Vandi húsbyggjenda og skuldastaða heimilanna

19. fundur
Laugardaginn 10. júní 1995, kl. 10:34:37 (622)


[10:34]
     Ögmundur Jónasson :
    Hæstv. forseti. Tilefni þess að óskað er eftir þessari umræðu um húsnæðismál með sérstöku tilliti til skuldastöðu heimila er að fólk sem á í húsnæðis- og skuldabasli á heimtingu á því að vita hvaða hugmyndir ríkisstjórnin hefur til lausnar á þeim vanda sem það stendur frammi fyrir og er að verulegu leyti á ábyrgð stjórnvalda eins og ég mun sýna fram á.
    Stöðu húsnæðiskaupenda og leigjenda bar mjög á góma í kosningabaráttunni, enda ekki að undra. Ástandið í húsnæðismálum gefur spegilmynd af kjörum og hlutskipti þúsunda fjölskyldna. Það hlutskipti er ekki gott og það hlutskipti hefur farið versnandi. Skuldaklafi heimilanna hefur vaxið stórlega á sama tíma og greiðslugeta þeirra hefur rýrnað. Þetta er hið alvarlega í stöðunni.
    Samkvæmt könnun sem birt var á vegum Húsnæðisstofnunar í byrjun mars var fimmta hvert húsbréfalán komið í veruleg vanskil. En vandinn var engan veginn einskorðaður við húsbréfakerfið því að á meðal þeirra sem höfðu lán frá byggingarsjóðunum, bæði í félagslega kerfinu og hinu almenna, voru einnig

veruleg vanskil. Þannig var um fjórðungur lántakenda í Byggingarsjóði verkamanna í miklum vanskilum.
    Þá er ljóst að margt fólk býr við svo bág kjör að það hefur ekki einu sinni haft efni á því að koma sér í stöðu skuldarans, hefur hreinlega ekki haft aðgang að neinu lánakerfi og enn er að nefna að stórir hópar fólks lenda á milli kerfa, hafa of miklar tekjur til að fá aðgang að félagslega kerfinu, of lágar tekjur til að komast í húsbréfakerfið, of háar tekjur til að fá húsaleigubætur, með öðrum orðum stórir hópar fólks lenda á milli kerfa, fá hvergi inni. Þess vegna segir skuldastaða húsnæðiskaupenda, þótt hrikaleg sé, aðeins hálfan sannleikann um hve ástandið í húsnæðismálum er raunverulega slæmt.
    Á undanförnum árum hefur endalaust verið hringlað með húsnæðismálin, vextir hafa verið keyrðir upp og hækkaður aftur í tímann. Í fáti hefur verið hlaupið úr einu kerfi í annað, en allt þetta hefur skapað öngþveiti og óvissu til langs tíma. Og nú til viðbótar ríkir pólitísk óvissa. Á húsnæðismarkaði er spurt hvað ríkisstjórnin ætli að gera, til hvaða ráðstafana hún ætli að grípa.
    Að sögn fasteignasala er nú óvenjumikil sölutregða, húsnæði er illseljanlegt og ástæðan sem gefin er upp er að beðið sé eftir aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Nú vil ég taka það mjög skýrt fram að ég er ekki að hvetja til snöggsoðinna, fálmkenndra viðbragða. Þvert á móti vil ég ígrundaðar ráðstafanir því að mikið liggur við að menn skilgreini á yfirvegaðan hátt hvað hægt er að gera þegar í stað til aðstoðar þeim sem eru að missa eigur sínar, en einnig þarf að hyggja að langtímalausnum. Síðast en ekki síst þarf að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða þannig að þeir sem eru að kaupa, selja eða ætla að leigja lendi ekki einnig í vandræðum. Lausnir á vanda húsnæðiskaupenda og leigjenda á ekki að binda við húsnæðiskerfið eitt. Staðreyndin er sú að vandi húsnæðiskaupenda og leigjenda verður ekki einvörðungu leystur með aðgerðum í húsnæðiskerfinu. Þannig birti t.d. hagfræðingur BSRB, Rannveig Sigurðardóttir, mjög athyglisverða útreikninga sl. haust, útreikninga sem fengið hafa staðfestingu í síðari könnunum mjög áþreifanlega eftir að könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands var birt með sundurgreiningu á skuldastöðu og greiðsluerfiðleikum fjölskyldna. Í þeirri sundurgreiningu kom fram að þeir sem áttu í mesta skuldabaslinu voru millitekjuhópar, sömu hópar og orðið höfðu fyrir mestri skerðingu ráðstöfunartekna í millifærslukerfinu, þeir hópar sem höfðu orðið fyrir mestum jaðarskattshækkunum. Útreikningar Rannveigar Sigurðardóttur hagfræðings sýndu fram á að fjölskylda með rúmlega 200 þús. kr. heildartekjur á mánuði, þrjú börn, tvö undir 7 ára aldri, hafði á undangengnum fjórum árum orðið fyrir skerðingu á ráðstöfunartekjum af völdum samtvinnaðra þátta almennrar kaupmáttarrýrnunar, hækkunar á sköttum og lækkunar á barnabótum og vaxtabótum sem nam um 18 þús. kr. á mánuði. Það sem er umhugsunarvert við þessa upphæð, og það benti hagfræðingurinn sérstaklega á, er að þetta er sama upphæð og nemur afborgun af meðalhúsbréfaláni upp á 3 millj. kr.
