Lánasjóður íslenskra námsmanna

19. fundur
Laugardaginn 10. júní 1995, kl. 13:29:24 (648)


[13:29]
     Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) :
    Virðulegi forseti. Það er og hefur verið undanfarin fjögur ár sameiginlegt áhyggjuefni þess sem hér stendur og hv. þm. Svavars Gestssonar þau vandamál sem hafa steðjað að námsmönnum vegna þeirra breytinga sem gerðar voru á lögunum um Lánasjóð ísl. námsmanna í maí 1992. Einhvern veginn fannst mér á ræðu hv. þm. fyrr við umræðu, í fyrradag ef ég man rétt, að leiðir okkar væru kannski örlítið að skilja í þeim efnum, vegna þess að það frv. sem hv. þm. flytur hér ásamt fleirum hv. alþýðubandalagsþingmönnum, a.m.k. markaði ég það svo af ræðu hv. þm. þegar hann mælti fyrir málinu að málið væri ekki flutt fyrir námsmenn heldur fyrst og fremst fyrir okkur framsóknarmenn. Það er hins vegar svo að við framsóknarmenn höfum miklu meiri áhyggjur af námsmönnum hvað þetta snertir en framsóknarmönnum í þessu efni. Mér fannst málið fyrst og fremst þurfa að koma hér fyrir vegna þess að það þarf að koma til móts við

