Lánasjóður íslenskra námsmanna

19. fundur
Laugardaginn 10. júní 1995, kl. 13:47:46 (654)


[13:47]
     Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson vitnaði í þennan ágæta fund sem ég átti sem formaður þingflokks framsóknarmanna með starfsfólki ÁTVR þar sem gengið var eftir því að vita hvort þessi frumvörp, sem þá lágu fyrir þinginu, m.a. átti ég þá sæti í hv. efh.- og viðskn. sem var með málið til umfjöllunar, færu í gegnum þingið á þeim tíma sem til stefnu var. Ég tjáði þessu fólki að ég teldi að svo væri ekki enda gerðist það ekki. Málið fór ekki í gegnum þingið. Ég lýsti því yfir að það væri andstaða í þingflokki framsóknarmanna við þetta mál eins og það lá fyrir og tilgreindi þar einn ákveðinn þingmann sem hafði við þá umræðu sem hér átti sér stað lýst sinni afstöðu til málsins. Nú er þessi hv. þm. ekki lengur á Alþingi. ( Gripið fram í: Ertu feginn?) Ég ætla ekkert mat að leggja á það. Hv. fyrrv. þm. Jón Helgason er hinn mætasti maður. Ég sakna þess að mörgu leyti að hann skuli ekki lengur vera í þingflokknum. (Gripið fram í.) Það sæti er hins vegar ágætlega setið, hv. 8. þm. Reykv.
    Staðan er hins vegar þessi: Þetta frv. er komið til 2. umr. og ef hv. þm. Ögmundur Jónasson færi í gegnum umræðuna sem átti sér stað í þinginu þegar þetta frv. var lagt fram af Sjálfstfl. og Alþfl. þá finnur hann ekki við þá umræðu eitt einasta orð um þetta mál frá framsóknarmanni öðrum en þáv. þm. Jóni Helgasyni.