Þróunarsjóður sjávarútvegsins

18. fundur
Föstudaginn 09. júní 1995, kl. 16:07:05 (589)


[16:07]
     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hv. 4. þm. Norðurl. e. fyrir þessi svör. Ég lít svo á að það hljóti að vera fullnægjandi fyrir nefndina að hafa fengið skriflega greinargerð um þetta mál sem hefur þá legið fyrir hjá nefndinni þannig að hv. nefndarmenn gætu kynnt sér afstöðu Landssambands smábátaeigenda. Ég tel ekki ástæðu til að fresta þessari umræðu hér og nú, heldur gefst e.t.v. færi til þess milli 2. og 3. umr., m.a. fyrir mig, að líta á þá greinargerð sem liggur hjá hv. nefnd. Ég tel eðlilegt að leitað sé umsagnar í þessu tilviki Landssambands smábátaeigenda, en ég efast ekki um það að þegar þeir komu fyrir nefndina vegna annarra mála sem eru hér einnig til meðferðar þá hafi þetta borið á góma þannig að það hafi gefist færi á því að ræða þetta í nefndinni.
    Ég þakka fyrir, hæstv. forseti, þau svör sem hér hafa verið gefin og tel þau fullnægjandi og tel ekki ástæðu til að umræðunni verði frestað en vænti þess að ég fái tækifæri til að líta á þessi gögn.