Gjald af áfengi

18. fundur
Föstudaginn 09. júní 1995, kl. 18:42:42 (616)


[18:42]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Herra forseti. Það er rétt að fyrr í dag leyfði ég mér að óska hæstv. heilbrrh. velfarnaðar í starfi og það meina ég ærlega. En það er jafnframt rétt að ég spurði hæstv. heilbrrh. nokkurra spurninga, m.a. um þá stefnu sem ráðuneytið hefur í áfengisvörnum andspænis þeim byltingarkenndu breytingum sem eru að eiga sér stað í verslun með áfengi samkvæmt þessum frumvörpum.

    Ég verð að játa það að ég skildi ekki svör hæstv. ráðherra áðan þannig að ég teldi þau viðhlítandi.
    Ég held að það sé nauðsynlegt líka að hafa það í huga að þau vandamál sem menn standa frammi fyrir hafa farið vaxandi á undanförnum árum, m.a. vegna þess að það hefur verið losað um fleiri þætti í þessum málum en t.d. verslun ríkisins með áfengi og tóbak. Það hefur líka gerst að vínveitingastöðum hefur fjölgað stórkostlega, t.d. fjölgaði vínveitingahúsum á Íslandi á árunum frá 1980 til ársins 1995 úr 42 í 350. Það er ótrúleg breyting á örstuttum tíma. Í Reykjavík einni einni hefur t.d. vínveitingahúsum fjölgað úr 18 31. des. 1980 í 138. Það er augljóst að áfengiseftirlitið og löggæslan ræður ekki við þetta jafnvel þó að hún hafi með málunum sérstakar gætur.
    Til viðbótar við þennan vanda sem Reykvíkingar standa frammi fyrir núna og er orðin þannig að fólk þorir ekki að senda börnin sín út á götur á kvöldin eða nóttunni, til viðbótar við þennan vanda er verið að auka hér við, það viðurkenna allir. Ég spyr hæstv. heilbrrh.: Hvað segir landlæknir í þessu máli? Hver er skoðun hans? Er hann þeirrar skoðunar að það þurfi að losa um þessa hluti --- eða hvað?