Vandi húsbyggjenda og skuldastaða heimilanna

19. fundur
Laugardaginn 10. júní 1995, kl. 11:31:00 (626)


[11:31]
     Kristín Halldórsdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég býð hæstv. félmrh. velkominn til landsins, en verð að harma það að ekki skuli vera fleiri þingmenn viðstaddir þessa umræðu um svo mikilvægt mál. Það er aðeins einn þingflokkur mættur 100%. En ég þakka hv. 17. þm. Reykv. fyrir að hefja þessa umræðu sem ekki aðeins snýst um vanda heimilanna í landinu þótt ærinn sé, hann snýst ekki aðeins um vanda húsbyggjenda, húseigenda eða vanda skuldara heldur ekki síður um vanda þeirra kjósenda sem trúðu framsóknarmönnum í aðdraganda síðustu

kosninga. Og þeim er nú kannski vorkunn, þ.e. kjósendum, að þeir skyldu trúa framsóknarmönnum því að hér er ekki aldeilis um að ræða neina nýgræðinga í pólitík heldur vana menn í ráðuneytunum því að framsóknarmenn hafa eins og alþjóð veit haldið um stjórnartaumana hér meira og minna undanfarna áratugi þótt þeir sætu að vísu í stjórnarandstöðu síðasta kjörtímabil. En frá sjónarhóli kjósenda eiga slíkir menn að vita sínu viti. Þeir eiga að þekkja kerfið og kunna að lesa í tölur og þeir eiga að hafa vit á því hvaða úrræði eru möguleg. Og það vantaði ekki að þeir greindu vandann á öllum sviðum og byðu úrræði við hvers manns vanda í kosningabaráttunni og þar sem þetta eru vanir menn og þaulkunnugir í stjórnkerfinu þá var ekki að undra þótt margir tryðu loforðunum um öll úrræðin, um fólkið í fyrirrúmi, um öll störfin sem átti að skapa, um bjargráðasjóð heimilanna og hvað þetta hét nú allt saman.
    Nú eru framsóknarmenn ekki þeir einu sem buðu vel fyrir kosningar, en ég held að þeir hafi slegið alla út og fyrir það verða þeir að svara fyrr en síðar. Auðvitað er ekki hægt að efna öll loforð á fyrstu vikum í ráðherrastólunum en sum mál krefjast skjótari viðbragða en önnur. Og það eru húsnæðismálin og skuldastaða heimilanna sem við ræðum í dag, mál sem Framsfl. hefur mjög látið til sín taka og fyrir nokkrum mánuðum tók einn hv. þm. Framsfl., eins og hér hefur þegar verið minnt á, hv. 2. þm. Suðurl., upp þetta mál utan dagskrár og hafði þar á orði að þetta væri í fjórða sinn á tveimur árum sem Framsfl. hefði forgöngu um það að taka þetta mál upp á Alþingi utan dagskrár, þ.e. skuldastöðu heimilanna. Þar var ekki síst rætt um húsnæðislánakerfið sem orsök fyrir skuldaaukningu heimila í landinu. Í þeirri umræðu lögðu framsóknarmenn mikla áherslu á nauðsyn skjótra aðgerða og töluðu um skuldbreytingu aldarinnar sem yrði að fara fram. Þeir töluðu um ráðgjafar- og endurreisnarstöð heimilanna, þeir töluðu um nauðsyn lífskjarajöfnunar, þeir töluðu um hagfræði hellisbúanna sem væri að eyðileggja heimilin í landinu. Hér hefur þegar verið vitnað í ýmis þau orð sem ég undirstrikaði þegar ég renndi yfir þessa umræðu í gær um líf, heill og hamingju þúsunda heimila ungs fólks um allt land sem ylti á skjótum aðgerðum. Þetta sagði hv. þm. Guðni Ágústsson fyrir nokkrum mánuðum eða vikum og hann sagði ýmislegt fleira sem hv. síðasti ræðumaður m.a. vitnaði til um að málið þyldi enga bið. Hann sagði einnig, með leyfi hæstv. forseta: ,,Við þurfum bæði að keyra á háum ljósum og lágum.`` Svo mikið lá við.
