Fyrirvari í nefndaráliti

20. fundur
Mánudaginn 12. júní 1995, kl. 15:08:52 (665)

[15:08]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Ég er eingöngu að ræða um störf þingsins vegna þess að það er lykilatriði í störfum þingsins hvernig gengið er frá þingskjölum og hvaða boðskap þau flytja.
    Nú hefur hæstv. forseti þingsins upplýst það hér að honum sé ekki kunnugt um það að starfsmönnum þingsins hafi orðið á nein tæknileg mistök. Þar með liggur það fyrir að hv. þm. Hjálmar Árnason hefur hvergi á vettvangi þingsins tilkynnt það að hann sé með fyrirvara við nefndarálit á þskj. 56. Einhverjir almennir fyrirvarar í málinu eru aukaatriði í þessum efnum. Þeir eru jafnmikið aukaatriði og fyrirsögnin hér á baksíðu sjómannadagsblaðs framsóknarmanna á Suðurnesjum: ,,Hjálmar stoppaði kvótafrumvarpið.`` Þetta er boðskapurinn sem framsóknarblaðið á Suðurnesjum flutti í gær, á sjómannadaginn.
    Það sem skiptir máli hér í þinginu er hvað stendur á þingskjölum og hvað menn gera í atkvæðagreiðslum. Þess vegna segi ég við hv. þm.: Ef hann er að segja það hér í þingsalnum að hann hafi verið með formlegan fyrirvara við þetta nefndarálit og það sé hans afstaða, þá ber að prenta þingskjalið upp þannig að sá vilji þingmannsins komi skýrt fram með formlegum hætti. Sá er munurinn á því sem gerist hér í þingsalnum og blaðaútgáfu framsóknarmanna á Suðurnesjum eða því sem sagt er í kosningabaráttu, að rétt skal vera rétt, hv. þm., og þess vegna er það lykilatriði að þingmaðurinn svari því hér: Var hann með formlegan fyrirvara við þskj. 56, já eða nei? Ef svarið er já, þá ber að prenta þingskjalið upp áður en atkvæðagreiðslan getur farið hér fram. Ef svarið er nei, þá er það bara marklaus áróður eins og annað sem hv. þm. hefur sagt í þessu máli. En nú er komið að stundinni, hv. þm., þar sem orðin hafa vægi, þar sem ákvarðanirnar hafa ákveðna merkingu.