Stjórn fiskveiða

20. fundur
Mánudaginn 12. júní 1995, kl. 15:41:55 (687)


[15:41]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Hér kemur til atkvæða tillaga okkar um róðrardagakerfi sem felur í sér 100 róðrardaga samkvæmt frjálsu vali innan hvers fiskveiðiárs og taki sá dagafjöldi mið af 150 þúsund tonna heildarafla af þorski. Í síðustu málsgrein er ráðherra falið að semja um eftirlit við hafnarverði, löggilta vigtarmenn eða aðra aðila í sveitarfélögunum eða leysa eftirlitsþátt málsins með öðrum hætti þangað til hið margþráða, sjálfvirka gervihnattaeftirlit getur tekið við. Hér er sem sagt til atkvæða það róðrardagakerfi sem menn hafa unnvörpum lýst sig sammála um og vilja taka upp og þar með fjölmargir stjórnarþingmenn. Þannig að það er auðvitað söguleg upplifun að hlusta svo á þau nei sem hér hafa komið fram og vandræðalegan kattarþvott manna gagnvart því að þeir vilji í raun og veru sjá þetta kerfi verða að veruleika og sem fyrst og helst milli 2. og 3. umr. Þá hefðu menn átt að hugsa sig betur um áður en þeir greiða atkvæði með þessum hætti.
    Til að undirstrika það, herra forseti, hér er verið að greiða atkvæði um róðrardagakerfið, já eða nei. Ég segi já.