Alþjóðaviðskiptastofnunin

20. fundur
Mánudaginn 12. júní 1995, kl. 17:04:35 (709)

[17:04]
     Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti og breytingartillögum 1. minni hluta efh.- og viðskn. Efh.- og viðskn. hefur haft bandorm þennan til umfjöllunar á mörgum fundum. Leitað hefur verið eftir skriflegum álitsgerðum frá fjölda aðila og fulltrúar mjög margra aðila kvaddir til viðtala. Þrátt fyrir afar nauman tíma til þess að skoða þetta mál ofan í kjölinn af hálfu svo margra aðila brugðust þeir fljótt og vel við þannig að nefndinni bárust margar álitsgerðir auk þess sem fram kom í viðræðum rökstudd sjónarmið bæði frá ýmsum hagsmunaaðilum og eins opinberum stofnunum, svo sem Þjóðhagsstofnun, Hagfræðistofnun háskólans og fleiri aðilum.
    Að lokinni þessari ítarlegu umfjöllun var nefndarmönnum það ljóst að áhrif frv. eru fyrst og fremst þau að koma í stórum dráttum í veg fyrir innflutning á landbúnaðarafurðum og þar með fyrir samkeppni. Meginstefna frv. braut þannig í bága við margyfirlýstan tilgang GATT-samninganna sem slíkra, þ.e. landbúnaðarþáttar Úrúgvæ-lotu GATT-samninga. Þetta er ekki bara skoðun þess sem hér stendur. Þetta var margáréttað sem meginniðurstaða í skriflegum álitsgerðum og munnlegum samtölum sem fram fóru í nefndinni af hálfu þeirra aðila sem fyrst og fremst eiga að búa við þetta kerfi.
    Hv. 5. þm. Reykv. mælti fyrir brtt. og nefndaráliti meiri hlutans og reyndi í því efni að leggja áherslu á að meiri hlutinn hefði reynt að koma til móts við þessa hörðu gagnrýni á frv. með því að leggja fram breytingartillögur. Breytingartillögurnar eru ýmsar en sú brtt. sem hv. frsm. lagði mesta áherslu á er að mínu mati algerlega ófullnægjandi. Hún snertir ekki meginatriði málsins, þ.e. þá meginstefnu sem er mörkuð með samsettum tollum, verðtollum og magntollum, og þá aðferð sem beitt er til þess að spenna þá upp í hæstu hæðir og útiloka þar með öll viðskipti og samkeppnisáhrif. Hún varðar einungis hinn mjög svo takmarkaða lágmarksmarkaðsaðgang og gerir það með þeim hætti að vafasamt er hver áhrifin verða. Þetta er heimildarákvæði til hæstv. landbrh. Menn ætla með öðrum orðum að leggja allt traust sitt á góðvild landbrh. í þessu efni ef þörf krefur. Í ljósi þeirrar umræðu sem fram fór hér áðan um aflamarkskerfið er þetta svona ámóta fróm ósk eins og ef þingheimur vildi leggja allt traust sitt á hæstv. ráðherra Þorstein Pálsson og Halldór Ásgrímsson til þess að leggja af aflamarkskerfið. Það eru ámóta miklar líkur á að við því verði orðið eins og það að fela fulltrúa hagsmunaaðila framleiðenda, sem hafa farið offari í undirbúningi þessa máls, að hafa þetta í hendi sér.
    Í annan stað er aðferðin aðfinnsluverð því að hún felur í sér heimild til viðbótarúthlutunar á kvótum á breytilegum tollum. Hin rétta aðferð er að sjálfsögðu sú að taka afstöðu til þess hvernig menn vilja stilla tollana. Samkvæmt GATT-samkomulaginu er gamla kerfið, sem var við lýði, þ.e. að hafa breytilega tolla gagnrýnt harðlega. Þeir eiga að vera fastir, birtir, sýnilegir þannig að viðskiptaaðilar geti gengið að því sem gefnum hlut hver kjörin eru en þessi tillaga felur það ekki í sér.
    Vera má engu að síður ef landbrh. beitir þessum heimildum að það geti breytt einhverju. Það var mat viðræðuaðila efh.- og viðskn. að 2--3 tegundir gætu hugsanlega vakið áhuga innflutningsaðila í innflutningi í lágmarksaðgangi. Ef þessu væri beitt gæti þetta hugsanlega haft einhver áhrif en þau eru áreiðanlega mjög takmörkuð. Þetta er þess vegna frekar tilraun til þess að fegra málstaðinn fremur en alvörutillaga um að taka á því máli sem fyrir liggur.
    Þess vegna hef ég sem fulltrúi Alþfl. í nefndinni lagt fram breytingartillögur sem taka á þessum málum, bæði að því er varðar magntolla, verðtolla og ákvörðun tolla er heyra undir lágmarksmarkaðsaðgang, sem og breytingartillögur sem fela í sér að því grundvallarskilyrði er fullnægt að sú tollvernd sem ákveðin er í upphafi fari stiglækkandi á aðlögunartímanum. Það er kannski það þýðingarmesta í þessu máli vegna þess að það sem verið er að gera er að stíga fyrstu skrefin í þá átt að stuðla að samkeppni, bæði fyrir framleiðendur, vinnslustöðvar og dreifingaraðila. Það er íslenskum landbúnaði lífsnauðsyn á þessum tíma og athyglisvert að stjórnarliðar hafa í engu svarað því á hvern hátt þeir vilja nota tímann til þess að

búa íslenskan landbúnað, sem kominn er í algerar ógöngur og þeir viðurkenna sjálfir, undir breytta tíma. Nógur er tíminn en ekki er ráð nema í tíma sé tekið.
    Að mínu mati stendur það þrátt fyrir þessar lítilfjörlegu breytingartillögur meiri hlutans að frv. er að meginstefnu til óbreytt. Það hefur þann yfirlýsta tilgang í stórum dráttum að útiloka innflutning nema í undantekningartilvikum og að koma þannig í veg fyrir alla samkeppni og þar með svipta menn voninni um það að GATT-samningurinn í framkvæmd gæti orðið tækifæri til þess að innleiða nýja tíma fyrir íslenskan landbúnað og fyrir íslenska neytendur. Þetta tækifæri fer forgörðum með þeirri stefnu sem hér er lýst yfir.
    Herra forseti. Það er yfirlýstur tilgangur landbúnaðarkafla Úrúgvæ-lotu GATT-samningsins að aflétta banni á viðskiptum með landbúnaðarafurðir, að afnema viðskiptahindranir hverju nafni sem nefnast, að lækka tolla og stuðla þannig smám saman að samkeppni um verð og gæði í framleiðslu og viðskiptum með landbúnaðarvörur. Hitt er líka rétt að það er jafnframt umsamið í samningnum sjálfum að tryggja megi framleiðendum landbúnaðarvara samkeppnisvernd á sex ára aðlögunartímabili enda er gert ráð fyrir því að verndin minnki í áföngum. Í því felst auðvitað að innleiða verður þessa samkeppni til þess að aðlögunartímabilið nýtist í framhaldinu.
    Nauðsyn samkeppni í þessum viðskiptum sem öðrum sést m.a. af því að ríkjandi verndarstefna hefur hvarvetna brugðist, ekki síst hér á landi. Löngum hafa menn deilt um það en nú er svo komið að þeir sem lengst af hafa varið kerfið fram í rauðan dauðann eru á faralds fæti í flótta sínum undan því og skortir nú mjög rök til þess og þær raddir verða æ háværari meðal bænda sjálfra sem kvarta sáran undan afleiðingum þess. Að því er GATT-samkomulagið varðar er það svo að aðeins brot af landbúnaðarframleiðslu heimsins er reyndar í frjálsum viðskiptum á heimsmarkaði. Nefndar hafa verið tölur eins og um eða innan við 3% af heildarframleiðslu landbúnaðarafurða. Afleiðingin af þessu er sú að framleiðni í landbúnaði hefur dregist langt aftur úr þeim greinum sem njóta aðhalds af samkeppni í frjálsum viðskiptum. Þetta hefur með öðrum orðum bitnað bæði á framleiðendum og neytendum þar sem verndarstefnan hefur gengið út í öfgar.
