Gjald af áfengi

18. fundur
Föstudaginn 09. júní 1995, kl. 18:12:40 (608)


[18:12]
     Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta efh.- og viðskn. um frv. til laga um gjald af áfengi.
    Nefndin hefur fjallað um þetta mál samhliða frv. um verslun með áfengi og tóbak og gerir í nefndarálitinu tillögu um ákveðna breytingu sem er einungis tilvísanabreyting og tæknilegs eðlis.
    Í umfjöllun nefndarinnar hefur hins vegar verið rætt um það að æskilegt væri að auka framlög til forvarna vegna áfengisneyslu. Má segja sem svo að það sé engin sérstök ástæða til þess í sjálfu sér vegna þeirra breytinga sem hér eru að verða. Þær hafa í sjálfu sér ekki í för með sér neina aukningu á neyslu á þessari vöru svo teljandi sé. Hins vegar er það ágætismál og í rauninni nauðsynlegt af öðrum ástæðum að auka framlög til forvarna og því hyggst meiri hlutinn leggja fram tillögu um það við þessa umræðu eða við 3. umr. að stofnaður verði sérstakur forvarnasjóður sem fái til sín 1% af skatttekjum ríkissjóðs af þessum viðskiptum og að sá sjóður styrki á verkefnagrundvelli ýmis samtök og aðila til forvarna gegn áfengisdrykkju.

    Það er nú þannig að þótt ég og hv. þm. Steingrímur Sigfússon séum neytendur þessarar vöru teljum við mikilvægt að hennar sé neytt í hófi og ekki sé verið að halda henni sérstaklega að börnum og unglingum, en það starf á ekki að breyta með nokkrum hætti þeirri viðleitni að viðskiptahættir með þessa vöru séu eins eðlilegir og hægt er miðað við þær takmarkanir sem um þetta gilda. Ég verð að segja það sem mína skoðun að ég tel að það sé alls engin trygging fyrir því að áfengisviðskipti og áfengisnotkun sé verri eða betri í landinu hvort varan er afhent eða seld af ríkisstarfsmönnum eða starfsmönnum einkafyrirtækja. Ég tel að bæði starfsmenn ríkisins og starfsmenn einkafyrirtækja séu jafn vel til þess fallnir og færir að stunda viðskipti með þessa vöru og forræði ríkisins á þessu máli hafi nákvæmlega ekkert að segja um það hvort og hvernig neyslu er háttað. Það eru hinar almennu takmarkanir sem á þessu gilda sem geta haft þýðingu. Það er skatturinn sem á þessa vöru er lagður og verðlagningin á henni sem hefur þýðingu og síðast en ekki síst eru það hin almenna menning sem í landinu gildir á þessu sviði og hin almennu viðhorf almennings og hvernig börn og unglingar eru alin upp sem skipta máli í þessu sambandi.