Stjórn fiskveiða

20. fundur
Mánudaginn 12. júní 1995, kl. 15:59:26 (697)

[15:59]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Það er laukrétt sem einn þingmaður sagði hér áðan að við stöndum frammi fyrir neyðarkostum, Íslendingar, þegar við verðum að takmarka sókn í fiskstofnana og það er ekki einungis þorskstofninn sem er orðinn tæpur og við höfum áhyggjur af eins og nú standa sakir. Ég get talað um grálúðuna, ég get talað um karfann og það vita þeir ágætu sjómenn sem hér eru uppi á pöllunum.
    Við höfum líka áhyggjur af því sem erum í þingsal, sumir hverjir a.m.k., að mjög harkalega hefur verið gengið að þeim trillusjómönnum sem ekki völdu króka heldur eru á aflamarki. Við getum rétt hugsað okkur hvaða möguleika þeir hafi sumir hverjir miðað við þá fiskreynslu sem þeir höfðu og miðað við hvernig þeirra aflaheimildir hafa dregist saman. Hér er verið að reyna að finna viðunandi lausn. Hún byggir á samkomulagi sem gert var í þingsölum og ég vil minna á það að gefnu tilefni að allir gömlu flokkarnir hér á Alþingi og líka flokkur hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur hafa staðið alla stjórnun á þessum grundvelli sem við erum hér um að ræða. Ég segi já.