    Ísland hefur því miður lengi verið í hópi þeirra þjóða sem lengst hafa gengið í verndarstefnu. Og enn er það svo ef það er mælt á mælikvarða opinbers stuðnings við landbúnaðarframleiðsluna þá koma um það bil þrír fjórðu hlutar af heildarverðmæti hennar frá opinberum aðilum. Ísland var í þriðja, er hugsanlega nú í fjórða sæti af þeim löndum sem lengst hafa gengið í verndarstefnu að þessu leyti. En hefur þetta búið bændum einhver fyrirmyndarskilyrði? Nei, því fer fjarri. Það liggur fyrir af opinberum tölum að tekjur bænda hafa lækkað langt umfram tekjur annarra stétta. Á sama tíma er það svo þrátt fyrir verulega ríkisstyrki í margvíslegu formi hefur verð til neytenda á Íslandi reynst vera að jafnaði eitthvert hið hæsta sem dæmi finnast um á byggðu bóli. Það sætir furðu að flokkur eins og Sjálfstfl. skuli ekki í ljósi reynslunnar nota tækifærið við framkvæmd GATT-samningsins að stíga fyrstu skrefin í þá átt að aflétta þessu kerfi, að koma á samkeppni, að nýta það aðhald sem af henni hlýst, að reyna að gæta sanngirni milli sjónarmiða beggja aðila, annars vegar að tryggja framleiðendum og vinnslustöðvum hæfilega vernd en jafnframt þó að tryggja að árangur af samkeppninni geti farið að skila sér. Sérstaklega er þetta undarlegt í ljósi þess að framleiðni hefur dregist langt aftur úr öðrum sambærilegum atvinnugreinum hér á landi innan landbúnaðarins. Samkvæmt upplýsingum frá forstöðumanni Þjóðhagsstofnunar, sem hann kom á framfæri við efh.- og viðskn., hefur framleiðni í mjólkurframleiðslu og -vinnslu farið lækkandi sl. 20 ár og að hans mati um 30--35% hvort heldur er mælt á mælikvarða fjármuna eða vinnuafls. Að hans sögn hefur framleiðni í sláturiðnaði á Íslandi staðið í stað í 20 ár og var þó afar lág fyrir og þolir engan samanburð við sambærilegar atvinnugreinar hjá nálægum þjóðum.
    Að svo miklu leyti sem stjórnmálamenn fengust til að ræða landbúnaðarmál og kjör bænda í seinustu kosningum vakti það mesta athygli mína að fulltrúar úr bændastétt birtu opið bréf til bændaforustunnar undir fyrirsögninni ,,Skipulögð fátækt`` og lýstu með þeim orðum afleiðingum þess kerfis sem bændavinirnir miklu í framsóknarörmum Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks, sem hafa stýrt þessum málaflokki áratugum saman, hafa leitt yfir þá.
    Þetta eru einkunnarorðin sem bændur sjálfir eru farnir að nota um það ríkisrekna einokunarkerfi sem við höfum búið til og það er stefna þessa frv. að við skulum búa við áfram. Ég lýsi vonbrigðum mínum yfir því að stjórnarflokkarnir skyldu ekki nota tækifærið sem GATT-samningurinn færir þeim upp í hendur til þess að byrja nýja tíma á því að leysa bændur úr viðjum þessa úrelta kerfis og stíga fyrstu skrefin í þá átt að bjóða neytendum sanngjarnari kjör í framtíðinni.
    Herra forseti. Eins og ég sagði í upphafi máls míns var það meginniðurstaða, ekki aðeins fulltrúa neytenda heldur einnig fulltrúa verslunar og viðskipta sem nefndin ræddi við eða fékk álitsgerðir hjá, að áhrif frv. væru lítil sem engin. Þótt innflutningsbann sé formlega afnumið eru lagðir á svo háir tollar á innflutning að hann er í reynd útilokaður nema í sérstökum undantekningartilvikum. Þrátt fyrir brtt. verður það svo áfram.
    Tilgangur frumvarpshöfundanna var að mati þessara viðræðuaðila okkar sá að því er virtist að útiloka samkeppni og viðhalda þar með óbreyttu ástandi. Sumir þessara aðila notuðu hugtakið ofurtollar sem eru skilgreindir á þá leið að það eru tollar sem eru stilltir svo háir að þeir útiloka raunveruleg viðskipti. Sérstaka athygli vekur að það er beitt nokkurri hugkvæmni til að stilla tollana þannig af að þeir lækki ekkert á aðlögunartímanum þannig að aðlögunartíminn nýtist ekki. Þetta eru megináhrif frv. Þetta bar þeim saman um sem við kerfið eiga að búa, samanber umsagnir fulltrúa Hagkaupa hf., Neytendasamtakanna, Íslenskrar verslunar, Sambands veitinga- og gistihúsa, Samtaka iðnaðarins og reyndar fleiri aðila. Það er t.d. athyglisvert að það mun vera nýmæli í þessum málum að fulltrúar Alþýðusambands Íslands, heildarsamtaka vinnandi fólks á Íslandi, lýsa efasemdum sínum, gagnrýni sinni á frv. og telja að of langt sé gengið í þá átt að halda uppi óbreyttri verndarstefnu.
    Það vakti athygli mína að forstjóri Þjóðhagsstofnunar vitnaði til álitsgerðar frá Þjóðhagsstofnun frá árinu 1992 og reifaði hvernig Þjóðhagsstofnun hafði reynt að meta áhrif framkvæmdar GATT-samningsins á Íslandi á þeim tíma miðað við gefnar forsendur. En hafandi farið yfir frv. komst forstjórinn að þeirri niðurstöðu að með því væri verið að halda uppi meiri verndarstefnu en Þjóðhagsstofnun hafði gert ráð fyrir, þ.e. allt að 25% umfram það sem Þjóðhagsstofnun hafði áætlað enda ekki gert ráð fyrir neinni lækkun tollverndarinnar á tímabilinu.
    Þessi megináhrif frv. að útiloka innflutning og þar með samkeppni koma einna skýrast fram í eftirfarandi umsögn forstjóra Hagkaupa sem er dagsett 7. júní sl. Þar segir á þessa leið, með leyfi forseta:
    ,,Það er okkar skoðun að frv., verði það að lögum, muni ekki ná þeim yfirlýsta tilgangi að opna fyrir innflutningi á landbúnaðarafurðum til Íslands umfram það sem verið hefur. Gildir þá einu hvort um er að ræða innflutning samkvæmt svonefndum lágmarksaðgangi eða innflutning með 30% tollum og krónutölujöfnun. Báðar aðferðirnar leiða til mun hærra verðs á innfluttri vöru en innlendri og er munurinn ekki 30% eins og í fyrstu mátti skilja heldur mun meiri og í raun óviðráðanlegur í flestum tilfellum. Þetta leiðir til þess að við höfum almennt ekki í hyggju innflutning á landbúnaðarvörum þótt vera kunni að einstakar afurðir finnist sem hægt verði að selja á samkeppnisfæru verði á Íslandi.
