Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

18. fundur
Föstudaginn 09. júní 1995, kl. 17:49:33 (597)


[17:49]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er auðvitað með ýmsum hætti sem mál getur borið að í þinginu. En venja er að meginefnisatriði máls eru lögð fram í frv. í upphafi og það hefur ekki verið talinn góður siður í þinginu að skjóta algerlega nýjum efnisatriðum sem á engan hátt að dómi flutningsmanna né þingsins tengdust hinu upphaflega frv. inn í frv. við 2. umr. þannig að ekki gefist neinn kostur á að ræða málið við 1. umr. Ef það er virkilega þannig að fjmrh., eins og kom fram í andsvari, hafi beitt sér fyrir því við nefndina án þess að gera þinginu grein fyrir því við 1. umr. að hann væri með í farangrinum grundvallarbreytingu sem að mínum dómi getur ekki þýtt annað en vantraust á núv. forstjóra Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, þá er þetta mál af því tagi að það krefst alveg sérstakrar umfjöllunar. Það er á engan hátt frambærilegt að Alþingi geti meðhöndlað ríkisstofnanir og stjórnendur þeirra með þessum hætti. Ég vona satt að segja að málið sé ekki þannig vaxið að það sé fjmrh. sem sé að beita sér fyrir þessu. Því ef það er þannig að það er fjmrh. sem er að beita sér fyrir þessu í þinginu, í nefndinni, án þess að greina frá því við 1. umr. þá krefst það sérstakrar umræðu og umfjöllunar hér hvers vegna sá maður sem búinn er að bera stjórnskipulega ábyrgð á Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins í rúm fjögur ár, núv. hæstv. fjmrh., Friðrik Sophusson, telur allt í einu nauðsynlegt að fara að blanda stjórnskipulegri breytingu á valdahlutföllum innan þessa fyrirtækis inn í þess umræðu.
    Ég vil þess vegna ítreka það sjónarmið mitt að þeir sem tala hér af hálfu nefndarinnar, eins og síðasti hv. ræðumaður og aðrir, útskýri þetta mál.