Fyrirvari í nefndaráliti

20. fundur
Mánudaginn 12. júní 1995, kl. 15:04:55 (661)



[15:04]
     Sighvatur Björgvinsson :
    Virðulegi forseti. Það er krafa okkar þingmanna að þau þingskjöl sem lögð eru fyrir á Alþingi séu rétt og þau tjái afstöðu nefndarmanna sem um mál hafa fjallað. Núna þegar lokið er 2. umr. um þetta mál kemur fram að einum af nefndarmönnum í sjútvn., sem er framsóknarþingmaður og stjórnarþingmaður, hefur láðst það af tæknilegum mistökum að láta koma fram að hann hafi fyrirvara í því nefndaráliti sem hann skrifar undir. Ég spyr, virðulegi forseti: Eru þetta tæknileg mistök starfsmanna þingsins? Hafa starfsmenn þingsins gert þau mistök að láta dreifa hér þingskjali sem er ekki rétt? Ég bendi líka á það, hæstv. forseti, að þetta gerir okkur öðrum þingmönnum ómögulegt fyrir að spyrjast fyrir um fyrirvara hv. þm. í 2. umr. áður en til atkvæðagreiðslu er gengið.
    Ég hef setið á Alþingi í 20 ár og ég man aldrei eftir því að svona hafi gerst. Ég spyr hv. þm.: Er hann að ásaka starfsmenn Alþingis fyrir að hafa gert þau tæknilegu mistök að fyrirvari hans kom ekki fram á þingskjalinu eða er hann að viðurkenna þau tæknilegu mistök sjálfs sín að hann vill ekki að fyrirvari sinn komi fram fyrr heldur en hann gerir og með öðrum hætti heldur en hann gerir nú? Það er með ólíkindum, virðulegi forseti, hvernig hv. þm. stjórnarinnar hafa staðið að þessum málum. Þetta er eitt dæmið þar um.