    Svo virðist sem þessi mikli verðmunur stafi m.a. af því að svokallað heimsmarkaðsverð sem miðað er við er allt of lágt borið saman við raunverulegt markaðsverð í dag. Þannig kemur t.d. í ljós að frv. gerir ráð fyrir að ,,heimsmarkaðsverð`` á svínakótilettum sé 195 kr. pr. kg en það verð sem við getum fengið þá vöru á erlendis er 463 kr. pr. kg.``
    Því næst birtir forstjórinn töflu sem fylgir með umsögn Hagkaupa, sem er sú verslun á Íslandi sem stærðar sinnar vegna gæti helst gert hagkvæm innkaup, sem er afar athyglisverð fyrir þá sök að hún sannar með skýrum hætti það sem við höfum haldið fram að þetta svokallaða heimsmarkaðsverð er hvergi virkt viðskiptaverð, það er tilbúningur í raun og veru. Raunverulega virkt viðskiptaverð, sem Íslendingar eiga kost á, er miklum mun hærra. Þetta er auðvitað gert í ákveðnum tilgangi, með öðrum orðum til þess að fá forsendur til þess að auka tollverndina. Innflutningsbannið er að nafninu til afnumið en því er haldið við í reynd með þeim aðferðum sem hér er beitt. Hver er aðferðin, herra forseti? Samkvæmt GATT-samningnum er heimilt að umreikna afnám innflutningsbanns í tolla. Þetta eru svokallaðar tollabindingar sem eru þar með hámarkstollar. Margir virðast halda að þar með sé niðurstaða þessa reikningsdæmis orðið að hinni eðlilegu tollvernd og að það sé skuldbindandi tilboð af Íslands hálfu. Svo er ekki. Þetta eru einungis heimildarákvæði. Þetta er ákveðin aðferð við að reikna út muninn sem var vissulega mikill á innlendu verðlagi og innflutningsverðlagi en hefur ekkert að gera með pólitískar ákvarðanir um það hversu langt menn vilji ganga í verndarstefnuátt.
    Tollabindingarnar eru fundnar með því að finna út erlent viðmiðunarverð, reyndar á viðmiðunarárunum 1986--1988, og brúa síðan bilið milli þess og innlends heildsöluverðs eins og það er gefið upp og auglýst af fulltrúum einokunarkerfisins íslenska. En mörg dæmi finnast fyrir því að það verð er reyndar hærra en raunverulegt smásöluverð sem unnt er að ganga að, sérstaklega í stórmörkuðum á höfuðborgarsvæðinu. Verðmunurinn er jafnaður með tollabindingunni og það er hinn heimilaði hámarkstollur. Þess vegna er ljóst að höfundar frv. fara þá leið að beita samsettum tollum, annars vegar 30% verðtolli og hins vegar magntolli sem er föst krónutala á kíló eða einingu. Með því að gefa sér þessar óraunhæfu viðmiðanir í báða enda fá þeir út himinháa krónutölujöfnun, þ.e. hinn svokallaða magntoll. Annars vegar er hið svokallaða heimsmarkaðsverð miklum mun lægra en raunverulegt viðskiptaverð sem íslenskir innflytjendur eiga kost á, hins vegar er auglýst innlent heildsöluverð einokunaraðila sem í mörgum tilvikum eru hærri en raunverulegt smásöluverð stórmarkaða. Útkoman er tollur sem er nægilega hár til þess að þjóna settu marki, að útiloka innflutning. En hann er líka hafður ekki nægilega hár til að hann rekist upp í tollabindinguna nema í undantekningartilvikum, þ.e. hámarksheimildina. Tilgangurinn með því er sá að losna við þá skyldu GATT-samningsins að lækka tollverndina um 36% eða 15% að meðaltali á sex ára aðlögunartímabili. Þessi aðferð frumvarpshöfunda er það sem sérfræðingar í þessum málum hafa á erlendu máli kallað ,,dirty tariffication``, þ.e. eitthvað miður viðfelldin aðferð til að ná settu marki að spenna formlegar heimildir upp úr öllu valdi til þess að koma í veg fyrir viðskipti. Þessari aðferð er skilmerkilega lýst í umsögn Íslenskrar verslunar en þar segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Samkvæmt tollviðauka I, sem lagður er fram með ofannefndu frv., er hagur neytenda algerlega fyrir borð borinn og íslenskum landbúnaði tryggð einokun um ókomna tíð. Hinir háu verndartollar, eða ofurtollar, sem þar er að finna gera með öllu ómögulegt að halda hér uppi virkri samkeppni milli innlendra og innfluttra landbúnaðarafurða.
    Ofurtollar þessir eru réttlættir með því að þeir séu mismunur á heimsmarkaðsverði annars vegar og heildsöluverði innanlandsframleiðslu hins vegar.

    Íslensk verslun hafnar þessari skýringu alfarið. Hvort tveggja er að hið svokallaða heimsmarkaðsverð er bæði óskýrt og óskilgreint hugtak. Það brýtur gegn þeirri meginreglu samningsins að miða skuli við viðskiptaverð í tolli. Þá er auk þess tilgreint í viðauka V við landbúnaðarsamning GATT 1994 að miðað skuli við meðaltal cif-einingarverðs í innflutningi við umreikning yfir í tollígildi. Notkun heimsmarkaðsverðs er klárlega í andstöðu við það. Þá hafna samtökin með öllu að til sé nothæft og marktækt heildsöluverð í landbúnaði. Slíkt verð getur aldrei myndast nema í frjálsri samkeppni á markaði sem opinn er jafnt fyrir innfluttum sem innlendum varningi. Slíkt verð getur aldrei myndast í skjóli einokunar og tollmúra.``
    Herra forseti. Ég hef vitnað í umsagnir fulltrúa viðskiptalífsins um meginstefnu frv. Það er líka sérstök ástæða til að minna á að í skriflegri umsögn Neytendasamtakanna er tekið undir þessi sjónarmið og komist að sömu niðurstöðum. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Neytendasamtökin minna á að tilgangurinn með nýja GATT-samningnum með landbúnaðarvörur er að örva viðskipti og þar með samkeppni með þessar vörur. Ljóst er hins vegar að ef frv. til laga um breytingar á lögum vegna aðildar Íslands að Alþjóðaviðskiptastofnuninni (áður GATT) verður samþykkt óbreytt munu neytendur hafa sáralítinn ávinning af þessum samningi.``
    Ástæða er til að minna á það þegar stjórnarliðar reyna að bera í bætifláka fyrir þetta og reyna að gera meira úr brtt. sínum en ástæða er til. Úthlutun tollkvóta innan ramma lágmarksmarkaðsaðgangs er reyndar undir öllum kringumstæðum ekki líkleg til að skila neytendum neinum ávinningi. Einfaldlega vegna þess að jafnvel þótt það verði af einhverjum innflutningi í undantekningartilvikum er um að ræða skömmtunarkerfi og það var mat manna í umræðum í nefndinni að líklegast myndu aðilar í verðlagningu sinni stilla það af nálægt markaðsverði þannig að neytendur nytu ekki góðs af því. Í því efni er einfaldlega spurningin um hvaða aðferð menn beita við úthlutunina sjálfa. Hvort lottóvinningurinn sem boðaður var í frv. stjórnarliða rennur með þeim hætti í vasa innflytjandans eða hvort efnt verður til auglýstra útboða á þessum innflutningsleyfum þannig að rentan í málinu renni til almenningsþarfa, þ.e. í ríkissjóð, frekar en til heildsala eins og yrði fyrirsjáanlega afleiðingin af þeirri aðferð sem frv. boðar. Brtt. stjórnarliða nær a.m.k. ekki þeim tilgangi sínum hafi það vakað fyrir þeim að skila neytendum ávinningi og þar með fer forgörðum sá yfirlýsti tilgangur að hvetja, svo mark sé takandi á, til samkeppni sem gæti leitt til verðlækkana síðar.
    Í umsögn Neytendasamtakanna segir enn fremur, með leyfi forseta:
    ,,Þær vörur sem leyft verður að flytja inn á lágmarkstollum munu samt bera það háan toll að útsöluverð þeirra verður í langflestum tilvikum mun hærra en á innlendum vörum.
    Miðað við þá háu tolla sem íslensk stjórnvöld áskildu sér í GATT-tilboði sínu gætu þeir tollar sem leggja á á samkvæmt frv. á innflutning umfram lágmarksinnflutninginn virst lágir. Engu að síður eru þeir svo háir að það verður ekki um neinn innflutning að ræða.`` --- Ég endurtek að það verður ekki um neinn innflutning að ræða og því enga samkeppni við innlenda vöru.
