Stjórn fiskveiða

20. fundur
Mánudaginn 12. júní 1995, kl. 15:56:31 (694)


[15:56]
     Össur Skarphéðinsson :
    Herra forseti. Ég trúði ríkisstjórninni þegar hún samþykkti verkefnaskrá hæstv. forsrh. þar sem sagði að við stjórn veiða kvótaflotans ætti að leita annarra leiða en fjölga banndögum. Ég trúði líka hv. þm. Sjálfstfl. á Vestfjörðum og Framsfl. á Suðurnesjum þegar þeir gáfu yfirlýsingar sem eru í allt aðra veru en kemur fram í því sem þeir eru að samþykkja í dag.
    Herra forseti. Það sem hér er verið að samþykkja mun leiða til þess að stoðum verður kippt undan fjölmörgum byggðarlögum. Það er líklegt að 400--500 trillusjómenn tapi atvinnu sinni. Þessi grein mun líka leiða til aukinnar slysahættu. Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar að samþykkt þessarar greinar marki upphaf þess að krókaveiðar leggist af í núverandi mynd. Þess vegna segi ég nei, nei og aftur nei. --- [Lófatak á þingpöllum.]