Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

18. fundur
Föstudaginn 09. júní 1995, kl. 18:05:52 (604)

[18:05]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Ég vona að það geti greitt fyrir fundarstörfum að taka til máls undir þessum lið með tilliti til ræðu hv. síðasta ræðumanns. Reyndar hefur það verið með ólíkindum hvernig rætt hefur verið um það mál sem hefur verið á dagskrá að undanförnu, bæði af hv. alþm. og reyndar í fjölmiðlum því að ef eitthvað er þá liggur það fyrir að eftirlit t.d. verður betra af sjálfu sér ef frv. fer í gegn en án frv. sem liggur í því að það myndast munur á heildsölu og smásölu og það er mjög auðvelt að rekja hvaðan flöskur koma og mun auðveldar en við núverandi aðstæður.
    Það hefur komið fram að frumkvæðið að þeirri breytingu sem hefur verið gerð að umtalsefni á lagafrv. liggur hjá meiri hluta nefndarinnar en ég vil að það komi fram líka að ég samþykkti það fyrir mitt leyti. Það mun hafa verið þannig að í umræðum í nefndinni var bent á að það þyrfti að gera mun á heildsölunni annars vegar og smásölunni hins vegar og niðurstaðan varð sú sem allir þekkja.
    Ég vil taka það fram og leggja á það sérstaka áherslu að fjmrh. getur án lagaheimildar sett slíka stjórn og skipt fyrirtækinu upp í deildir eins og honum þykir henta svo framarlega sem hann brýtur ekki lög. Þannig hefur það verið með aðrar stofnanir og fyrirtæki á vegum fjmrn. og ég minni hv. 8. þm. Reykn. á það að þegar hann var fjmrh. fyrir nokkrum árum, þeim fjölgar nú reyndar, þá setti hann stjórn á Lyfjaverslun ríkisins án beinnar lagaheimildar. Það er enginn vandi fyrir ráðherra að gera það um stjórn fyrirtækja sem heyra beint undir hann.
    Þetta vildi ég að kæmi fram þannig að ljóst sé að það er ekkert í tillögunum sem liggja fyrir sem gefur tilefni til þess að fresta umræðum og klára ekki þau mál sem hér hafa verið vandlega rædd og fengið eðlilega umfjöllun í nefnd.
    Virðulegi forseti. Ég vonast til að þessi skýring dugi fyrir þá sem hafa óskað eftir að gert verði hlé á fundarstörfum til þess að fjalla um þetta mál, en að sjálfsögðu þykir mér eðlilegt, eins og ég heyri að hæstv. forseti er búinn að gera að þetta mál verði hvílt í bili og tekið fyrir næsta mál.