    Í umsögn Neytendasamtakanna segir enn fremur á þessa leið, með leyfi forseta:
    ,,Neytendasamtökin hafa talið eðlilegt að GATT-samningurinn verði framkvæmdur þannig að á lágmarksinnflutninginn verði lagðir það lágir tollar á innflutningsverð vörunnar að neytendur sjái mun á verðlagi þessara vara hér á landi borið saman við önnur lönd. Á innflutning umfram það verði lagðir tollar sem geri innfluttu vöruna jafndýra þeirri erlendu. Á þann hátt verði tryggt að GATT-samningurinn skili neytendum árangri þegar í upphafi og veiti innlendum landbúnaði eðlilega samkeppni og aðhald.``
    Þess ber sérstaklega að gæta, herra forseti, í þessu efni að jafnvel þótt um það væri að ræða að innflutt vara væri stillt af með tollum þannig að hún yrði sambærileg í verði til neytenda við innlenda vöru þá er það svo að hún sætir að sjálfsögðu fjarlægðarvernd. Þá þarf að taka tillit til heildsöluálagningar til heildsalans í innflutningslandinu, flutningskostnaðar, trygginga og annarrar álagningar við dreifingu innan lands þannig að strax í fjarlægðarverndinni er fólgin umtalsverð tollvernd að því er innflutning varðar.
    Herra forseti. Þau dæmi sem ég hef nú nefnt og gæti tíundað fleiri sýna að fyrir höfundum frv., hæstv. forsrh. og ríkisstjórn, vakti að leggja á tolla sem útiloki viðskipti og þar með samkeppni og að viðhalda óbreyttu kerfi í reynd. Stefna frv. er því enn eitt dæmið af mörgum um óbilgjarna hagsmunavörslu í þágu ríkjandi ástands. Höfundar þessa frv. hafna þeirri leið að veita framleiðendum og vinnsluaðilum eðlilega tollvernd í upphafi sem gæti þó opnað fyrir takmarkaðan innflutning. Hefði sú leið verið farin hefði hún orðið hvati til lækkunar kostnaðar til endurskipulagningar og hagræðingar í framleiðslu og vinnslu. En án slíks aðhalds frá samkeppni er engrar hagræðingar eða framleiðniaukningar að vænta. Það kemur skýrt fram að ekkert samráð var haft við samtök neytenda eða fulltrúa viðskiptalífsins þegar þessar ákvarðanir voru teknar að þeirra eigin sögn. Hvað þýðir nú þetta? Annars vegar er það viðurkennd staðreynd að íslenskur landbúnaður og matvælaiðnaður úr landbúnaðarhráefnum geldur kerfisins að því leyti að framleiðni er ekki eðlileg. Tilkostnaður er of hár. Krafa neytenda er í vaxandi mæli lækkun á verðlagi en slíkt gerist ekki, mun ekki gerast í þessu kerfi og gerist ekki nema fyrir aðhald samkeppni. Bændur hljóta áfram að tapa markaðshlutdeild sinni í þessari samkeppni vegna þess að verðið er of hátt. Það er nákvæmlega þetta sem er að gerast. Þess vegna er það að markaðshlutdeild hefðbundinna landbúnaðarafurða, ekki síst sauðfjárafurða á íslenskum neytendamarkaði, er á hröðu undanhaldi. Hver eru rétt viðbrögð við þessari þróun? Hingað til hafa þau verið að banna innflutning. Ef menn komast ekki lengur upp með það að banna

innflutning þá er það að tolla innflutning svo hátt að af innflutningi verði ekki sem breytir engu í reynd. Þetta eru röng viðbrögð vegna þess að reynslan sýnir að áframhaldandi rekstur í svona kerfi skilar ástandi þar sem hlutirnir fara versnandi dag frá degi. Í því er engin framtíð. Rétt viðbrögð væru að sjálfsögðu þau að stíga fyrstu skrefin, fyrstu smáu skrefin í þá átt að koma á eðlilegri samkeppni, a.m.k. samkeppni á grundvelli gæða, að nokkru leyti samkeppni á grundvelli verðs til þess að knýja þannig á um að þessi þróun, þessi öfugþróun með hækkun tilkostnaðar minnkandi framleiðni haldi áfram. GATT var tækifæri til þess. En því miður hefur því tækifæri verið klúðrað af einsýni þeirra sem eru sjálfskipaðir verjendur þessa kerfi. Ósanngirni þeirra gagnvart eðlilegum sjónarmiðum annarra, óbilgirni þeirra í kröfugerð er rauði þráðurinn í þessu. Lítið dæmi en afar upplýsandi um þetta birtist okkur í greinargerð frá Samtökum veitinga- og gistihúsaeigenda. Það snertir nefnilega þann vaxtarbrodd í íslensku atvinnulífi sem margir halda um lofræður á tyllidögum, þá er ég að tala um ferðaþjónustuna. Það vildi svo til í seinustu ríkisstjórn að sami maðurinn gegndi þá embættum landbrh. og samgrh. Hann var bæði ráðherra hins hefðbundna kerfis, einokunarkerfisins og harðsnúinn varðmaður sérhagsmuna þess, ég kalla það nú ekki hagsmuni bænda, kerfisins sjálfs. Og hins vegar var hann líka ráðherra ferðaþjónustunnar sem hann þreyttist ekki á að segja að væri vaxtarbroddurinn, væri framtíðarvonin bæði um sköpun starfa, ný atvinnutækifæri o.s.frv. En hvað segir Samband veitinga- og gistihúsa í umsögn sinni um frv. Í þeirri umsögn segir á þessa leið, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Ljóst er að ef ofangreint frumvarp verður samþykkt óbreytt munu neytendur og þar með íslensk ferðaþjónusta lítinn ávinning hafa af samningnum.
    Með þessum tollum er fyrir fram verið að verðleggja erlendar vörur út af markaðnum, en neytendur standa í þeirri trú að tilgangurinn með þessum nýja samningi með landbúnaðarvörur sé að auka viðskipti og samkeppni.
    Íslensk veitingahús, sem þjóna bæði hinum íslenska markaði svo og tæplega 200 þús. erlendum ferðamönnum á ári, búa við mjög hátt innkaupsverð landbúnaðarvara eins og allur almenningur í landinu. Matur er mjög stór þáttur í verðlagningu ferða til Íslands og því erfiður samkeppnisþáttur þar sem íslensk ferðaþjónusta á í harðri samkeppni á alþjóðamarkaði.
    Veitingahúsin áttu sér þá von að eðlilegur innflutningur landbúnaðarvara myndi leiða til fjölbreyttara úrvals vörutegunda á lægra verði svo og leiða til þess að eðlilegt verð myndaðist á íslenskum landbúnaðarvörum. Með samþykkt þessa frumvarps er sú von orðin að engu.``
    Virðulegur forseti. Ég endurtek, með samþykkt þessa frumvarps er sú von að engu orðin.
    Í efh.- og viðskn. kom fram að í skoðanakönnunum, sem gerðar höfðu verið meðal erlendra ferðamanna, gengi það aftur eins og rauður þráður eitt umkvörtunarefni að því er varðar álit gesta okkar sem sækja landið heim á þeirri þjónustu sem er í boði. Hvað var það? Það var númer eitt, tvö og þrjú endurtekið æ ofan í æ að verðlag á matvælum væri með öllu óboðlegt. Það kom fram af hálfu framkvæmdastjóra sambandsins að nú væri svo komið að til þess að mæta þessari gagnrýni og til þess að forða afturkipp í ferðaþjónustu gripu ferðaskrifstofurnar í vaxandi mæli til þess ráðs að bjóða ekki máltíðir í tilboðum sínum til erlendra umboðsaðila vegna þess að þar með verðleggi þær sig út af markaðnum. Mörgum kann að þykja þetta aukaatriði málsins í samanburði við þau kjör sem verið er að bjóða almenningi í landinu. En ég nefni þetta sérstaklega vegna þess að í ræðum sínum á tyllidögum segja menn að þeir vilji allt gera fyrir þessa ferðaþjónustu og binda við hana miklar vonir en í reynd nota menn ekki tækifærið þegar það gefst til þess að leggja traustan grundvöll að framtíðarþróun hennar.
