Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

18. fundur
Föstudaginn 09. júní 1995, kl. 18:09:30 (606)



[18:09]
     Ólafur Ragnar Grímsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Ég vildi að það kæmi fram að við óskuðum ekki eftir því að það yrði gert hlé á þessari umræðu og aðdróttanir hæstv. fjmrh. í okkar garð um að við værum að koma í veg fyrir eðlilega umfjöllun á þessu máli eru ekki á rökum reistar enda hefur forseti staðfest það núna úr forsetastóli að það var að frumkvæði forseta sem óskað var eftir því.
    En það er nauðsynlegt að fjmrh., þegar hann sést í mýflugumynd í salnum, átti sig á því hvað er hér raunverulega að gerast. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir að staðfesta það enn frekar við umræðuna að það er ekki samkvæmt tillögum fjmrn. og það er ekki samkvæmt tillögum fjmrh. sem hér er komin tillaga um sérstaka stjórn á Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins heldur hafa það verið fulltrúar Framsfl. og fulltrúar Sjálfstfl. í efh.- og viðskn. sem flytja og búa til þessa tillögu. Fjmrh. hefur hins vegar sagt að hann sé ekki andvígur henni. Það er allt annar handleggur. Ég sagði áðan að ég tel ekki hægt að fara að ræða hér algerlega nýtt efnistriði af þessari stærðargráðu í augum margra án þess að tillögumennirnir séu mættir hér á vettvangi. Það dugir mér engan veginn að tala við hv. þm. Vilhjálm Egilsson um þau mál nema Framsfl. sé bara búinn að afhenda honum algera prókúru --- ekki bara fyrir Verslunarráðið heldur líka fyrir Framsfl. Ég vil fá að heyra frá fulltrúum Framsfl. í efh.- og viðskn. hvers vegna fulltrúar Framsfl. gerðu allt í einu þá uppgötvun að það þurfi að setja sérstaka stjórn yfir Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Enginn flokkur hefur jafnlengi borið ábyrgð á Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins og Framsfl. ( KÁ: Frá 1917.) Frá 1917. Framsfl. á Íslandsmet í því að bera ábyrgð á stjórn Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, bæði hvað snertir ráðherraábyrgðina og forstjóraábyrgðina. Það eru þess vegna nokkur tíðindi þegar fulltrúar Framsfl. uppgötva allt í einu að nú þurfi að setja stjórn yfir þetta fyrirtæki og ég vil heyra þeirra rök fyrir því.
    Þess vegna, virðulegi forseti, sagði ég það hér að a.m.k. hvað mína þátttöku snertir í þessari umræðu þá tel ég óhjákvæmilegt að þeir fulltrúar Framsfl. sem standa að þessari tillögu og voru höfundar hennar samkvæmt því sem hér hefur verið upplýst séu á vettvangi svo hægt sé að ræða við þá um málið. Það er sú eina ósk sem ég beini til virðulegs forseta varðandi þessa umræðu. Að öðru leyti hef ég enga athugasemd við það að gera hvernig hún fer fram.