyrningu. Samtals telst mér svo til, og hef reyndar fyrir mér dæmi um það, að eigandi báts sem fékk loforð um úreldingu undir lok síðasta árs en hefur ekki enn fengið styrkinn útgreiddan eða grandað sínu skipi stendur frammi fyrir því annaðhvort að eyðileggja bátinn eða falla frá fyrri umsókn, sækja um á nýjan leik og fá þá greidda allt að 20% lægri upphæð.
    Ég er óánægður með frágang þessa máls að þessu leyti og hefði viljað að það yrði skoðað hvort ekki væri unnt að hafa gildistökuákvæðið öðruvísi úr garði gert. Ég sé ekki hverjum það þjónar yfir höfuð að vera að stimpast við þetta áfram. Hvers vegna í ósköpunum er þetta ekki einfaldlega þannig úr garði gert að lögin taki þegar gildi og frá og með þeim tíma falli þessi kvöð niður gagnvart öllum um að eyðileggja bátana og þeir geti allir skráð sín skip, hvort sem þeir hafa fengið loforð eða ekki eða fengið styrkinn útgreiddan en ef þeir eiga enn bátinn geti þeir fengið hann skráðan með því að þinglýsa á hann kvöð um að hann verði ekki notaður til veiða í atvinnuskyni innan íslensku efnahagslögsögunnar?
    Ég sé engin stórfelld vandamál í þessu og sé ekki að það þjóni neinum tilgangi að láta þá úreldingu sem þarna er í pípunum sæta þessum eldri ákvæðum. En það virðist vera sáluhjálparatriði einhverra því það kom fram hörð andstaða við þá hugmynd í sjútvn. í morgun að breyta þessu ákvæði. Ég áskil mér rétt til þess að skoða það áfram og flytja þá brtt. um þetta atriði við 3. umr. ef svo sýnist en ástæða getur verið til að afla frekari gagna um það hversu margir gætu átt hér í hlut. Það mun eitthvað vera um það að menn hafi fengið undanþágur frá því að farga bátunum, ef svo má að orði komast, af praktískum ástæðum. Til að mynda mun eitthvað af slíkum fleytum vera undir snjó á ónefndum stöðum á landinu og það hefur einfaldlega ekki náðst til þeirra síðustu mánuði til að tortíma þeim. En nú er tekið að hlýna eins og kunnugt er og sjálfsagt má við því búast að eitthvað af þessum fleytum komi undan fönn á næstunni og þá ber mönnum skylda til að brjóta þær eða brenna nema þeim verði veitt heimild með þannig frágangi

í lögunum að falla undir hið nýja kerfi.
    Að lokum, hæstv. forseti, bara fáein orð um þennan Þróunarsjóð og þessa úreldingarstefnu í sjávarútvegi sem ræðumaður hefur að vísu áður látið falla. Ég undrast það alltaf meira og meira eftir því sem ég hugsa það mál lengur hvað menn eru að fara með þessum ósköpum öllum saman. Það er nú svo, hæstv. forseti, að það á að heita að aðalstjórnkerfið við stjórn fiskveiða á Íslandi sé aflamark. Það sé tiltekið magn af fiski sem menn megi taka á sinn bát upp úr sjónum og síðan verði þeir að hætta þegar þeir hafa ekki lengur meiri kvóta. Einhverjir mundu halda að þar með væri komið það stýrikerfi sem menn ætluðu sér að nota og styðjast við og ekki væri lengur ástæða til að vera að skipta sér af því af hálfu stjórnvalda hvernig menn gerðu það eða á hvernig skipum. Það væri ekki ástæða til þess að hafa vit fyrir mönnum í þeim efnum hvort þeir gerðu það á litlum skipum eða stórum. En svo furðulega vill nú til að flokkur einkaframtaksins og frelsisins í landinu, Sjálfstfl. --- og nú stjórnarflokkurinn, sem mér finnst alveg tímabært, herra forseti, að fara að tala um í eintölu, þ.e. stjórnarflokkinn, þetta er í raun og veru einn flokkur, stjórnarflokkurinn, stóri framsóknarflokkurinn, stjórnarflokkurinn í landinu, --- heldur í þessa úreldingarhyggju. Hann heldur í þá forræðishyggju að ríkið eigi að hafa vit fyrir mönnum í þeim efnum hversu stóran flota sé hægt að gera út frá Íslandi miðað við þá veiðimöguleika sem þar eru og/eða annars staðar í heiminum. Það sé eitthvað sem útgerðarmönnum og útveginum sjálfum sé alls ekki treystandi fyrir að meta.
    Það er stundum verið að bera hér forræðishyggju upp á ýmsa og þar með talinn ræðumann og flokk hans en ég verð að segja alveg eins og er að ég held að þetta sé mesta forræðishyggja sem síðari tíma stjórnmálasagan geymir dæmi um. Hvers vegna skyldi það ekki mega ráðast annars vegar af aflaheimildunum og hins vegar af rekstrarmöguleikum og hagkvæmnisjónarmiðum hvernig flotinn er samansettur og hvað hann er stór? Hvers vegna þurfa stjórnvöld sérstaklega að hafa vit fyrir mönnum í þeim efnum og ákveða það að flotinn, útgerðin, skuli skuldsetja sjálfa sig til þess að minnka, bera fé á eigendur skipa til að kaupa þá út úr útgerð? Í hvert einasta skipti sem fleyta er endurnýjuð á Íslandi þá keppa menn við hinn opinbera sjóð, þurfa að kaupa tonnin í skipunum á móti honum því hann býður alltaf í á móti þeim í reynd í gegnum þau tilboð sem eru standandi um að úrelda skipin.
