Alþjóðaviðskiptastofnunin

20. fundur
Mánudaginn 12. júní 1995, kl. 20:31:47 (715)


[20:32]
     Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti 3. minni hluta efh.- og viðskn. á þskj. 80.
    Það er nú svo, herra forseti, að nú er rétt um hálfur mánuður þangað til hér á Íslandi eiga að taka gildi þau ákvæði Úrúgvæ-niðurstöðu GATT-samninganna sem um ræðir í frv. þessu eða nánar tiltekið 1. júlí nk. Þrátt fyrir það eru enn til meðhöndlunar á Alþingi mikilvægar lagabreytingar á tollalögum, búvörulögum og fleiri lögum sem nauðsynlegt er að gera til þess að við Íslendingar getum fyrir okkar leyti fullnægt ákvæðum samningsins sem við höfum hér gerst aðilar að og Alþingi hefur fyrir alllöngu síðan staðfest með þál. En það eru ekki bara lagabreytingar sem í raun og veru felast í þessu máli og verið er að gera heldur kannski miklu frekar pólitísk ákvarðanataka og stefnumótun sem lýtur að því með hvaða hætti við stöndum að okkar skuldbindingum og hvaða stefna verður hér mótuð varðandi það breytta starfsumhverfi landbúnaðarins sem samningarnir fela í sér.
    Það er auðvitað óþarfi að fjölyrða um það, hæstv. forseti, hversu ákaflega bagalegt það er og í raun og veru fyrir neðan allar hellar að þessar breytingar skuli vera hér á ferðinni eins og ég segi rétt liðlega hálfum mánuði áður en samningurinn á að koma til framkvæmda og það við þær aðstæður að hér er afar knappur tími til að fjalla um málið. Þetta skýrist að vísu af því að stjórnarskipti hér féllu saman við þann tíma þegar menn við eðlilegar aðstæður hefðu verið að undirbúa framkvæmd samningsins. Fyrri ríkisstjórn, ríkisstjórn Alþfl. og Sjálfstfl., var í raun og veru óstarfhæf í þessum málum. Það kom ítrekað fram á síðasta kjörtímabili og núv. hæstv. ríkisstjórn er á handahlaupum að plastra hér saman einhverri stefnu og gera nauðsynlegar lagabreytingar til þess að við getum efnt samninginn. Öll þessi vinnubrögð er óhjákvæmilegt að gagnrýna og átelja og ég leyfi mér því miður að spá því að það muni koma á daginn að hér hafi ekki verið vandað til hlutanna eins og nauðsynlegt væri og það sé ekki ólíklegt að menn verði að taka meira og minna upp þessa lagasetningu á næstu missirum af því að ýmsir meinbugir komu í ljós á framkvæmdinni.

    Ég held að fyrst sé ástæða til að hafa nokkur orð um það umhverfi sem þessi samningur er í og þá á ég sérstaklega við varðandi starfsumhverfi íslensks landbúnaðar. Það er jú svo að þetta mikla ferli sem hófst fyrir 9 árum síðan hefur fallið saman við mikinn breytingatíma í íslenskum landbúnaði og sérstaklega er það auðvitað sú grundvallarbreyting sem gerð var á starfsumhverfi greinarinnar með búvörusamningnum 1991. Þá var horfið frá greiðslu útflutningsuppbóta sem verið höfðu við lýði hér um áratuga skeið og kostað mikla fjármuni, einkum hin síðari ár eftir að útflutningsmarkaðir þróuðust þannig að einungis brot af framleiðslukostnaðarverði fékkst fyrir útflutninginn. Það var í öðru lagi dregið verulega úr framleiðslunni sem var umfram innanlandsþarfir og með því náðist mikill árangur í að draga úr útgjöldum ríkissjóðs til þessa málaflokks.
