Stjórn fiskveiða

20. fundur
Mánudaginn 12. júní 1995, kl. 15:38:56 (684)


[15:38]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Efnistriði þeirrar brtt. sem hér er verið að greiða atkvæði um eru þau sem hv. þm. Hjálmar Árnason sagðist styðja hér áðan. Þetta eru jafnframt þau efnisatriði sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hefur lýst stuðningi yfir að hann vilji festa í lög. Þetta eru þau efnisatriði sem fjölmargir þingmenn stjórnarliðsins hér í salnum hafa sagst vilja styðja og var upplýst hér áðan, áður en atkvæðagreiðsla hófst, að fyrirvari hv. þm. Hjálmars Árnasonar snerist um þetta atriði. Þetta væri það sem hann vildi.
    Ég fagna því í sjálfu sér að þingmenn Framsfl. hafa lýst því yfir í dag að þeir vilji breyta frv. eins og það mun líta út ef stjórnarliðar ná sínu fram hér í atkvæðagreiðslunni við 2. umr. Það eru auðvitað töluverð tíðindi að slíkur flótti skuli vera kominn í stjórnarliðið og er það nokkur árangur aðgerðanna sem hafa verið hér í dag, að knýja fram þann flótta. Það mun þá koma í ljós við 3. umr. En þessi efnisatriði eru hins vegar þess eðlis að opna í lögunum á þá framkvæmd sem beðið var um fyrir utan þinghúsið í dag. Ég segi því já.