    Nú er það ekki þannig að þessi forsjárhyggja sé skilgreind með einhverjum hætti, hún byggi á einhverjum markmiðum. Það er t.d. ekki þannig að það liggi fyrir vísindaleg úttekt um að það eigi að minnka afköstin í fiskiskipaflotanum um 10% eða 15% eða einhverja x-tölu, nei, það liggur ekkert fyrir um það. Það liggja engin markmið fyrir um það til að mynda að draga úr afköstum með einhverjum tilteknum hætti. Það er bara sagt: Flotinn er of stór, það á að minnka hann og stjórnvöld ætla að hafa vit fyrir útgerðarmönnum í því hvað sé heppilegt að gera út stóran flota eða hvað sé heppilegt að taka aflann á stórum skipum eða smáum.
    Ég hef oft spurt um markmiðin sem á bak við liggja, um stefnumótunina. Til að mynda það að þessi umframafköst eða ofstærð í flotanum sé alls staðar hin sama því uppkaupin eru blind, þau eru ekki bundin við neinn tiltekinn hluta flotans. Það er ekki gerður greinarmunur á því hvort keyptur er smábátur, netabátur, línubátur, togbátur, rækjutogari, frystitogari eða nótaskip. Það er allt lagt að jöfnu. Það eru tonnin, rúmlestirnar, sem eru keyptar út. Þannig gerast til að mynda þau ósköp í þessu kerfi að það er verið að úrelda jafnvel skip úr þeim hluta flotans þar sem allir viðurkenna að afköstin eru orðin of lítil eins og í nótaflotanum. Það er þannig að við höfum ekki náð kvótanum í loðnu og jafnvel fleiri uppsjávartegundum undanfarin ár og nú er norsk-íslenska síldin að bætast við. Það er í öðru lagi þannig að þessi floti er allur meira og minna orðinn úreltur og það er ljóst að það bindur afköst sem nemur 30--40% að endurnýja hann í nútímahorf með kælitönkum og einangruðum lestum o.s.frv. Samt er haldið áfram með úteldingartilboð til þessa hluta flotans sem myndar þröskuld sem hver einasti útgerðarmaður sem ætlar að endurnýja sitt skip þarf að komast yfir af því að hann er alltaf að keppa við sjóðinn.
    Ég get ekki annað, hæstv. forseti, en notað þetta tækifæri til að koma aðeins inn á þetta einu sinni enn vegna þess að það er enginn bilbugur á þessu. Nú er verið að setja trillurnar inn í þetta fína kerfi. Þessi sjóðahugsun og þessi forræðishyggja sem þarna er á ferðinni er að mínu mati alveg ótrúleg og að mínu mati skortir verulega rök fyrir að halda þessari vitleysu áfram. Ég hef lengi undrast þolinmæði útgerðarmanna sjálfra til að búa við þetta. Hér er verið að skuldsetja greinina fram í tímann sem nemur mörgum milljörðum króna því þannig er að þessu farið að slegin eru stór lán svo nemur milljörðum og síðan á að leggja á aflagjald og jafnvel vísi að auðlindaskatti á greinina á komandi árum til að fjármagna þær lántökur. Undir þessu sitja menn.
    Ég hef leyft mér að halda því fram að ef ekki væri fyrir hendi a.m.k. einhver ónýtt afkastageta í flotanum og hefði verið á undanförnum árum þá hefðu menn misst af ýmsum möguleikum til aukinnar verðmætasköpunar sem menn náðu að höndla vegna þess að floti sem vantar verkefni skapar þrýsting á að þeirra sé leitað. Það er það sem hefur gerst. Þegar draga varð saman þorskveiðarnar í byrjun 9. áratugarins í kjölfar svartra skýrslna um ástand þorskstofnsins, hvað gerðu menn þá? Þá losnuðu afköst í skipum sem áður höfðu haft nóg að gera við að veiða þorsk --- og hvert fóru þau? Þau fóru sem betur fer ekki á haugana, þau voru sem betur fer ekki keypt af einhverjum samdráttarsjóði, þau fóru til að veiða rækju. Og á skömmum tíma óx rækjuveiði við Ísland úr 5.000--8.000 tonnum í yfir 40.000 tonn og rækjan varð á örfáum árum næstverðmætasta útflutningsafurð þjóðarinnar.
