Stjórn fiskveiða

20. fundur
Mánudaginn 12. júní 1995, kl. 15:26:18 (675)


[15:26]
     Siv Friðleifsdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég sé einnig ástæðu til þess að gera grein fyrir atkvæði mínu hér. Það er alveg ljóst að við framsóknarmenn höfum haft veruleg áhrif á þróun þessa máls hér í þinginu. Það er fyrir okkar áhrif að það eru ekki allir settir undir þorskaflahámark. Menn geta þó valið. Valið stendur hins vegar á milli tveggja frekar slæmra kosta að margra mati. Það er ljóst að besta lausnin er róðrardagakerfi.
    Ég samþykki frv. núna í trausti þess að á milli 2. og 3. umr. verði m.a. reynt að tryggja nægjanlegt fé til að setja upp eftirlitskerfi sem þarf vegna róðrardagakerfis. Einnig tel ég afar brýnt að þeir sem kjósa nú samkvæmt þessum nýju lögum að velja þorskaflahámark eigi afturkvæmt úr því strax og róðrardagakerfið er komið í gagnið. Ég samþykki þetta frv. í þeirri von að á þessu verði tekið fyrir 3. umr. og áskil mér allan rétt á fyrirvara við lokaafgreiðslu málsins.