Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

18. fundur
Föstudaginn 09. júní 1995, kl. 18:00:20 (602)


[18:00]
     Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar) :
    Herra forseti. Það er alveg hárrétt að við eigum það sameiginlegt sem ræðumaðurinn nefndi síðast og það er líka rétt að þessi vara er lögleg í landinu. En hún er lögleg með mjög sérstökum hætti og það kemur berlega í ljós að hv. þm. hefur allt annan skilning á þessum málum eða allt önnur viðhorf en a.m.k. ég vegna þess að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson talar um áfengi eins og það væru strigaskór eða hjólaskautar eða pylsur. Þetta sé bara eins og hver önnur vara sem eigi að meðhöndlast og sæta sömu reglum þar með talið væntanlega og þar af leiðandi sé ekkert athugavert við það að hver og einn versli með þetta eins og honum sýnist. Það virðist vera hugmyndaheimurinn sem á bak við liggur hjá hv. þm. Þó að þessi vara sé lögleg í þeim skilningi að það er ekki alfarið bannað að versla með hana í landinu þá hafa gilt um það mjög sérstök ákvæði --- og af hverju? Það er af því að þetta er vímuefni, hv. þm., og um það er víðast hvar í heiminum sátt að um þessa vöru gildi mjög sérstakar reglur og allt aðrar heldur en um aðrar vörur og almennar neysluvörur. Í þessu liggur held ég grundvallarmisskilningur hv. þm. Áfengi er ekki sambærilegt við strigaskó þegar kemur að því að hafa það á boðstólum, að verslað sé með það og hver og einn

geti fari með það og grætt á því eins og honum sýnist. Þetta á ekki að vera þannig.