    Þetta tvennt eru einmitt tveir af meginþáttum GATT-samninganna, en það má segja að þær skuldbindingar sem aðildarlöndin taka á sig séu þríþættar fyrst og fremst, þ.e. þetta sem varðar útflutningsstyrki, það er innanlandsstuðningur og það er aukinn markaðsaðgangur fyrir innfluttar vörur. Hvað þetta tvennt fyrrnefnda varðar þá liggur það ósköp einfaldlega fyrir að Íslendingar hafa þegar sjálfir einhliða gert meira en nóg til að uppfylla ákvæði samninganna sem gera ráð fyrir því að dregið sé úr útflutningsuppbótum og innanlandsstuðningi með tilteknum hætti um ein 30% eða svo samkvæmt tilteknum skilgreiningum og miðað við stuðninginn eins og hann var á viðmiðunartímanum árin 1986 og 1988. Þar höfðum við auðvitað gert miklu meira, samanber það að við höfðum í raun dregið alveg 100% eða óendanlega úr útflutningsuppbótum, við höfðum lagt þær af og innanlandsstuðningur við greinina hefur dregist mun meira saman en þessi viðmiðun felur í sér.
    Þá er komið að þriðja þættinum og það er hann sem hér er sérstaklega til meðferðar, þ.e. aukinn markaðsaðgangur innfluttrar vöru á þá markaði sem áður höfðu verið verndaðir eða lokaðir. Grundvallarbreyting GATT-samninganna eins og margoft hefur hér komið fram felst í því að í stað innflutningsbanna eða heimilda til að banna kemur tollvernd og sú almenna regla að innflutningur sé að öðru leyti heimill.
    Þá er á það að líta hvernig þetta frv. gerir ráð fyrir að við Íslendingar stöndum við okkar hlut hvað þessa meginbreytingu snertir. Það má segja að að þessu leyti til togist á tvenns konar sjónarmið í málinu, þ.e. annars vegar þau sem eðlilega rísa varðandi það að nauðsynlegt sé að tryggja innlendri framleiðslu og þeirri atvinnugrein sem í landinu er á hennar grundvelli aðlögun og nauðsynlega vernd til þess að hún líði ekki undir lok vegna samkeppni við innflutta vöru á lægra verði. Hins vegar þau sjónarmið sem snúa að því að neytendur fái í sinn hlut ávinning í formi lækkaðs matvælaverðs og aukins vöruúrvals. Ég hygg að engin deila standi um það að eftir sem áður er ætlunin að viðhalda hér ströngum hollustu- og heilbrigðiskröfum og tryggja það að gæði þeirrar matvöru sem hér er á boðstólum séu og verði fyrsta flokks.
    Þær aðferðir sem valdar eru í frv. ríkisstjórnarinnar orka að sumu leyti tvímælis og þó einkum og sér í lagi held ég að deila megi um hinar reikningslegu forsendur sem lagðar eru til grundvallar ákvörðun tollverndar. Að sjálfsögðu er það svo að sjálft verndunarstigið, sjálfir tollarnir, geta endalaust verið mönnum deiluefni og örugglega enginn endanlegur og einn sannleikur til í því máli. En heppilegt væri í öllu falli að menn deildu ekki um mikilvægustu undirstöður og grundvallarforsendur málsins og það er kannski það sem er einna lakast hér að um það eru deilur hverjir verði í reynd tollarnir og það eru kannski einkum og sér í lagi misvísandi upplýsingar um innkaupsverð eða heimsmarkaðsverð sem þar kemur til.
    Ég hygg að flestir geti verið sammála um það og það er a.m.k. skoðun 3. minni hluta og okkar þingflokks, að það sé ekki nema sanngjarnt og eðlilegt að farið sé gætilega gagnvart upphafsákvörðun tollverndarinnar þar sem í hlut á almenni vöruinnflutningurinn, þ.e. það almenna frelsi með viðskipti á þessu sviði sem ekki er sérstaklega bundið við lágmarksmarkaðsaðgang eða ríkjandi markaðsaðgang, að þarna sé ekki óeðlilegt að byrjað sé með upphafstollum sem tryggi allverulega vernd, enda um mikla breytingu að ræða frá því fyrirkomulagi sem áður ríkti. Gegnum lágmarksmarkaðsaðganginn og ríkjandi markaðsaðgang er hins vegar ætlunin að ná því fram að vöruúrval aukist og möguleikar neytenda til að fá hér fjölbreyttari vöru og að einhverju leyti á lægra verði komi til sögunnar. Þá kemur hins vegar að því sem er langmesta álitamál í þessu sambandi og það er verðlagningin eða tollunin á þeim þætti.
