Stjórn fiskveiða

20. fundur
Mánudaginn 12. júní 1995, kl. 16:07:36 (701)


[16:07]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Í þessari tillögu felst viðurkenning á þeim mikla vanda sem bátar á aflamarki hafa tekið á sig á undanförnum árum með stórauknum samdrætti í þorskveiðiheimildum og það er fagnaðarefni, þó í litlu sé, að nú á loksins að koma til móts við þennan hluta flotans. Við þingmenn Alþb. höfum undanfarin ár ítrekað flutt tillögur til úrbóta í þessum efnum sambærilegar við þá sem hér er á ferðinni nema hvað við hefðum viljað ganga lengra. Á síðasta þingi fluttum við sambærilega tillögu sem gerði ráð fyrir tvöfalt meira magni til úthlutunar sérstaklega til að jafna upp skerðingu þess hluta flotans og einkum bátaflotans sem mestan samdrátt hefði tekið á sig í veiðiheimildum. En þó að við hefðum viljað ganga lengra og deila megi um hvaða aðferð ætti að hafa við að úthluta þessu tiltekna magni þá styðjum við þessa tillögu þar sem hún er skref í rétta átt.