    Hefði það gerst ef menn hefðu jafnóðum úrelt þessi afköst? Svarið er nei. Hefðu menn farið til

veiða á Reykjaneshrygg eða í Barentshafið eða á Flæmska hattinn ef jafnóðum hefði öll umframafkastageta verið úrelt út úr íslenska flotanum? Svarið er nei. Menn fara ekki til nýrra verkefna með skip sem búið er að henda. Það er nefnilega þannig. Mér er satt best að segja ekki kunnugt um að það hafi verið svo óskaplega mikil umframafköst í flotanum sem ekki hafi fundið sér að mestu leyti verkefni á undanförnum árum þrátt fyrir mikinn samdrátt sem hefur reynst óhjákvæmilegur, t.d. í þorskveiðum.
    Menn geta endalaust sett fram formúlur um að það mætti ná þeim afla sem leyfilegt er að taka innan íslensku efnahagslögsögunnar með minni flota og það geti verið hagkvæmt fyrir þann flota sem slíkan. En er það hagkvæmt fyrir þjóðarbúið? Þýðir það ekki minni heildarverðmæti fyrir þjóðarbúið? Svarið er auðvitað jú. Ég held því að ekki sé heldur mikil efnahagsleg eða þjóðhagsleg skynsemi að öllu leyti á bak við þessa hugsun. Það getur vel verið að menn komist að þeirri niðurstöðu að það sé rétt að hafa möguleika á að draga úr afköstum í einhverjum hlutum flotans og hjálpa útgerðarmönnum sem vilja hætta í því baksi til að gera það með einhverjum sjóði af þessu tagi en ég held að það eigi þá að gera á grundvelli einhverra skilgreindra markmiða og einhverrar stefnumótunar. Þetta er það sem ég hef kallað úreldingarvitleysuna, samdráttarsjóð sjávarútvegsins, sem því miður hefur af einhverjum ástæðum fengið öfugmælið Þróunarsjóður, er ekki þróunarsjóður heldur sjóður sem virðist hafa það eina markmið að draga saman í íslenskum sjávarútvegi, að fækka störfunum, að minnka umsvifin. Eins og það geti verið eitthvert vitlegt keppikefli eða markmið.
    Þetta er alveg furðulegt, hæstv. forseti, satt best að segja ef reynt er að nálgast þetta viðfangsefni svona og ræða það og spyrja um rökin og forsendurnar fyrir þessu. Ætli við fáum að heyra mikið af því á eftir? Ég á ekki von á því að það verði breyting á enda hverfa stjórnarliðar, þeir fáu sem hér voru áður, úr salnum. ( Gripið fram í: Sá síðasti er á leiðinni.)
    Ég held að það standi upp á ábyrgðaraðila þessara mála að gera einhvern tímann þó að það verði kannski við annað tækifæri en nú betur grein fyrir hugmyndafræðinni á bak við þetta eins og hún blasir við okkur. Ég get frekar skilið og frekar fyrirgefið þeim mönnum sem glöptust til þess að lenda inn á þessari braut á þeim svartnættistímum í sjávarútveginum áður en menn komust almennilega á skrið við að nýta sér ýmsa ónýtta möguleika í vannýttum tegundum og veiðimöguleikum utan landhelginnar sem nú færa milljarða króna inn í þjóðarbúið á hverju ári. En nú er það búið að sýna sig á síðustu árum að þarna reyndust stórkostlegir vannýttir möguleikar þar sem fundust mikil verkefni fyrir þau afköst sem losnuðu í íslenska flotanum þegar draga varð saman þorskveiðina. Auk þess hefur auðvitað komið í ljós að menn gátu gert ýmsar ráðstafanir til að gera sér meira verðmæti úr þeim afla sem þeir máttu taka og sumar þær ráðstafanir kölluðu á pláss og skip, svo sem bætt meðferð afla, styttri veiðiferðir o.s.frv.
    Að einhverju leyti er þessi úreldingarvitleysa arfur af gömlu magnhugsuninni um að þetta snúist um það að veiða sem mest á sem stystum tíma á sem fæst skip. En maður hefði haldið að menn væru komnir það áleiðis á þróunarbrautinni í umræðum um sjávarútvegsmál á Íslandi að þeir áttuðu sig á að það er ekki framtíðin. Það er ekki það sem við eigum að keppa að heldur að gera sem mest verðmæti úr þeim afla sem við tökum, ná þar hæstu mögulegum gæðum og verði og í þeim tilgangi getur einmitt verið nauðsynlegt að hafa eitthvað afkastameiri eða stærri flota en ella því gæðin geta jafnvel kostað það að menn verða að sætta sig við eitthvað minna magn á hvert skip.
    Herra forseti. Ég leyfði mér að gera í tengslum við þetta frv. um Þróunarsjóð sjávarútvegsins að umræðuefni þetta mál aðeins í almennu samhengi af því að mér finnst það eðlilegt við meðferð þess og á nýju kjörtímabili þegar ný ríkisstjórn er að stíga sín fyrstu skref í málefnum sjávarútvegsins og eitt af hennar frv. eru þessar breytingar á lögunum um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, þann mikla forsjárhyggjusjóð sem ótrúleg samstaða virðist ríkja um í stjórnarflokknum að standa vörð um og starfrækja áfram með óbreyttu sniði. Að öðru leyti vísa ég til þess sem ég sagði fyrr í minni ræðu varðandi fyrirvara mína á nál. sjútvn. á þskj. 65.