    Lærdómurinn af þessu dæmi er sá að lausnin fyrir umrædda fjölskyldu er ekki einvörðungu úrbætur á sviði húsnæðismála heldur samræmdar aðgerðir á öðrum sviðum einnig. Hækkun barnabóta, vaxtabóta, húsnæðisbóta, lækkun þjónustugjalda o.s.frv. eftir málsatvikum. Á þessu hafa margir hv. þm. sem styðja stjórnina, þar á meðal ráðherrar eins og hæstv. viðskrh., sýnt mikinn skilning. Í prýðilegri ræðu sem hann flutti í tíð síðustu ríkisstjórnar fyrir aðeins fáum vikum benti hann á þetta samhengi hlutanna. Þáv. hv. þm., núv. hæstv. ráðherra, Finnur Ingólfsson, fullyrti að neyðarástand væri að skapast á þúsundum heimila vítt og breitt um landið, eins og hann orðaði það að mínum dómi réttilega, og hann skilgreindi vandann meðal annars með því að rekja hann til þeirrar stefnu sem ríkisstjórn Alþfl. og Sjálfstfl. rak almennt í efnahags- og atvinnumálum. Svo að ég vitni orðrétt í ræðu hans, með leyfi forseta:
    ,,Nefna má atvinnuleysi, hærri vexti, hærri skatta, lækkun á barnabótum, hækkun á þjónustugjöldum í heilbrigðisþjónustunni og hækkun á þjónustugjöldum í menntamálum. Þetta hefur orðið til þess að heimilin hafa orðið fyrir meiri útgjöldum heldur en áður. Þetta hefur orðið til þess að þær greiðsluáætlanir sem Húsnæðisstofnun ríkisins og bankarnir lögðu upp með fyrir þessa einstaklinga hafa farið úr skorðum og nú er svo komið að neyðarástand blasir við.``
    Þetta var rétt fyrir nokkrum vikum og þetta er líka rétt núna. Fulltrúar Sjálfstfl. með hæstv. forsrh. í broddi fylkingar hafa á sinn hátt tekið undir þessi sjónarmið og viðurkennt að sú gagnrýni af okkar hálfu að jaðarskattar væru orðnir hættulega háir, að sorfið hafi verið um of að fólki með margvíslegum skerðingum, ætti við rök að styðjast.
    En það er ekki nóg að viðurkenna vandann og tala um neyðarástand fyrir kosningar ef menn sýna engin viðbrögð að þeim loknum. Við neyðarástandi á að bregðast með aðgerðum en ekki aðgerðaleysi því að þá eru menn að bregðast sjálfir. Í ljósi allra yfirlýsinganna úr kosningabaráttunni kom það óneitanlega á óvart þegar stjórnarsáttmálinn var kynntur því að þar var sagt berum orðum að ekki yrði tekið á skattkerfismálum, jaðarskattar yrðu t.d. ekki lagaðir fyrr en í fyrsta lagi í ársbyrjun 1997, þá væntanlega í tengslum við kjarasamninga sem renna út um áramótin 1996--1997. Og nú er rétt að spyrja: Er það fyrst þá sem á að aflétta neyðinni? Sagði ekki Framsfl. að fólk ætti að vera í fyrirrúmi? Var það ekki eitt af áróðursspjöldum ríkisstjórnarinnar fyrir kosningar, fólk í fyrirrúmi? Er skilningurinn sem menn kváðust hafa á erfiðleikum fólks og neyð virkilega svona léttvægur? Ætla menn sér virkilega að versla með eigin loforð? Stendur til að selja fyrirheitin sem kjósendum voru gefin í kjarasamningum eftir tvö ár? Ef þetta er rétt þá verður það að koma í ljós. Menn verða að koma hreint til dyranna, þó ekki allsberir eins og einn af aðstoðarmönnum fjmrh. gerði í Morgunblaðinu fyrir fáeinum dögum þegar hann sagði að lausnin á háum jaðarsköttum væri ósköp einföld: Afnema millifærslurnar, burt með barnabætur, burt með vaxtabætur, þetta væri

tekjutengt og ef við losnuðum við þessar bætur værum við jafnframt laus við tekjutengingar og þar með jaðarskatta. Einfaldasti hlutur í heimi.
