Þróunarsjóður sjávarútvegsins

18. fundur
Föstudaginn 09. júní 1995, kl. 16:04:39 (588)


[16:04]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Herra forseti. Það er rétt að fulltrúar Landssambands smábátaeigenda komu ekki sérstaklega á fund sjútvn. út af þessu máli en þeir höfðu hins vegar í tvígang komið fyrir nefndina á undanförnum dögum vegna þessara sjávarútvegsmála og það lá fyrir umsögn frá þeim og hún lá frammi í gögnum nefndarinnar. Það er óhætt að upplýsa, hygg ég, að sú umsögn er ekki sérlega jákvæð, enda hafði áður komið fram að Landssambandið er óánægt með þær takmarkanir sem verið er að gera á smábátaútgerðinni, ef svo má að orði komast, og inn í það mál kemur afstaða þeirra gagnvart þessum úreldingarreglum.
    Það var mikill þrýstingur á það að málið fengi afgreiðslu og við töldum að með því að kalla í nánast alla þá aðila sem okkur komu til hugar og alla þá sem óskað var eftir fyrir nefndina út af aðalmálinu, sem er frv. til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða og það má segja að þetta sé fylgifrv. þess í þeim skilningi að þetta er hluti af þeim takmörkunaraðgerðum og leiðir af þeim takmörkunarákvæðum sem verið er að taka upp með lögfestingu þeirra ákvæða ef af verður, þá hafi umræðan fyrst og fremst farið fram í umfjöllun nefndarinnar um það mál. Það kom ekki fram nein ósk um að Landssamband smábátaeigenda væri sérstaklega kallað til nefndarinnar út af þessu máli og þar af leiðandi var það látið nægja af okkar hálfu að fá ráðuneytismenn og forsvarsmann Þróunarsjóðs á fund nefnarinnar til að upplýsa um frv. og stöðu sjóðsins. Þar voru lögð fram öll þau gögn sem málið varðar að því leyti til. Sé hins vegar eftir því óskað þá er að sjálfsögðu unnt að verða við því að kalla þá til nefndarinnar þess vegna milli 2. og 3. umr. eða fá þessari umræðu frestað þar sem hún er nú stödd og fá þá fyrir nefndina. Má út af fyrir sig vel rökstyðja að það sé eðlilegt að þeir eigi þess kost að koma sérstaklega fyrir sjútvn. út af þessu máli.