    Herra forseti. Þá ætla ég að víkja að þeim fyrirheitum sem bundin voru við svokallaðan lágmarksaðmarkaðsaðgang. Samkvæmt GATT-samningnum er Ísland skuldbundið til að heimila svokallaðan lágmarksmarkaðsaðgang eins og menn eru farnir að þekkja, 3--5% af markaðshlutdeild viðkomandi vöru, reyndar eins og hún var á viðmiðunarárunum 1986--1988, en á lágum tollum. Þetta er hugsað upphaflega sem trygging fyrir lágmarkssamkeppnisáhrifum strax í upphafi. Hvað er það sem þeir sem standa að þessu frv. kalla lága tolla? Ástæða er til að rifja það upp að með þeirri byltingu sem gerð var á tollskránni 1987--1988 voru tollar lækkaðir mjög verulega á innflutningi til Íslands, tollflokkum fækkað og hámarkstollar lækkaðir sem er auðvitað meginstefnan bæði hér á landi og annars staðar og meginstefna að sjálfsögðu innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Rauntollar í íslensku tollskránni eru að meðaltali um 3,7%. Hæstu tollar sem fyrirfinnast að ég hygg með einni undantekningu eru um 30%. Þegar í GATT-samkomulaginu er talað um lága tolla er að sjálfsögðu verið að tala um lága tolla í samanburði við þá rauntolla sem tíðkast í viðkomandi landi. En höfundar frv. virðast hafa undarlegar hugmyndir um það því þessir lágu tollar sem skilgreindir eru að hámarki --- þeir velja hið fræðilega hámark sem hugsanleg heimild gefur þeim, 32% af grunnverði tollabindingar sem eru himinháir tollar. Reyndar í okkar tilfelli á bilinu frá 60 og upp í 254%. Eins og fram kemur í töflu sem Neytendasamtökin lögðu fram og að ég hygg reyndar í öðru upplýsingaefni frá öðrum viðskiptaaðilum eru tollarnir ofan á innflutning eins og tekin voru dæmi um, t.d. frá Danmörku þess eðlis að heildartollurinn var yfirleitt á bilinu 100--200% og leiddi til mun hærra verðs til neytenda en jafnvel þær vörur sem voru á markaðnum.
    Í mati sínu á því hvaða undantekningartilvik gætu samt sem áður komið til greina hafa kjúklingar verið nefndir sem hugsanleg undantekning. En þá er þess látið ógetið hver skýringin á því er. Hún er auðvitað fyrst og fremst sú að verðlag hér á landi á þessari vörutegund er sannarlega óeðlilega hátt. Samanburðartöflur sem birtar hafa verið af ýmsum aðilum, ekki bara Hagfræðistofnun háskólans heldur Samkeppnisstofnun og fleiri, sýna að þessi verðmunur á smásöluverði víðast hvar í grannlöndum og hér á landi þýðir tvöfaldan til þrefaldan verðmun á þessari vörutegund. Það er helst að menn gætu hugsað sér að þessi undantekning stæðist verðsamanburðinn. En að kalla tolla á bilinu 60--254% lága tolla flokkast undir afar sérkennilegt skopskyn. Því næst er auðvitað er þess að geta að fjarlægðarverndin er umtalsverð gagnvart innflutningnum. Hún getur verið frá því almennt séð séð rúmlega 10% að því er varðar þungavöru og upp í yfir 30--35% t.d. að því er varðar blóm og grænmeti.
    Þessi stefna, því þetta eru pólitískar ákvarðanir stjórnarflokkanna sjálfra, hefur auðvitað það að meginmarkmiði að þykjast vera að stíga skref í frjálsræðisátt, þykjast vera að afnema bann, en í reynd er búið svo um hnútana að bannið heldur í raun og veru í stórum dráttum nema þá með einstaka undantekningartilvikum. Og svo flytja menn brtt. sem byggja á því að Alþingi framselji vald til landbrh. ef vera kynni að viðskiptaaðilar fyndu ekki hjá sér neinn hag eða hvata til þess að láta reyna á lágmarksmarkaðsinnflutning. Engu að síður eru engar líkur á því að það skili sér til neytenda þótt einhverjar slíkar undantekningar yrðu vegna þess hvernig um hnútana er búið að því er varðar úthlutunina.
    Þá kem ég að því, virðulegi forseti. Samkvæmt 19. gr. frv. skal landbrh. úthluta tollkvótum til innflytjenda. Og eins og þar segir: ,,Berist umsóknir um meiri innflutning en sem nemur tollkvóta vörunnar skal hlutkesti ráða úthlutun.`` Þetta kom nokkuð til umræðu við 1. umr. og ég leyfði mér í ræðu minni þá að segja að þetta mætti gjarnan ganga undir nafninu spillingarkerfi og virtist koma eitthvað við kaunin á hæstv. forsrh. Þegar menn skoðuðu þetta mál nánar í efh.- og viðskn. var það almenn niðurstaða nefndarmanna, að ég hygg, í umræðum sem og viðmælenda okkar að þetta kerfi gæti ekki skilað neytendum eða myndi ekki skila neytendum neinum ávinningi þótt á það reyndi í einhverjum innflutningi, bæði vegna þess hvernig tollarnir eru ákvarðaðir og vegna þess að hér er um að ræða skömmtunarkerfi. Innflutningsaðilar væru auðvitað líklegir til þess að jafna verðið í undantekningartilvikunum að markaðsverðinu og lottóvinningurinn sem talað var um mundi því koma í þeirra hlut ef einhver væri.
    Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni að eðlilegt væri að bjóða þetta út og leita þannig tilboða um hagstæðustu kjör frá innflytjendum. Þegar nánar er skoðað skal ég viðurkenna það hér að það gengur heldur ekki upp til þess að ná því yfirlýsta markmiði að skila ávinningi til neytenda. Þannig að í raun og veru eiga menn engan annan kost en þann að tryggja það a.m.k. að lottóvinningurinn, rentan af þessu veiðileyfagjaldi á neytendur, renni a.m.k. til ríkissjóðs. Og í því er fólgin raunverulega sú brtt. sem fram kemur af minni hálfu og reyndar hv. þm. Ágústs Einarssonar, þingmanns Þjóðvaka.
    Herra forseti. Talsmenn þessa frv. og málsvarar einokunarkerfisins yfirleitt reyndu fyrst í stað að halda uppi þeirri málsvörn að þeir væru svo sem ekki að gera neitt sérstakt. Þeirra aðferð við framkvæmdina á GATT-samkomulaginu væri nákvæmlega sú hin sama og tíðkaðist í flestum löndum í kringum okkur. Um þetta var mikið spurt í hv. nefnd og leitað upplýsinga um það og niðurstaðan er einföld. Þessar fullyrðingar standast engan veginn. Þannig beitir t.d. Evrópusambandið, sem nær auðvitað til flestra þeirra þjóða sem líklegt er að gæti látið reyna á innflutning frá, 20% verðtolli að jafnaði sem reglu og magntolli í ECU, en með fjölmörgum undanþágum og þær undanþágur eru mestar að því er varðar þær neysluvörur sem vega þyngst í neyslumynstri almennings í þessum löndum í mikilvægum vöruflokkum, t.d. fella þeir niður magntoll á nautakjöt. Svínakjöt ber mjög lágan magntoll og verðtollur er lækkaður niður í 3%, úr 20% í 3%. Kjúklingar, svo tekið sé dæmi, beinlausir, eru að meginhluta til í 0-tollflokki. Sömu sögu er að segja um þær ostategundir sem vega þyngst í neyslu almennings. Og að því er varðar lágmarkaðsmarkaðsaðganginn þá miða þeir ekki við 32% af einhverjum ímynduðum tollabindingum heldur við rauntolla sem að sjálfsögðu eru lágir í þeim löndum. Síðan er verðtollurinn lækkaður á aðlögunartímanum úr 20 í 12,8%. Þá geta menn séð af þessum tölum að við erum að bera saman gjörsamlega ólíka hluti. Þannig að það er fullyrðing sem ekki stenst að þeir sem stýrðu penna stjórnvalda í landbrn. og landbúnaðarkerfinu við að setja saman þennan orm hafi verið að bera sig saman við vinnubrögð hjá viðskiptaþjóðum okkar. Því fer víðsfjarri.