    Nú hefur hv. 2. þm. Suðurl. ekki einu sinni svo mikið við að kveikja ljósin á bifreið sinni og koma til umræðu. Málið þolir greinilega meiri bið núna. Það er eins og það liggi ekki eins mikið á. ( ÓRG: Hann notar bara bremsuljósin.) Það eru lílega bremsuljósin sem eru bara í lagi á bifreið þingmannsins núna. Hvað er nú orðið um líf, heill og hamingju þúsunda heimila ungs fólks um allt land? Ég er viss um að ég mæli fyrir munn margra hv. þm., a.m.k. þeirra sem sýna þessari umræðu þann sóma að vera viðstaddir, þegar ég segi að við hefðum frekar viljað eyða drjúgum hluta tímans á þessu vorþingi, hæstv. ráðherra, í umfjöllun um þennan vanda en öll áfengismálafrumvörpin sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa lagt ofurkapp á þessa daga. Því miður óttast ég að með þeim lagabreytingum, sem allt útlit er fyrir að verði samþykktar, sé verið að kalla yfir okkur vaxandi vanda á þeim vettvangi og sá vandi snertir svo sannarlega heimilin í landinu og er nú lítt skiljanleg sú forgangsröðun ríkisstjórnarflokkanna að vilja rétta áfengisheildsölum tugi milljóna, en virðast ekki jafnuppteknir af vanda húsbyggjenda og húsnæðiskaupenda.
    Maður hefði getað haldið að framsóknarmenn teldu í raun nóg að gert til úrlausnar í þessum málum. Mér fannst ekki orð hæstv. félmrh. hér áðan sýna það að hann væri sama sinnis og framsóknarmenn voru fyrir kosningar um nauðsyn þess að taka strax á þessum málum, nauðsyn björgunaraðgerða fyrir fólkið í landinu.
    Nú er sá vandi sem heimilin eiga við að stríða vegna vaxandi skulda vitanlega ekkert einfaldur og á sér margar orsakir, en það er búið að kanna þessar orsakir. Það er búið að kanna þennan vanda mjög mikið og það veldur vonbrigðum þegar hæstv. ráðherra svarar því bara til að það séu nefndir að störfum. Þessar nefndir vinna sjálfsagt ágætt starf, en þetta er svo dæmigert fyrir þær lausnir sem gjarnan er gripið til. Það er settur starfshópur í málið. Eins og hv. síðasti ræðumaður taldi upp þá er búið að kanna þetta og kanna og það ætti að vera nóg kannað.
    Hæstv. ráðherra talaði um bráðamóttöku. Hann hefði væntanlega getað gert það strax ef hann var þess sinnis að það þyrfti skjótar aðgerðir. Hann taldi upp punkta úr stjórnarsáttmálanum og taldi það Framsfl. til tekna að hafa komið þessum punktum inn í hann. En það er ekki eins og framsóknarmenn hafi vitað hvað þeir voru að segja, á hverju þeir byggðu öll loforðin í kosningabaráttunni úr því að það þarf að setja nefndir og kanna málin.
    Það er fullur vilji til þess að grípa til aðgerða, sagði hæstv. ráðherra, og það þarf að hraða því eins og kostur er, sagði hann. En sér er nú hver hraðinn. Vorþingið hefur staðið miklu lengur en menn bjuggust við. Það hefði örugglega verið tími til að fjalla um þessi mál ef vilji hefði verið fyrir hendi. Það eru enn að koma fram frumvörp um vanda sauðfjárbænda t.d. Það var tími til að taka á því og við erum hvött til að taka á þeim vanda en ekki þessum. Þetta er mjög athyglisvert.
    Nú er sá vandi sem heimilin eiga við að stríða eins og ég sagði áðan, margvíslegur og flestir nefna vitanlega fyrst atvinnuleysið sem hefur dottið yfir okkur eins og óviðráðanleg pest og kollvarpað áætlunum einstaklinga og heimila. Og þetta var reyndar sá vandi sem hvað mest var ræddur fyrir kosningarnar og margir frambjóðendur sýndu vilja til þess að taka á og ekki síst framsóknarmenn. Og ég tek undir það. Mér er mjög minnisstætt þegar ég sótti ráðstefnu fyrir 12 árum, held ég að það hafi verið, og hlýddi þar á breskan þingmann ræða vanda ungs fólks og atvinnuleysis. Þá þekktum við varla þennan vanda á Íslandi, ekki fólk á mínum aldri. Þingmaðurinn sagði, og mér er það mjög minnisstætt, að atvinnuleysi fyrir ungt fólk væri hættulegt lýðræðinu. Og ég held að við getum tekið undir það og þennan vanda þurfum við að ræða frekar en vanda áfengisheildsalanna.
    Það þarf hins vegar ekkert að minna á að þeir sem verða fyrir atvinnumissi og tekjulækkun af þeim sökum hafa möguleika á skuldbreytingu og greiðslufrestun á húsnæðislánum og sá möguleiki hefur hjálpað mörgum og það ber að virða.
