Stjórn fiskveiða

20. fundur
Mánudaginn 12. júní 1995, kl. 15:44:20 (688)


[15:44]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil gera grein fyrir atkvæði mínu með þeim hætti að frv., ef að lögum verður, þá boðar það nú þá stefnu sem í þessari grein felst hjá minni hlutanum. Því er ég þeirrar skoðunar að á milli 2. og 3. umr. eigi hv. sjútvn. og ég vil segja hæstv. ríkisstjórn, að kanna það virkilega vel með hvaða hraða sé hægt að taka upp róðrardagakerfi. Hvað kostar gervitunglakerfið? Á hvaða tíma er hægt að koma því í gagnið hér og þá fyrir allan flotann og hvernig má að því standa? Þetta held ég að sé mjög mikilvægt að fá fram sem fyrst því að þá liggur það fyrir, hæstv. forseti, að banndagakerfið heyrir fortíðinni til og róðrardagakerfið hefur tekið við. Ég trúi því að það sé innan seilingar og því sé hægt að koma á ég vil segja um næstu áramót. ( Gripið fram í: Segðu þá já.) En því miður þá vil ég ekki gera neitt út í loftið eins og stjórnarandstöðunni er tamt og segi nei við þessa atkvæðagreiðslu.