Vandi húsbyggjenda og skuldastaða heimilanna

19. fundur
Laugardaginn 10. júní 1995, kl. 12:00:11 (628)


[12:00]
     Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) :
    Herra forseti. Ég held að það sé til of mikils ætlast hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, jafnvel þó að hæstv. félmrh. sé kraftaverkamaður, að á þeim sex vikum sem ríkisstjórnin hefur starfað sé búið að leysa þau hrikalegu vandamál sem hæstv. fyrrv. félmrh., Jóhanna Sigurðardóttir, skapaði í ráðherratíð sinni sem félmrh. Ástæður þessara erfiðleika sem húsbyggjendur og skuldarar heimilanna í landinu standa núna frammi fyrir hef ég margoft farið yfir í þessum ræðustól og þær eru óbreyttar í mínum huga. Vaxtahækkun í tíð fyrrv. félmrh. um 140%, stytting lánstíma í tíð fyrrv. félmrh., Jóhönnu Sigurðardóttur, lækkun vaxtabóta, lækkun barnabóta og hækkun skatta sem allt gerðist í tíð fyrrv. félmrh., núv. formanns Þjóðvaka, hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Þessar ástæður eru allar klárar, þær þarf ekki að rannsaka, þær liggja fyrir og er viðurkennt af flestum hvernig til eru komnar. Vandamálin eru mikil sem þarf að takast á við og þau eru tvíþætt, þetta eru tveir hópar: Annars vegar sá hópur sem er í langvarandi og viðvarandi

greiðsluerfiðleikum sem í raun hefur misst stjórn á fjármálum sínum. Gagnvart þessum hópi á að taka á með greiðsluaðlöguninni.
    Hinn hópurinn er fólk sem leggur allan sinn metnað í að standa í skilum, leggur allt undir, er með sínar skuldir að mestu leyti í skilum en getur ekkert veitt sér. Gagnvart þessu fólki á að grípa til lánalenginga og það er það sem hæstv. félmrh. lýsti hér áðan að hann hefði sett af stað öflugt starf til þess að vinna að lausn þessara mála. ( JóhS: Eftir hverju er hann að bíða?) Hæstv. félmrh. er ekki að bíða eftir neinu. Hann hefur sett af stað öflugt starf. Það er breytingin frá því sem áður var. Nú er tími aðgerðanna runninn upp því að hæstv. félmrh. hefur sett þetta starf í gang og það er breyting frá því sem áður var, þegar fyrrv. félmrh. Alþfl. sögðu: Nei, vandamálið er ekkert, við ætlum ekkert að gera. Þetta er breytingin, tími aðgerðanna, hæstv. fyrrv. félmrh., er runninn upp. ( ÓRG: Eigum við þá ekki að samþykkja frv. sem þú lagðir fram á síðasta þingi? Það er sjálfsagt að gera það. Það er þingmeirihluti fyrir því.)