námsmenn sem eiga að búa við þessi lög.
    Í stjórnarsáttmálanum stendur á bls. 5: ,,Lög og reglur um Lánasjóð ísl. námsmanna verða endurskoðuð.`` Það er ljóst að það mun verða gert. Hæstv. menntmrh. hefur tekið málið upp í ríkisstjórn og kynnt þá vinnu sem hann er nú þegar kominn með af stað. Hann lýsti því úr þessum ræðustól við 1. umr. málsins og það mun koma í ljós hvernig að þessu verður staðið, menntmrh. er að undirbúa það. Ég held að við verðum að bíða örlítið við og sjá hvað út úr þeirri vinnu muni koma. Staðreyndin er hins vegar sú að það er margt annað sem þarf að gera í endurskoðun laganna um Lánasjóð ísl. námsmanna en bara að horfa til samtímagreiðslnanna. Það þarf að líta á þetta heildstætt enda stendur í stjórnarsáttmálanum ,,lög og reglur``. Þá eiga menn auðvitað við að úthlutunarreglur og reglugerðin um lánasjóðinn verða tekin til endurskoðunar.
    Það er svo hins vegar alveg hárrétt hjá hv. þm. að um þetta mál myndaðist mjög víðtæk samstaða í kosningabaráttunni. Ég held að menn geti ekki gert upp á milli flokka í þeim efnum, hverjir stóðu sig best í því að berjast fyrir hag námsmanna. Ég held að menn hafi verið nokkuð jafnfætis í þeim efnum. Það eru fyrirheit í stjórnarsáttmálanum um þessa endurskoðun og ég treysti á og veit að slík endurskoðun mun fara af stað að tilstuðlan menntmrh., málið er á hans verksviði. Á þessari stundu tel ég eðlilegt að menn doki örlítið við og sjái hvað út úr því muni koma.
    Hitt er svo annað mál að það er mjög mikilvægt, og það held ég að hv. 8. þm. Reykv., ásamt hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni 8. þm. Reykn., ætti að vera fullljóst, að standa við kosningaloforð og það gildir jafnt um framsóknarmenn sem aðra í þeim efnum. Þess vegna vil ég nota þetta tækifæri og fara örlítið aftur í tímann vegna þess að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson flutti gagnmerka ræðu fyrr við þessa umræðu þegar hann fór yfir það hversu mikil hætta væri á að kjósendur væru blekktir í kosningabaráttu og væru hugsanlega að kaupa svikna vöru þegar þeir væru að merkja við ákveðna bókstafi í kjörklefanum á kjördag. ( SvG: Hann vildi meina að þið væruð svikin vara.) Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson lét að því liggja, það er rétt hjá hv. þm. Svarvari Gestssyni, en hefði kannski verið nær áður en hann hóf ræðu sína að líta sér örlítið nær í þeim efnum.
    Fyrir kosningarnar 1987 gaf Alþb. út gagnmerkt blað sem heitir Verkefni næstu ára. Það er gaman að líta í þetta af því að Alþb. fór nú í ríkisstjórn eftir að þessi verkefnaskrá var gefin út. Tími minn leyfir ekki mjög nákvæma yfirferð yfir þetta plagg en hér eru nokkur atriði sem mér finnst rétt að staldra við og líta á hvernig Alþb. stóð við sín kosningaloforð þegar það kom inn í ríkisstjórnina 1988 og enginn var nú þá betur í stakk búinn en hæstv. þáv. fjmrh., núv. hv. 8 þm. Reykn. Ólafur Ragnar Grímsson, til þess einmitt að takast á við þessi verkefni á þeim tíma.
    Hér stendur á 1. síðu hins gagnmerka rits þar sem átti að færa góðærið til fólksins: 35--45 þús. kr. lágmarkslaun``. Ef menn líta til þessa og bera saman, við skulum segja að atvinnuleysisbæturnar væru þau lágmarkslaun sem menn vildu staldra við og segja: Það er þetta sem við viljum tryggja. Þá gerðist það að í september 1988 þegar Ólafur Ragnar Grímsson tók við þá voru atvinnuleysisbætur 31.058 kr. á föstu verðlagi þess árs en þegar hann hætti í apríl 1991 í fjmrn. þá voru þær komnar niður í 28.037 kr. eða um 10% lækkun á atvinnuleysisbótunum sem áttu að vera lágmarkslaunin sem hv. þm. lofaði í kosningabaráttunni 1987 og hafði enginn aðrar eins aðstæður til að berjast fyrir sínum málum og hv. þm. sem þá var sitjandi í fjmrn.
    Skattleysismörk, tekjuskattsleysi upp í 50.000 kr. mánaðarlaun var eitt af því sem lofað var, léttum skattbyrði launafólksins, var kosningaloforð Alþb. í þessari kosningabaráttu. Í júlí 1994 höfðu skattleysismörkin, sem þá áttu að vera, lækkað úr 70.281 kr. niður í á föstu verðlagi 44.182 kr. Sennilega hafa skattleysismörkin hvergi og aldrei nokkurn tímann eftir að staðgreiðsla skatta var tekin upp lækkað eins í tíð nokkurs fjmrh. og hæstv. þáv. fjmrh. Ólafs Ragnars Grímssonar. Svona gæti ég í fleiri atriðum farið yfir sviðið og spurt hvað er um þessar efndir. Hvar eru húsnæðisbæturnar til leigjenda, sem hv. þm. Alþb. lofuðu að yrði staðið við ef þeir kæmust til valda? Hvar er styttri vinnutími eins og lofað er líka í þessu ágæta plaggi sem Alþb. gaf út fyrir þessar kosningar?
    Þetta vil ég nefna hér vegna þess að ekki eru nema um sex vikur liðnar frá því núv. ríkisstjórn kom til valda og Alþb. finnst vera tækifæri til á þessu stutta þingi að rifja upp þau atriði úr kosningabaráttunni sem framsóknarmenn lofuðu. Ég dreg ekki dul á að það var margt sem Framsfl. lofaði í þessari kosningabaráttu og það var margt sem Framsfl. lofaði að beita sér fyrir og það er líka margt sem Framsfl. ætlar að beita sér fyrir að verði gert í þessari ríkisstjórn og auðvitað að reyna að uppfylla öll þau kosningaloforð sem flokkurinn gaf í kosningabaráttunni. Þess vegna finnst mér það vera ósanngjarnt við þessar aðstæður þegar ekki eru nema sex vikur liðnar og þing hefur starfað í tæpar fjórar vikur að ætlast til þess, eins og ég skil hv. 8. þm. Reykv., að búið sé að uppfylla öll þau kosningaloforð sem gefin voru í kosningabaráttunni. ( SvG: Ekki öll, heldur eitt.) ( ÖJ: En brennivínið?) Hv. þm. Ögmundur Jónasson, það voru engin fyrirheit af hálfu framsóknarmanna í þessari kosningabaráttu gefin um að að það ætti að koma í veg fyrir að þessar breytingar yrðu gerðar. Ég átti einn ágætan fund með þáv. og núv. formanni BSRB ásamt starfsmönnum ÁTVR í húsakynnum BSRB þar sem ég sagði við það ágæta fólk sem þar var: Það er alveg klárt að það frv. um það sem menn kölluðu einkavæðingu ÁTVR færi ekki í gegnum það þing sem þá var starfandi. Við myndum berjast gegn því að það gæti farið þar fram. Það eru þau loforð sem þeir hv. þm. Framsfl. hafa gefið í þessari kosningabaráttu.

    En það er auðvitað rétt að rifja þetta upp núna og alþýðubandalagsmenn, jafnvel þó þeir séu óháðir, ættu að hafa þessa verkefnaskrá næstu ára í huga þegar þeir fara að tala um hvernig við kosningaloforð hafi verið staðið á undangengnum árum og hvaða vara það er sem hefur verið í boði fyrir kjósendur eins og hv. 8. þm. Reykn. lagði mjög mikla áherslu á í sínu máli fyrr við umræðuna.