    Herra forseti. Það er ástæða til að víkja hér einnig að öðrum þætti þeirra vinnubragða sem haldið er uppi við frumvarpssmíðina sjálfa. Það er ekki nýtt að þeim ósið sé viðhaldið að ætla löggjafarvaldinu að framselja í hendur landbrh. ótæpilegar heimildir til allra handa hluta. Í þessu frv. er því haldið áfram í fjöldamörgum frumvarpsgreinum. Landbrh. á að fá heimildir til úthlutunar á fémæti, þ.e. innflutningsleyfunum. Hann á að fá vald frá Alþingi til að leggja á gjöld. Hann á að fá vald til að ráðstafa fé úr sjóðum. Eru þá bara nefnd þrjú dæmi af mörgum. Allt flokkast þetta í reynd undir lagalegan óþrifnað, en hefur því miður lengi verið einkennandi fyrir landbúnaðarlöggjöf okkar Íslendinga. Þetta viðgengst þrátt fyrir að fallið hafi hæstaréttardómar sem flokka slíkt í sérstökum tilvikum undir stjórnarskrárbrot, þ.e. framsal á valdi Alþingis til framkvæmdarvaldsins til skattlagningar á almenning eða ráðstöfunar almannafjár sem heyrir undir Alþingi. Lærðir lögfræðingar hafa reyndar gefið út viðamikil rit þar sem það er rækilega rökstutt að slíkt flokkist undir lagafúsk og er átalið harðlega.
    Sömu sögu er að segja að því er þetta frv. varðar þegar kemur að verkaskiptingu ráðuneyta. Ég hef áður vikið að því að tollskrá heyrir að sjálfsögðu undir fjmrh. og í raun réttri ætti landbrh. ekkert að hafa með framkvæmd tolla að gera frekar en aðrir fagráðherrar. Þar með er skapað fordæmi fyrir því að tollskráin sé bútuð upp í hluta þannig að einstakir fagráðherrar taki til sín þá hluta tollskrárinnar sem varða álagningu tolla á varning sem að öðru leyti flokkast undir þeirra málasvið. Ætti þá að flytja þann hluta tollskrárinnar sem fjallar um iðnaðarvörur undir iðnrn. eða sjávarafurðir undir sjútvrn. og þannig mætti lengi telja.
    Annað dæmi af sama toga varðar það sem hér er sagt um heimildir til landbrh. um úthlutun tollkvóta. Burt séð frá því að kvótakerfi af þessu tagi er óæskilegt eins og öll skömmtunarkerfi þá getur lengi vont versnað þegar landbrh. er ætlað að úthluta þessu fémæti, sem að réttu lagi heyrir undir viðskrn., á að vera þar og er þar eðlilega í höndum viðskrh.
    Það vakti athygli mína að í 21. gr. frv., b-lið, eru felld niður ákvæði sem byggðust á samkomulagi fyrrum stjórnarflokka og mæltu fyrir um skipun nefndar þriggja manna landbrh. til ráðuneytis við álagningu verðjöfnunargjalda sem nú hefur verið breytt í tolla. Samkvæmt því áttu fjmrh. og viðskrh. að tilnefna fulltrúa í nefndina. Hugmyndin var auðvitað sú að þessum ráðuneytum væri betur treystandi til að gæta hagsmuna neytenda eða viðskiptaaðila gagnvart landbúnaðarkerfinu að fenginni mjög langri reynslu af þeim samskiptum enda var þar kveðið á um að skjóta mætti ágreiningi til ríkisstjórnar ef upp kæmi slíkur ágreiningur. Þetta er fellt niður. Þess vegna er ein af brtt. þeim sem ég flyt sú að reynt verði að setja þennan varnagla ef upp kemur ágreiningur í þeirri nefnd sem hér er í frv. lagt til að verði sett á laggirnar að þá megi beita málskoti til ríkisstjórnar í þeirri veiku von að það gæti að einhverju leyti orðið til þess að bæta upp fyrir þá vanrækslu að taka ekkert tillit til og hafa ekkert samráð við fulltrúa annarra en framleiðenda og kerfisins sjálfs.
    Herra forseti. Að því er varðar þær brtt. sem 1. minni hluti flytur þá er rétt að skýra þær örfáum orðum.
    Í fyrsta lagi flytjum við tillögu um breytingar á magntollum í viðauka I. Það er sjálfur kjarni frv., aðalatriðið. Brtt. felst í því að lækka magntollana yfirleitt yfir alla línuna um 23% og verðtollana úr 30 í 20% á þær vörur í þeim köflum í tollskránni sem það á við um. Rökin fyrir þessu eru margvísleg. Í fyrsta lagi hefur verið sýnt fram á að útreikningur magntolla samkvæmt frv. er ekki byggður á réttum forsendum hvorki að því er varðar virkt innflutningsverð né innanlandsverð. Tilgangurinn með þessum brtt. er ekki sá að opna fyrir takmarkalausan og tollfrjálsan innflutning. Það hefur aldrei verið okkar sjónarmið og er ekki, enda hefur margoft komið fram í mínu máli að það er samningsskuldbinding í GATT-samningnum að stjórnvöldum er heimilt að tryggja tollvernd fyrir framleiðendur í upphafi aðlögunarskeiðis. Að sjálfsögðu viljum við virða það, teljum það nauðsynlegt og æskilegt. Þessi tillaga mun að okkar mati þýða að verð innfluttra afurða verði talsvert hærra en innlendrar framleiðslu fyrir nú utan það að við bætist fjarlægðarverndin, mismunandi eftir vörutegundum, 10--30%. En með annarri brtt. gerum við ráð fyrir því að þessi tollvernd, sem gæti verið veruleg í upphafi, 10--15% plús fjarlægðarverndin, lækki síðan a.m.k. um 15% að lágmarki á þeim sex ára aðlögunartíma sem um er að ræða. Og hver eru þá rökin fyrir þessari tillögu? Þau eru þessi: Bændum er tryggð traust og mikil tollvernd í upphafi. Engu að síður er sagt skýrum orðum, í samræmi við GATT-samninginn, í tollskrá að þetta verði trappað niður að hluta til á sex árum. Þar með er verið að móta þá stefnu að það eigi að nota aðlögunartímann til að hvetja til samkeppni. Það mun þýða að vinnslustöðvarnar munu taka málið alvarlega og hefjast handa um að undirbúa sig undir þá samkeppni. En þessu þarf jafnframt að fylgja eftir með pólitískum ákvörðunum um að losa íslenska bændastétt úr fátæktarkerfinu sem hún hefur verið viðjuð í, með öðrum orðum að stíga fyrstu skrefin í þá átt að afnema kvótakerfið og í stað framleiðslutengdra beingreiðslna, sem GATT-samningurinn er reyndar andvígur, eigi að taka upp óframleiðslutengdar greiðslur sem stjórnvöld geta síðan útfært nánar sem jafnar greiðslur eða greiðslur miðað við aðra kvarða um bústærð og jafnframt að hluta til til þess að taka upp starfslokasamninga við bændur sem þess óska. Með þessum hætti er verið að móta stefnu um það hvernig við ætlum að nýta hið nýja GATT-kerfi til að stíga fyrstu skrefin út úr því einokunarkerfi, sem hefur hneppt bændur í fjötra; sem hefur með annarri hendinni hvatt þá til framleiðslu með framleiðslutengdum styrkjum, en með hinni hendinni gert þá framleiðslu sífellt dýrari og óhagkvæmari með því að skerða framleiðsluréttinn, greiðslumarkið, og koma greininni þannig í sjálfheldu sem engar leiðir liggja út frá. Þetta er stefnumótun til framtíðar. Og þarna er verið að leggja fram tillögur sem gefa bæði framleiðendum og neytendum einhverja von um breytingar, lögnu tímabærar breytingar, án þess þó að það sé verið að fara á bak við skuldbindinguna um tollvernd í upphafi, hún er tryggð. Þetta er stefna sem ég hygg að vaxandi skilningur sé á bæði meðal neytenda á Íslandi og framleiðenda.