    Um heilbrigðis- og hollustuþáttinn vil ég segja það að um það getur sömuleiðis tæplega verið deila, að ekki verði á nokkurn hátt gerðar minni kröfur til hollustu og heilnæmi þeirrar vöru sem leyft verði að flytja til landsins en gerðar eru til innlendrar framleiðslu. Í því sambandi flytur meiri hlutinn brtt. sem er væntanlega að einhverju leyti eða beinlínis tilkomin vegna ábendinga úr landbn. þar sem ráðherra eru færðar sérstaklega heimildir til að beita innflutningstakmörkunum ef gefin hafa verið vaxtaaukandi efni á framleiðsluskeiðinu, svonefndir hormónar, eða varan felur í sér lyfjaleifar eða önnur aðskotaefni umfram það sem leyft er við framleiðslu hér á landi og getur verið hættulegt heilsu manna. Með þeim rökum sem áður sagði sýnist þessi brtt. eðlileg. Það hlýtur að vera sanngjörn krafa að í engu verði gerðar minni kröfur til hinnar innfluttu matvöru en gerðar eru til framleiðslunnar hér.
    Á hinn bóginn er ljóst að það er ekki heimilt samkvæmt samningunum, það er grundvallarregla, að beita slíkum eðlilegum heimildum til varnar heilbrigði manna og dýra í tæknilegar viðskiptahindranir og þar á milli verður að draga skýr mörk. Það verða með öðrum orðum að standa skynsamleg rök fyrir þeim ákvörðunum sem teknar eru hverju sinni í þessu samhengi.
    Um garðyrkjuna hefur nokkuð verið rætt og þegar athugaðar eru töflur sem máli þessu fylgja varðandi tollunarstig eða tollunargildi þeirra ákvarðana sem hér eru á ferðinni í tilheyrandi viðaukum þá virðist næsta ljóst að garðyrkjan er sú grein landbúnaðarins sem hlutfallslega minnstrar verndar nýtur. Kemur þar til viðbótar að garðyrkjubændur búa við innflutning hluta úr árinu á mörgum mikilvægum framleiðsluvörum sínum á grundvelli landbúnaðarviðauka EES-samningsins, en þar er eins og kunnugt er opnað fyrir umtalsverðan tollfrjálsan innflutning á nokkrum tegundum garðyrkjuafurða hluta úr árinu. En það kemur einnig til að garðyrkjan er í nokkurri sérstöðu hvað það snertir að hún hefur á undanförnum árum verið að auka stórlega hlutdeild sína á innlendum markaði og lengja framleiðslutímann. Þetta hefur gerst í gegnum tækninýjungar og umtalsverðar fjárfestingar sem menn hafa lagt í í greininni. Innflutningur var því meiri á þessum tegundum á viðmiðunartímanum en verið hefur upp á síðkastið. Þetta þýðir einfaldlega að ákvæði um ríkjandi markaðsaðgang koma verr við þessa grein heldur en aðrar. Það er því alveg ljóst, herra forseti, að það er ástæða til þess að huga sérstaklega að stöðu garðyrkjunnar og fylgjast með því hvernig henni reiðir af í þessu sambandi, í þessu nýja umhverfi. Í því sambandi geta stjórnvöld auðvitað gripið til ýmissa aðgerða sem heimilar eru gagnvart starfsgrundvelli og samkeppnisskilyrðum greinarinnar til þess að tryggja að hún fái staðist þessa samkeppni. Þar koma fleiri aðgerðir til greina og er fleira mögulegt heldur en það eitt að veita henni tollvernd gagnvart innflutningi. Það er líka hægt að bæta samkeppnisstöðu hennar innan lands með ýmsum aðferðum sem ekki mundu á nokkurn hátt brjóta í bága við okkar skuldbindingar að þessu leyti.
