Fyrirvari í nefndaráliti

20. fundur
Mánudaginn 12. júní 1995, kl. 15:11:34 (667)


[15:11]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Mér þykir hart róið hér á Alþingi í dag og hart sótt af hálfu ýmissa stjórnarandstæðinga að mönnum sem hafa staðið við sín orð og náð árangri í sínum störfum hvað það mál sem hér er rætt varðar. Hins vegar vil ég upplýsa það að ég var á fundi með smábátaeigendum á laugardaginn þar sem þeir tjáðu mér það að enginn af stjórnarliðum hefði skrifað undir nefndarálitið með fyrirvara. Ég undraðist það dálítið, ekki síður af því að einn þeirra hafði boðað brtt. sem ekki er venja, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson. Svo þegar ég kom á þingflokksfund í dag, þá kom þar umræddur hv. þm. Hjálmar Árnason þannig að ég spurði hann hvort það gæti verið að hann hefði engan fyrirvara við málið. Þá kom hann af fjöllum hvað það varðaði og taldi sig hafa fyrirvara.
    Eitt sinn voru menn byrjendur hér á Alþingi og þeir eru hér í okkar hópi enn og kunna ekki öll þau störf. Ég hygg að báðir þessir tveir menn hafi enn viljað hafa einhvern fyrirvara og því er það hárrétt hjá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni að þingskjalinu ber að breyta til samræmis við það. Undir það tek ég. En við þessar mannaveiðar kann ég ekki á þessari stundu. Mér þykja þær ódrengilegar og enn þá ódrengilegri, hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, þegar ég hugsa til þess að þetta frv. er nú öðruvísi útlits en það var í upphafi. Hverjum ber að þakka það? Ekki hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni.