Alþjóðaviðskiptastofnunin

20. fundur
Mánudaginn 12. júní 1995, kl. 16:51:58 (708)

[16:51]
     Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Sólveig Pétursdóttir) :
    Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 69 og brtt. meiri hluta efh.- og viðskn. við frv. til laga um breytingar á lögum vegna aðildar Íslands að Alþjóðaviðskiptastofnuninni. Í frv. eru lagðar til breytingar á tollalögum, búvörulögum, lögum um varnir gegn dýrasjúkdómum, lögum um varnir gegn sjúkdómum og meindýrum í plöntum og öðrum lögum sem varða innflutning og eru nauðsynlegar í framhaldi af staðfestingu Íslands á samningnum um Alþjóðaviðskiptastofnunina sem gerð var með þál. á 118. löggjafarþingi. Með lögfestingu frv. komast í framkvæmd þær breytingar á innflutningsmálum sem um var samið í Úrúgvæ-viðræðunum og með þeim verður leitast við að uppfylla þær skuldbindingar sem Ísland tók á sig við staðfestingu samningsins.
    Mikilvægustu breytingar frumvarpsins snerta skilyrði til innflutnings á landbúnaðarafurðum sem ekki verður framar stjórnað með bönnum og höftum. Í staðinn verða teknir upp tollar og er meginviðfangsefni frumvarpsins að ákveða þá með þeim hætti að uppfylltar verði skuldbindingar samningsins og tilgangi hans fylgt fram en samtímis gætt hagsmuna innlendra framleiðenda matvöru. Þó að leiða megi rök að því að þegar til lengri tíma er litið falli hagsmunir neytenda og framleiðenda hér á landi að þeirri stefnu sem samningurinn mótar er það fullljóst að langan aðlögunartíma þarf til bæði hér á landi og í alþjóðlegum viðskiptum með landbúnaðarvörur áður en frjáls og eðlileg markaðsviðskipti verða meginreglan í viðskiptum milli landa með þessar vörur.
    Heyrst hefur að mörgum þyki þær breytingar á tollalögum í sambandi við skilyrði til innflutnings á landbúnaðarvörum, sem fjallað er um í I. kafla frv., nokkuð flóknar. Því tel ég rétt, herra forseti, áður en lengra er haldið, að gera aðeins nánari grein fyrir efnisatriðum og helstu hugtökum sem þar er byggt á.
    Samkvæmt GATT-samningnum þarf að breyta öllum innflutningstakmörkunum og innflutningsgjöldum í tolla. Því er í viðauka I með frv. lögð til breyting á tollskrá þar sem almennir tollar á þeim vörum sem heyra undir samninginn eru tilgreindir. Í viðaukum II--IV eru síðan sérreglur um tolla sem byggjast á samningnum. Veigamikill hluti GATT-samningsins eru skuldbindingar samningsaðila um hámark þeirra tolla sem þeir mega leggja á innflutning, svokallaðar tollabindingar. Þessir hámarkstollar á landbúnaðarvörum og vörum framleiddum úr landbúnaðarafurðum eru tilgreindir í viðauka IIA. Aðildarríkin hafa síðan skuldbundið sig til að tryggja ákveðinn lágmarksaðgang að mörkuðum sínum af þeim landbúnaðarvörum sem enginn eða óverulegur innflutningur var á á viðmiðunartímabilinu 1986--1988 og þá á lægri tollvöxtum en tollabindingar heimila.

    Þessi lágmarksaðgangur, sem er tilgreindur í svokölluðum tollkvótum, er miðaður við 3--5% af meðalinnanlandsneyslu áranna 1986--1988 og úthlutar landbrh. tollkvótunum til umsækjenda samkvæmt nánari reglum sem fram koma í 19. gr. frv. Þessir lágmarkstollkvótar eru tilgreindir í viðauka IIIA með frv. Gert er ráð fyrir að þær landbúnaðarvörur sem landbrh. er skylt að úthluta tollkvótum fyrir, samkvæmt viðauka IIIA, þ.e. kjöt, egg, smjör, ostur og kartöflur, munu bera toll sem samsvarar tæpum þriðjungi af þeim grunntaxta sem er upp gefinn í viðauka IIA.
    Í viðauka IIIB eru tilgreindir tollkvótar á þær vörur sem fluttar voru inn í meira magni en 5% á framangreindu viðmiðunartímabili, en hafa verið háðar magntakmörkunum, svokallaður ríkjandi markaðsaðgangur. Hér er fyrst og fremst um að ræða blóm og grænmeti. Tollar á vörur samkvæmt þessum tollkvótum mega ekki vera hærri en þeir voru á árunum 1986--1988, en í frv. er gert ráð fyrir að þeir verði mest 30% í stað 40% sem heimild hafði verið til
    Þá gerir frv. ráð fyrir að landbrh. sé heimilt að úthluta viðkvótartollkvótum á kjöti, mjólk, smjöri, osti og eggjum annars vegar, sbr. viðauka IVA og á blómum og grænmeti hins vegar, sbr. viðauka IVB. Tollur á þessum kvótum getur verið breytilegur eftir ákvörðun landbrh., allt niður í helming venjulegra tolla á vörur í viðauka IVA og niður í engan toll á vörur í viðauka IVB.
    Nefndin fékk fjölmarga aðila á fund við umfjöllun um frv. sem taldir eru upp í nál. Þá fékk hún einnig sendar ítarlegar umsagnir frá landbn., sem þríklofnaði í afstöðu sinni til málsins og eru þær allar birtar sem fskj. með álitinu.
    Mun ég nú gera grein fyrir þeim brtt. sem meiri hluti nefndarinnar leggur til að gerðar verði á frv., sbr. þskj. 70.
    Aðalbreyting sem meiri hluti nefndarinnar leggur til felst í tvennu: Í fyrsta lagi er lagt til að inn í þá grein frv. sem fjallar um tollkvóta verði bætt nýjum valkosti fyrir landbrh. þegar hann ákveður hvaða tollar skuli lagðir á þær vörur sem tilgreindar eru í viðauka IVA, þ.e. hina svokölluðu viðbótartollkvóta sem heimilt er að leyfa innflutning á. Í frv. er gert ráð fyrir tveimur valkostum, þ.e. að annaðhvort skuli þessir tollar vera 75% af þeim magntolli sem lagður er á hluteigandi vörulið eins og hann er tilgreindur í tollskrá eða að miða við þann toll sem gildir fyrir svokallaðan lágmarksaðgang. Meiri hluti nefndarinnar leggur til að ef ráðherra kýs að miða við magntollinn geti hann valið milli þess hvort um er að ræða 50% eða 75% af honum í hverju tilviki. Með þessari breytingu er verið að koma til móts við þá gagnrýni sem fram hefur komið, m.a. frá Neytendasamtökunum, þess efnis að þrátt fyrir lágmarksmarkaðsheimildina séu litlar líkur á því að um innflutning verði að ræða þar sem tollar á þennan innflutning verði það háir.
    Í öðru lagi er lagt til að nýju ákvæði verði bætt inn í 20. gr. frv. Það felur í sér skírskotun til hvaða atriða landbrh. ber að líta þegar hann tekur ákvörðun um úthlutun viðbótartollkvóta samkvæmt viðauka IVA og B. Annars vegar skal hann hafa til hliðsjónar að nægilegt framboð á hæfilegu verði sé til staðar á hverri vöru á hverjum tíma. Hins vegar skal hann líta til þess hvort þeir lágmarkstollkvótar, sem hann hefur þegar úthlutað samkvæmt viðauka III, hafi verið nýttir af leyfishöfum eða ekki. Með vali á tolltöxtum, samkvæmt 3. og 4. mgr. 3. gr. frv., getur hann haft áhrif í því efni. Tilgangur þessara breytinga er annars vegar að lögin gefi leiðbeiningu um það hvenær og í hvaða skyni úthluta skuli hinum frjálsu kvótum og hins vegar að fram komi í lögunum að tilgangur þessa ákvæðis sé m.a. að stuðla að því að innflutningur verði í samræmi við skuldbindingar samkvæmt GATT-samkomulaginu. Með báðum þessum breytingum er því verið að koma til móts við þau neytendasjónarmið sem fram komu hjá mörgum þeirra gesta sem fyrir nefndina komu og í umsögnum er nefndinni bárust.
    Þá er lögð til breyting á ákvæðum 6. gr. frv. um úrræði tollstjóra ef grunur leikur á að innflutningur eigi sér stað á vöru sem brýtur gegn hugverkaréttindum. Annars vegar segir í frv. að rétthafi skuli leggja fram sönnun þess að hugverkaréttindi njóti verndar hér á landi. Fram kom á fundum nefndarinnar að þetta orðalag væri fullstrangt og því er lagt til að talað verði um fullnægjandi gögn sem er líka betur í samræmi við ákvæði GATT-samningsins um hugverkaréttindi. Hins vegar leggur nefndin til að tekið verði út orðalag um að rétthafi þurfi að leggja fram tryggingu fyrir kostnaði tollyfirvalda af frestun tollafgreiðslu. Tollyfirvöld geta krafið inn þennan kostnað eftir öðrum leiðum og því ekki þörf á sérstöku ákvæði þar um í þessari grein.
    Einnig leggur meiri hlutinn til að inn í búvörulögin verði tekið nýtt ákvæði um heimild fyrir landbrh. til að banna fyrir innflutning á afurðum dýra og plantna sem gefin hafa verið vaxtaaukandi efni eða ef þessar afurðir kunna að fela í sér leifar lyfja eða annarra aðskotaefna sem eru umfram það sem leyft er við framleiðslu hér á landi og geta verið hættuleg heilsu manna. Í raun er verið að gera sömu kröfur til innfluttra afurða og gerðar eru til innlendrar framleiðslu, sbr. m.a. lög nr. 30 frá 1966, um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum.
    Auk þess sem að framan er greint er lagt til að heimild til að taka eftirlitsgjald lögtaki til að standa straum af eftirliti með plöntum verði felld niður þar sem hún er talin óþörf og að gerðar verði nokkrar breytingar á tollskrá í viðauka I sem eru skýrðar nánar út í nefndarálitinu. Loks eru gerðar nokkrar leiðréttingar á frv. sem snúa ekki að efni þess.
    Það er eðlilegt að um frv. sem þetta séu skiptar skoðanir og kom það berlega í ljós í þeim umsögnum sem nefndin fékk og í málflutningi þeirra sem nefndin fékk til viðtals við sig. Kom annars vegar fram að talsmenn framleiðenda eru uggandi og óttast áhrif aukins innflutnings. Hins vegar voru talsmenn verslunar og neytenda á þeirri skoðun að of skammt væri gengið og að ekki væru horfur á neinum verulegum innflutningi á búvörum. Þótt frv. leiði e.t.v. ekki til stórfelldra breytinga í verslun með landbúnaðarvörur á næstunni er það engu að síður mikilvægt og stórt skref. Meginbreytingin sem það felur í sér er að það setur viðskiptum með landbúnaðarvörur nýjar reglur.
    Á grundvelli þessara breytinga verður framvegis unnt að stýra innflutningi og hafa áhrif á þróun landbúnaðar innan lands með markaðstengdum aðgerðum sem ættu að tryggja að óskir neytenda komist betur til skila en áður og að framleiðendur eigi auðveldara með að laga sig að þeim óskum og tryggja þannig framtíð sína.
    Meiri hluti nefndarinnar telur að með frv. og þeim breytingum sem hér eru lagðar til hafi tekist að samræma með viðunandi hætti þau meginsjónarmið sem uppi eru í málinu. Hann telur fullljóst að þannig sé gengið frá málum að stöðu innlendra framleiðenda verði ekki raskað óvænt og að stjórnvöld hafi með því fyrirkomulagi, sem gert er ráð fyrir, öll nauðsynleg tæki í höndum til að koma í veg fyrir að svo verði.
    Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu og legg fyrir hönd meiri hluta efh.- og viðskn. til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til á þskj. 70 og ég hef gert hér nánari grein fyrir.
    Undir nefndarálitið rita Sólveig Pétursdóttir, Vilhjálmur Egilsson, Gunnlaugur M. Sigmundsson, Einar Oddur Kristjánsson og Pétur H. Blöndal.