    Þá vil ég víkja aðeins að þeim efnisþætti málsins sem snýr að lágmarksmarkaðsaðgangi, þeirri málamiðlun sem varð að lokum í GATT-samningaferlinu, að til viðbótar því að breyta um kerfi og færa verndina úr beinum innflutningsbönnum og hindrunum yfir í tollígildi þá kom sú viðbót að tiltekinn lítill markaðsaðgangur yrði gerður mögulegur fyrir innfluttar vörur inn á hina lokuðu markaði á grundvelli lægri tolla en ella giltu. Um þennan þátt var lengi togast á í samningaviðræðunum eins og kunnugt er og þráttað fram og til baka um prósentur. Þarna byrjuðu menn að ræða markaðsaðgang upp á 1--2%, en niðurstaðan varð þessi: 3% í upphafi, síðan hækkandi í 5% á tilteknu tímabili.
    Um þennan þátt málsins, varðandi framkvæmdina hér innan lands og efni þessa frv., hefur langmest verið deilt. Það er sömuleiðis þannig að þar ríkir kannski mest óvissa um það hvaða áhrif samþykkt frumvarpanna hafi í för með sér eða jafnvel hvort um einhver áhrif verði að ræða, þ.e. hvort til sögunnar komi á grundvelli þeirra tolla sem þarna eru lagðir til einhver umtalsverður innflutningur eða ekki. Það virðist ljóst af töflum sem fylgja frv. og síðan öðrum gögnum sem efh.- og viðskn. hafa borist frá ýmsum aðilum, svo sem heildsölum og Neytendasamtökum, að flestar vörur muni verða a.m.k. jafndýrar og í mörgum tilfellum dýrari en innlenda framleiðslan er, þ.e. hinn svonefndi lágmarksmarkaðsaðgangur verði hér ekki í boði í verslunum á lægra verði í neinum mæli. Út af fyrir sig má greina á milli þess hvort það hafi verið eðlilegt í sjálfu sér og hins að varan keppti á sambærilegu verði og þá á grundvelli gæða og fjölbreytni. Hitt er væntanlega ljóst að það eru ekki líkur til þess að um mikinn innflutning verði að ræða á tegundum sem liggja þarna langt fyrir ofan í verði. Um þennan þátt málsins ríkir því væntanlega veruleg óvissa, þ.e. hvaða áhugi verður í reynd á því að flytja inn á þessum kjörum og jafnvel þó að það verði reynt af einhverjum, í hve miklum mæli sú vara þá hreinlega selst á innlendum markaði. Það er mat manna að fyrst og fremst muni þessa sjá stað í formi aukins framboðs og aukinnar fjölbreytni í ýmsum lúxusvörum, dýrasta hluta neysluvörunnar. Þar gæti maður hugsað sér dýra og sjaldgæfa osta og annað því um líkt. Einhver sala í slíkum vörum mun þá að sjálfsögðu telja upp í þann lágmarksmarkaðsaðgang sem þarna er á ferðinni, en það er ólíklegt að það verði í þvílíku magni að mikið dragi um það.
    Það er að vísu svo samkvæmt því sem ræðumaður hefur helst komist að niðurstöðu um, að skuldbindingar okkar gagnvart þessum ætti málsins snúa í sjálfu sér ekki að því að stjórnvöldum hvers lands sé gert að tryggja að viðkomandi markaðshlutdeild náist, það er í sjálfu sér ekki skylda íslenskra stjórnvalda að sjá til þess með góðu eða illu að tiltekin 3 eða 5% af vöru seljist hér á innlendum markaði. En það er skylda þeirra að bjóða upp á tiltekin hagstæðari viðskiptakjör eða verð með þessa vöru sem gerir það væntanlega að verkum að einhverjir möguleikar séu á því að þetta magn seljist. Væntanlega snúa umræður sem kynnu að rísa í kjölfar þess að ekki yrði um sölu í þessu magni að ræða hér frekar að því hvort með því sé verið að brjóta gegn anda samkomulagsins heldur en hinu að í því felist beinlínis brot á samningsskuldbindingum svo fremi sem það verð sem sett verður á þennan lágmarksmarkaðsaðgang af okkar hálfu samrýmist tilboðinu sem gert var og sé ekki hærra en lögfestar tollabindingar eru að þessu leyti. Komi það hins vegar í ljós að þær séu þannig að af umtalsverðri sölu verði ekki þá mun væntanlega rísa sú umræða sem ég nefndi hér, hvort í því felist brot gegn anda samninganna og enginn vafi er auðvitað á því að á það verður knúið af ýmsum aðilum, innflytjendum og jafnvel innlendum aðilum, að þessi markmið náist.