    Önnur meginbrtt. okkar er síðan sú, að því er varðar 2. gr. og varðar svokallaða hámarkstolla, að þegar tollabinding miðast við bæði verð og magn þá miðist hún við þá bindingu sem lægri álagningu leyfir. Þetta getur verið munkalatína fyrir suma en þetta þýðir í reynd að tollverndin muni lækka um 15% að meðaltali á sex ára aðlögunartíma eins og ætlast er til í GATT-samningnum. Þá er tveimur meginmarkmiðum hans fullnægt og stefnan mörkuð til framtíðar í samræmi við skynsamleg langtímasjónarmið.
    Að því er varðar lágmarksmarkaðsaðganginn, þ.e. hina meintu úthlutuðu tollkvóta í viðauka IIIA, þá er brtt. okkar í því fólgin að það skuli að vísu miða við 32% en ekki af hinni himinháu tollabindingu heldur af þeim rauntollum sem við höfum skilgreint í brtt. að því er varðar magntollana. Það er mat okkar að þetta mundi þýða í reynd meiri líkur á því að menn sjái sér einhvern hag í innflutningi samkvæmt lágmarksmarkaðsaðgangi. En þetta mun ekki breyta því að sá innflutningur mun trúlega ekki koma neytendum til góða í lægra vöruverði af ástæðum sem ég útskýrði áðan, einfaldlega vegna þess að rentan mun ekki skila sér til neytenda í þessu skömmtunarkerfi. En þá er í staðinn tryggt með brtt. að almenningur njóti

þess þá a.m.k. með því að rentan skili sér í ríkissjóð. Þessi framkvæmd er í samræmi við framkvæmdina um alla Evrópu að undanteknu verndarstefnulandinu Noregi. Hún er miklu skynsamlegri og eðlilegri heldur en að reyna að mæta gagnrýni á frv. með því að samþykkja að nafninu til einhverjar heimildir til landbrh. til þess að grípa til aðgerða ef lágmarksinnflutningur reynist ekki fýsilegur af hálfu innflytjenda.
    Ein er sú brtt. við 26. gr. sem er sett fram af grundvallarástæðum. Hún varðar það hvernig eigi að uppfylla skuldbindingu sem við höfum tekist á herðar að því er varðar framkvæmd heilbrigðislaga. Málið er einfaldlega það að við viljum ekki opna dyrnar fyrir því að þetta ákvæði um innflutningsbann verði í reynd notað sem viðskiptahindrun heldur verði tryggt að vísindalegar sannanir verði lagðar á borðið, eins og samningurinn kveður fyllilega á um ef beita á slíku ákvæði.
    Þetta eru meginatriðin í þeim brtt. sem við flytjum, virðulegi forseti, en ég vil taka það fram að undirritaður styður fjölmargar brtt. sem fram eru bornar af hv. þm. Ágústi Einarssyni, varaformanni efh.- og viðskn. Það á t.d. við um tillögur hans um takmarkanir á heimildum landbrh. sem ég vék að áður og eru óeðlilegar. Þær birtast í 20. gr., 21. gr. og 23. gr. Þær lúta einnig að hlutverki svokallaðrar þriggja manna nefndar, sem samkvæmt tillögum hv. þm. á að gera tillögur til landbrh. um framkvæmdina á þessu frv., t.d. um beitingu viðbótartollkvóta, heimild til innflutnings samkvæmt lögum um varnir gegn dýrasjúkdómum o.fl. Jafnframt segir í nál. okkar að við styðjum að sjálfsögðu þá stefnu sem birtist í ákvæði til bráðabirgða í tillögum Ágústs Einarssonar um skipun nefndar sem í eigi sæti fulltrúar allra þingflokka og hagsmunaaðila til að fylgjast með framkvæmd laganna og vinni að heildarendurskipulagningu á núverandi landbúnaðarstefnu og landbúnaðarkerfi, enda hafa jafnaðarmenn staðfastlega beitt sér fyrir slíkum tímabærum breytingum árum og áratugum saman. Það er ástæða til þess að undirstrika það að þessar brtt., ef þær eiga að koma að gagni til þess að hvetja til nauðsynlegrar samkeppni, til þess að byggja upp rekstrarumhverfi fyrir landbúnaðarframleiðslu og matvælavinnslu á Íslandi þar sem er raunverulegt kostnaðaraðhald og kostnaðargát og þar sem menn eru undirbúnir snemma á aðlögunartímabilinu til þess að mæta samkeppni í vaxandi mæli, sem verður auðvitað óumflýjanleg, kalla á pólitískar ákvarðanir um breytingar á grundvallaratriðum ríkjandi landbúnaðarstefnu nú þegar. Ef menn ætla einfaldlega að ganga fram í þeirri dul að þeir geti með þessum tollaákvörðunum framlengt ævidaga einokunarkerfisins þá er það afar mikil skammsýni. Þeim mun verri verður vandinn viðureignar, þeim mun hærra verður fallið eða hrunið á þessu kerfi þegar þar að kemur. Þess vegna lýsir það engri framsýni, reyndar ótrúlegri skammsýni, ef menn halda að þeir komist upp með það eða ef menn halda að það sé raunverulega verið að gæta hagsmuna íslenskra bænda. Það er reyndar fátt hægt að nefna sem er eins mótdrægt raunverulegum langtímahagsmunum íslenskrar bændastéttar og að framlengja þetta kerfi.
    Herra forseti. GATT-samningarnir eru vissulega tímamótasamningar í sögu alþjóðasamskipta og alþjóðaviðskipta, ekki bara að því er varðar landbúnaðarþátt samninganna heldur einnig fjölmörg önnur svið. Það vill gleymast í þessari umræðu að samningarnir tóku til a.m.k. 11 eða 12 samningssviða. Það er hollt fyrir okkur Íslendinga að hugsa til þess að það gætir algjörrar tvíhyggju í viðhorfum manna til slíkra samninga. Annars vegar er það talin heilög skylda íslenskra stjórnmálamanna og stjórnvalda að gæta brýnustu þjóðarhagsmuna með því að tryggja tollfrjálsan markaðsaðgang fyrir íslenskar útflutningsafurðir erlendis. Það hefur verið meginmálið frá því að við gerðumst aðilar að GATT-samningunum undir forustu og að frumkvæði Gylfa Þ. Gíslasonar, formanns Alþfl., árið 1968. Það höfum við gert í þeim viðræðulotum og samningalotum sem síðan hefur verið haldið uppi og fyrst og fremst auðvitað til þess að gæta hagsmuna íslensks sjávarútvegs, þ.e. þeirrar atvinnugreinar sem skilar 20--25% upp í okkar þjóðarframleiðslu, en ekki um grein sem skilar 2,8% upp í þjóðarframleiðslu, svo menn geri nú greinarmun á meiri hagsmunum og minni hagsmunum. Og það hefur verið meginhlutverk utanrrh. og viðskrh. Íslendinga í slíkum samningum að tryggja það.