    Ekki dettur mér í hug að ætla að hæstv. félmrh. skrifi upp á útleggingar eins og þessar. Hins vegar skrifaði hann upp á stjórnarsáttmálann og nú er að vita hvaða skilning hann leggur í hann. Reyndar mega hæstv. ráðherrar vita að sú krafa sem hlýtur að vera reist á hendur ríkisstjórninni er að þegar í haust verði gerðar umfangsmiklar skattkerfisbreytingar þar sem almennu launafólki verður í fyrstu umferð fært til baka það sem af því var tekið á síðasta kjörtímabili með hverri skerðingunni á fætur annarri gegn hörðum og eindregnum mótmælum utan þings og einnig innan. Þetta er skilyrðislaus krafa og hún er siðferðileg á hendur stjórnmálamönnum sem hafa gefið kjósendum sínum fyrirheit í þessa veru. Þessi krafa byggir líka á efnahagslegri nauðsyn gagnvart grunneiningum efnahagslífsins, fjölskyldunum í landinu. Þetta er fyrsta atriðið sem ég vil heyra hæstv. ráðherra, málsvara ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar, upplýsa þingheim og þjóð um. Til hvaða ráðstafana verður gripið til að bæta efnahag fjölskyldnanna þannig að þær séu í stakk búnar að standa við þær skuldbindingar sem þær í góðri trú tókust á herðar við öflun húsnæðis áður en ráðist var á kjör þeirra úr Stjórnarráði Íslands?
    Í öðru lagi er ljóst að grípa þarf til sértækra aðgerða í húsnæðiskerfinu. Það þarf að sjá til þess að kerfið svari þörfum einstaklinganna, en einstaklingunum sé ekki þröngvað inn í mót sem engan veginn svara kröfum tímans, eru hreinlega ekki í samræmi við veruleikann, fjárhagslega getu fólks og iðulega einnig óskir. En í stað þess að hanna sífellt ný kerfi þarf að nálgast málin frá einstaklingnum og fjölskyldunni með húsnæðisbótum sem sniðnar eru að óskum fólks um húsnæðisform, tekjum þess og efnahag. Í þetta þarf að ganga á vel yfirvegaðan og ígrundaðan hátt. En þegar í stað þarf að grípa til sérstakra bjögunaraðgerða gagnvart því fólki sem er í bráðavanda.
    Lenging húsbréfalána ein og sér eins og rætt hefur verið um leysir engan stóran vanda. Reyndar orkar sú aðgerð nokkuð tvímælis því að hætt er við miklum afföllum og þar af leiðandi aukinni lánsfjárþörf, hærri afborgunum og þannig áfram þar til vítahringnum er lokað. Hins vegar tel ég að stórefld ráðgjafarþjónusta Húsnæðisstofnunar sem hefði heimildir til skuldbreytinga og lenginga lána eftir atvikum, aðgang að öflugum björgunarsjóði sem settur yrði á fót í samstarfi ríkis, sveitarfélaga og hugsanlega einnig annarra aðila, svo sem lífeyrissjóða, sem veitti lán með lágum vöxtum jafnframt því sem lög yrðu sett um sveigjanlegar húsnæðisbætur sem yrðu sveiflujafnandi. Einnig á þegar í stað að taka ákvörðun um að nýta heimild til að hækka lánshlutfall húsbréfa í 75%, slíkt væri fyrirbyggjandi aðgerð. Þá þarf þegar í stað að grípa til ráðstafana fyrir leigjendur.
    Sérstakur björgunarsjóður, kann einhver að spyrja, enn einn sjóðurinn? Svarið er einfalt. Við erum að tala um fjármuni sem fólk hefur verið svipt með gegndarlausri skerðingu ráðstöfunartekna á síðustu árum. Þessi kjaraskerðing hefur leitt til þess að fjöldi fólks er að missa heimili sín eða býr við mjög erfið skilyrði. Þeir sem hins vegar búa við sæmilegan kost eiga því miður oft erfitt með að skilja hlutskipti hinna sem misst hafa atvinnu sína eða orðið fyrir alvarlegri tekjuskerðingu og búa við þungan skuldaklafa. En hver skyldi vera skilningur hæstv. ríkisstjórnar og hvernig ætlar hún að bregðast við? Þessari spurningu vil ég nú beina til hæstv. félmrh.