    Og það er væntanlega vegna þeirrar gagnrýni sem fram hefur komið á þennan þátt málsins að í brtt. meiri hlutans er að finna ákvæði sem að þessu lýtur sérstaklega og er þar á ferðinni b-liður 5. tölul. brtt. á þskj. 70, en þar er lagt til að við 20. gr. laganna væntanlega bætist ný málsgrein sem verði 3. efnismgr. og hljóði svo, með leyfi forseta:
    ,,Við úthlutun tollkvóta`` --- hér er átt við þá tollkvóta sem unnt er að grípa til til að tryggja viðbótarinnflutning á lægri tollgildum heldur en gilda almennt --- ,,hefur ráðherra hliðsjón af því hvort nægilegt framboð af viðkomandi vörum á hæfilegu verði er til staðar og hvort innflutningsmagn í tollkvótum IIIA og IIIB hafi náð þeim mörkum sem þar eru sett.``
    Það er að segja, þar er komið að hinum svonefnda lágmarksaðgangi og með þessu er í raun og

veru skilyrt eða a.m.k. sett inn sú leiðbeining varðandi meðferð landbrh. á þessum heimildum að þar er vísað gagngert í þennan lágmarksmarkaðsaðgang.
    Nú væri fróðlegt að fá það nákvæmlega útskýrt af hálfu hæstv. ríkisstjórnar og hæstv. landbrh. og talsmanna meiri hlutans í þessum efnum, hvernig nákvæmlega það samkomulag er sem liggur að baki flutningi þessarar brtt. Ég hlýt að óska eftir athygli hæstv. landbrh. og gjarnan hefði nú fleiri hæstv. ráðherrar mátt vera þarna með, því að þetta skiptir miklu máli. Liggur á bak við sú niðurstaða hæstv. ríkisstjórnar að hún hafi ákveðið að móta þá pólitísku stefnu að til þessa innflutnings skuli koma og að ætlunin sé beinlínis að beita þessum heimildum þannig eða hvaða stefnumótun er þarna á bak við orðalag þessarar brtt. Það skiptir að sjálfsögðu máli. Ég vísa aftur til þess sem ég áðan sagði að væntanlega er það ekki svo að við séum beinlínis samningsbundin til þess að tryggja þetta magn, að það seljist, heldur tryggja þarna ákveðin viðskiptakjör, þannig að það getur verið pólitískt matsatriði, pólitískt ákvörðunaratriði, hvaða stefnu íslensk stjórnvöld ætla að hafa uppi gagnvart framkvæmdinni að þessu leyti. Er það þeirra afstaða að láta þetta ráðast á grundvelli þeirra viðskiptakjara sem sett eru upp í frv. og sjá svo til í einhver ár hvort það seljist 0,5%, 1% eða 3%? Eða er með þessari heimild, sem hér á að setja inn, ætlunin að afla verkfæris til þess að leitast við að tryggja að af þessum lágmarksmarkaðsaðgangi verði? Ég held að það megi auðvitað velta því fyrir sér hvort sé hyggilegri stefna af okkar hálfu að í raun og veru tryggja það fyrir fram að ekki komi til klögumála eða deilna um það að við séum að vanefna okkar skuldbindingar að þessu leyti með því að reisa í reynd það háa tollmúra gagnvart þessum hluta einnig að ekki komi einu sinni til þessa lágmarksmarkaðsaðgangs. Við teljum í öllu falli eðlilegt að svona heimild sé höfð til staðar í ljósi þeirrar óvissu sem ríkir einnig um þetta þannig að það er afstaða okkar að styðja þessa brtt., b-lið 5. tölul., en með þeim fyrirvara þó að gjarnan mætti liggja ljósar fyrir og skýrar hvað hæstv. ríkisstjórn ætlar sér með hana, hvaða stefna liggur þar til grundvallar að meiri hlutinn hefur ákveðið að setja þetta inn í brtt. sínar.