    Það er ánægjulegt til þess að vita að við náðum umtalsverðum árangri að því er varðar slíka samninga í tvíhliða viðræðum við ýmis viðskiptalönd. Ekki bara Bandaríkin og Kanada, þ.e. þau lönd sem við höfum ekki beinlínis fríverslunarsamninga við, heldur einnig Asíuríkin Japan, Suður-Kóreu, Malasíu og fleiri og ekki bara um sjávarafurðir heldur einnig iðnaðarvörur og tæknivörur sem markaður er fyrir hjá þessum þjóðum, bæði varðandi fiskveiðar og fiskvinnslu. Það er m.a. því að þakka, þeim árangri sem við höfum náð við að tryggja tollfrjálsan eða mjög lágan markaðsaðgang á Bandaríkjamarkaði í gegnum GATT, sem við höfum, náð þar fótfestu, náðum þar fótfestu snemma og höfum tryggt markaðshlutdeild okkar á Bandaríkjamarkaði. Mönnum væri hollt að hugsa til þess hvernig væri statt um íslensk lífskjör og um atvinnu Íslendinga og atvinnuþróun alla ef þetta hefði ekki tekist. Þegar við erum að vinna að þessum málum þá vantar ekki að við höfum uppi stór orð og harðsnúinn rökstuðning fyrr því að lítil þjóð, sem byggir alla afkomu sína á útflutningi og flytur lífskjör sín inn, þurfi fyrst og fremst og öllum öðrum fremur á því að halda að hafa greiðan aðgang að helstu viðskiptamörkuðum sínum, að þar séu ekki settir tollmúrar, að þar séu smáþjóðirnar ekki beittar bolabrögðum í viðskiptum með hvers kyns duldum viðskiptahindrunum. Við krefjumst þess að njóta bestu kjara þegar kemur að útflutningsmörkuðum okkar. Og ég bið hv. þm. að hugleiða hvernig væri statt um okkar hag ef við ættum að mæta sams konar viðhorfum, sams konar óbilgjarnri og einsýnni hagsmunavörslu einokunarkerfa eins og þetta frv. hér er dæmi um þegar kemur að samskiptum okkar við aðrar þjóðir. Þessi tvíhyggja, þessi tvöfeldni, er satt að segja blettur á stjórnmálaumræðunni á Íslandi í dag. Dæmi um óupplýsta umræðu og skaðlega vegna þess að það eru engar

þjóðir sem eiga eins mikið í húfi að vel takist til um snurðulausa framkvæmd GATT-samkomulagsins samkvæmt grundvallarreglum þess og smáþjóð sem er jafnháð utanríkisviðskiptum og við erum. Og það sæmir ekki slíkri þjóð að beita öllum hugsanlegum undanbrögðum og leita allra ráða til þess að beita áfram viðskiptahindrunum þótt við að sjálfsögðu reynum af fremsta megni að láta ekki hanka okkur á því að við stígum yfir strikið að því er varðar samningsskuldbindingarnar, sem ég vona í lengstu lög að sé þó þrátt fyrir allt virt, en hef reyndar bent á dæmi um að sé engan veginn tryggt, t.d. að því er varðar framkvæmdina á ríkjandi markaðsaðgangi.
    Annað mál er það, herra forseti, til þess að þetta sé sett í eitthvert samhengi, að í innlendri stjórnmálaumræðu eru fá orð sem koma jafnoft fyrir í orðræðum forustumanna stjórnmálaflokka eins og nauðsyn þess að varðveita stöðugleika á Íslandi, stöðugleika í íslensku atvinnulífi, stöðugleika að því er varðar gengi, starfsskilyrði atvinnuvega o.s.frv.
    Við horfðum upp á það á undanförnum vikum að það hefur verið efnt til verkfalla. Hver starfsstéttin á fætur annarri er að efna til verkfalla. Þar með er vissulega, þrátt fyrir almenna samkomulagið á vinnumarkaðinum, sem menn gerðu sér vonir um að hefði tryggt stöðugleika í upphafi nýs vaxtarskeiðs, álitamál um hvort verið er að stefna honum í tvísýnu eða ekki. Alla vega er það svo að þessar vinnudeilur eru til marks um að um sig hefur búið langvarandi óánægja með þau kjör sem almenningi á Íslandi eru búin, launakjör eða kaupmátt. Svar þeirra stjórnmálamanna sem boða stöðugleikann er að segja þetta: Í guðanna bænum, förum ekki kollsteypuleiðina sem við þekkjum frá fyrri tíð. Spennum ekki bogann of hátt. Látum ekki teyma okkur aftur inn í víxlhækkanaverðbólgu með hækkun kaupgjalds umfram það sem atvinnulífið þolir sem síðan leiðir til hækkaðs verðlags og síðan koll af kolli. Við erum búnir að taka út lexíuna af því hvað slíkt kerfi þýðir og þeir sem töpuðu alltaf á því voru launþegar. En ef menn meina eitthvað með þessu þá verða menn líka að svara þeirri spurningu launþega á móti: Hvað ætlið þið, herrar mínir, að gera til þess að afnema þau einokunarkerfi sem við búum við í allt of ríkum mæli, ekki bara að því er varðar landbúnað, landbúnaðarframleiðslu og vinnslu landbúnaðarafurða, heldur einnig í opinbera geiranum og reyndar í vaxandi mæli, eins og umræðan sýndi í dag, að því er varðar skipulag sjávarútvegsins? Hvað ætlið þið að gera til þess að almenningi á Íslandi bjóðist bætt lífskjör í formi lægra verðlags á lífsnauðsynjum? Eða íslenskum atvinnufyrirtækjum verði til frambúðar tryggð samkeppnisstaða í formi lækkandi tilkostnaðar við framleiðslu á þessum dvergsmáa heimamarkaði okkar?
    Þeir sem fara offari gegn hagsmunum neytenda að þessu leyti, taka ekki tillit til sjónarmiða þeirra, leita ekki samráðs við fulltrúa þeirra og leggja fram frv. eins og þetta sem eingöngu er sniðið samkvæmt ýtrustu hagsmunakröfum þeirra sem eru í forsvari fyrir þessu gjaldþrota einokunarkerfi landbúnaðarins eru ekki líklegir til þess að skapa þjóðarsátt um stöðugleika á Íslandi. Því miður.
    Ég verð að segja það, herra forseti, að ég óttast það þegar ég sé þau mál sem fram eru komin af hálfu núv. ríkisstjórnar á þessu vorþingi að hvert málið á fætur öðru ber þess merki að stjórnarherrarnir telji sig hafa efni á að sniðganga sjónarmið af þessu tagi. Það vantaði ekki að það var talað blíðlega við kjósendur fyrir kosningar um stöðugleika og nauðsyn þess að varðveita hann. Það vantaði ekki að menn sóru af sér fyrir kosningar að fyrir þeim vekti með nokkrum hætti að framkvæma GATT-samkomulagið þannig að það yrði beitt ofurtollum til þess að koma í veg fyrir innflutning og samkeppni. Nei, slíkt stóð alls ekki til. Og fyrir kosningar vantaði það ekki að talsmenn stjórnarflokkanna beggja segðu á framboðsfundum, ekki síst í sjávarplássunum vítt og breitt um landið, að þeir gætu ekki, vildu ekki og mundu ekki fallast á það að seinustu frjálsu sjómennirnir á Íslandi yrðu hnepptir í aflamarkskerfi á bát eða boðnir slíkir afarkostir ella að þessi útgerð legðist af. Það vantaði ekki háspennt loforð í húsnæðismálin. Efndirnar eru engar. Það vantaði ekki háspennt loforð gagnvart íslenskum námsmönnum, um endurskoðun á tilteknum grundvallaratriðum að því er varðar þá löggjöf en upplýst að þau mál eru ekki einu sinni á dagskrá eftir kosningar.
    Það er nefnilega kominn tími til að átta sig á því að þeir menn sem raunverulega boða stöðugleika og leggja áherslu á það að við verðum að viðhalda samkeppnishæfni, ekki bara okkar atvinnuvega heldur okkar þjóðfélags í samanburði við þjóðfélögin í kringum okkur verða að fara að verða sjálfum sér samkvæmir. Og í því að vera sjálfum sér samkvæmir felst að hafa skilning á sjónarmiðum neytenda um nauðsyn þess að bæta lífskjör með lækkun á tilkostnaði, með lækkun á verðlagi. Þá er kannski þess að vænta að fulltrúar launþegahreyfingarinnar og almennings í landinu, sem hefur farið í gegnum mikið þrengingarskeið á undanförnum árum, séu fúsari til þess að hlusta á talið um stöðugleika og taki meira mark á því vegna þess að þeir treysti því þá frekar að menn meini eitthvað með því sem þeir eru að segja og segi það sem þeir eru að meina.