    Í öðru lagi er það svo láglaunastefnan sem heldur almennu launafólki í heljargreipum og veldur fjölda fólks geigvænlegum vanda. Við getum mörg okkar sagt sögur úr kosningabaráttunni af vinnustaðafundum og af öðrum tilefnum þar sem fólk tjáði sig um kjör sín því það voru launakjörin sem svo margir vildu ræða. Þið stjórnmálamenn eruð alltaf að tala um bætur, þið viljið leysa allt með bótum, vaxtabótum, barnabótum, sjúkrabótum og hvað þetta allt nú er, sagði við mig kona á einum vinnustaðnum suður með sjó. Ég vil engar fjandans bætur, sagði hún. Ég vil bara almennileg laun og þá þarf ég engar bætur. En auðvitað þarf öryggisnet. Það er blátt áfram ömurlegt hvað vinnukaupendur leyfa sér að greiða fyrir fulla dagvinnu, smánarlaun sem duga ekki fyrir nauðþurftum, hvað þá heldur einhverjum húsnæðisskuldum. Flestir í þessum hópi hafa hreinlega ekki efni á lánum til húsnæðiskaupa og það er þess vegna, hæstv. félmrh., sem þetta fólk kemur ekki til hæstv. ráðherra í viðtalstímum. Þeir hafa ekki efni á lánum til húsnæðiskaupa. Þeirra vanda hefur átt að leysa í félagslega kerfinu sem því miður hefur bilað og verður að endurskoða og endurskipuleggja og þróunin í því kerfi er mikið áhyggjuefni. Það getur aldrei hafa verið ætlunin að byggja svo dýrar íbúðir í því kerfi að fólki endist ekki ævin til að borga þær.
    Í því sambandi vil ég minna á vaxtabreytingarnar, þ.e. hækkun vaxta með tilliti til tekna og eignabreytinga, en einn vandinn í þessu kerfi er einmitt sá. Sá vandi er ekki leystur. Það er aðeins ef tekjurnar hækka og eignirnar verða meiri sem vaxtabreytingar eru heimilaðar, en ekki ef þær lækka. Fólk situr eftir í vandanum ef tekjurnar lækka á nýjan leik. Þetta þarf að skoða og Kvennalistinn lagði fram frv. um þetta efni á síðasta þingi sem ekki fékk afgreiðslu. Það er einnig mjög alvarlegt mál fyrir sveitarfélögin hvernig þetta kerfi er að fara með þeirra fjárhag. Þau eru skuldbundin til þess að leysa til sín þessar íbúðir og margir íbúðarkaupendur sjá mun betri kost í því að kaupa á almennum markaði en í félagslega kerfinu og þetta nær auðvitað engri átt.
    Hæstv. forseti. Ég held að ég hafi ekki miklu fleiri orð um þetta. Það er láglaunastefnan og launakerfið yfir höfuð sem er ein höfuðorsökin fyrir erfiðleikum almenns launafólks og fyrir því hróplega misrétti sem fer vaxandi, bilinu sem sífellt breikkar milli ríkra og fátækra. Efnahagsbatinn, sem margir prísuðu fyrir kosningar og þökkuðu góðri stjórnarstefnu, hefur ekki náð til heimilanna í landinu.
    Auðvitað má nefna margt fleira sem veldur vaxandi vanda almenns launafólks og heimilanna, aðgerðir stjórnvalda á undanförnum árum sem hafa þrengt fjárhagsstöðu fólks og hv. málshefjandi taldi einmitt upp hér þaðan, ásamt minnkandi atvinnu og minnkandi tekjur, lækkun vaxtabóta og aukin þjónustugjöld. Það þarf að líta á þetta allt saman í heild sinni, en númer eitt er launastefnan. Ég minni á fjölmargar tillögur Kvennalistans í þeim efnum, nú síðast tillögu um afnám launamisréttis kynjanna, en það byggist að töluverðum hluta á hækkun lægstu launa og félagslegum lausnum sem bæta stöðu almenns launafólks.
    Ég vil aðeins að lokum vitna enn einu sinni í ræðu hv. 2. þm. Suðurl. sem hafði áhyggjur af vanda heimilanna fyrir nokkrum vikum, en virðist ekki jafnáhyggjufullur nú. Hann sagði þá, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Það er auðvitað hrikalegt að menn skuli sitja aðgerðalausir þegar skuldir heimilanna hækka í hverjum einasta mánuði um 1 milljarð.``