    Hins vegar varðandi tollunarstigið á lágmarksmarkaðsaðganginum, þ.e. þá aðferð sem hér er valin að halda sig við 32% af viðmiðunartollinum eða grundvallartollinum eins og hann kemur fram í viðaukum II, grunntaxtanum sem þar er á ferðinni, þá sýnist nú sitt hverjum um þann þátt. Það er alveg ljóst að í sumum tilvikum þýðir þetta allverulega hærri verð en hér viðgangast á erlendum markaði, í öðrum tilvikum lítið eitt hærri eða hugsanlega svipuð en í fæstum ef nokkrum tilvikum lægri. Ef innkaupsverð verða í hærri kantinum miðað við þær tölur sem komið hafa fram, þá á ég ekki við það sem útreikningarnir byggja á heldur upplýsingar sem hafa t.d. fengist frá heildsölum á undanförnum dögum, er ljóst að þetta verð getur farið upp fyrir öll þau verð sem hér viðgangast á innlendum markaði. Þá hljóta óumdeilanlega að vakna miklar spurningar um hvort við séum á réttri leið hvað framkvæmdina snertir að þessu leyti.
    Það er því niðurstaða okkar að við treystum okkur ekki til að bera ábyrgð á þeirri stefnumótun sem þarna er á ferðinni þó að við höfum stutt aðild að samningunum að öðru leyti og studdum staðfestingartillögu eða frv. á sínum tíma sem og styðjum við það að við fullnægjum skuldbindingum okkar að þessu leyti. En hvað þennan þátt málsins varðar teljum við einfaldlega forsendur of óljósar og of mikla óvissu samfara þeim útreikningum sem þarna eru á ferðinni þannig að við munum ekki greiða þeim ákvæðum frv. atkvæði sem lúta að tollunargildi á lágmarksmarkaðsaðgangi.
    Herra forseti. Sama má að mörgu leyti segja um þá vandræðalegu tilhögun sem viðhafa á gagnvart því að ráðstafa leyfum til innflutnings á þeim vörum sem falla undir ákvæði um lágmarksmarkaðsaðgang. Auðvitað er alveg ljóst að þetta fyrirkomulag er allt hið afbrigðilegasta og hlýtur auðvitað að vera keppikefli í sjálfu sér eins og ég lét koma fram við 2. umr. að koma svona bjöguðum viðskiptaháttum ef svo má að orði komast út úr heiminum þannig að innflutningurinn sé á almennum forsendum og einhverjar almennar samkeppnis- og verðlagningarreglur gildi. Þetta getur aldrei talist annað en tiltölulega mjög afbrigðilegur þáttur í viðskiptum að skylda ríkið til að taka inn á sinn markað eitthvert tiltekið lítið magn af vörum sem lúti allt öðrum reglum en almennt gerist um innflutning og bæti nú gráu ofan á svart þegar svo af þessum ástæðum að um einhvers konar skömmtun hlýtur þá að verða að ræða þarf að grípa til aðferða af því tagi sem frv. gerir ráð fyrir, þ.e. að kasta upp teningum og viðhafa hlutkesti til að velja úr hópi umsækjenda um innflutningsleyfi. Þarna hefðu ýmsar fleiri aðgerðir komið til greina og hefði mátt velta því fyrir sér hvort ekki hefði verið eðlilegra að velja einfaldlega með rökstuðningi tiltekna aðila sem eðlilegt teldist að önnuðust þennan innflutning. Þar hefði maður að sjálfsögðu getað hugsað sér að aðilar sem eru í vinnslu og verslun með vörur af þessu tagi hefðu getað sótt um og með einhverjum rökstuðningi eða reglum sem um það hefðu verið mótaðar hefðu þeir aðilar verið valdir úr sem eðlilegt hefði talist að fengju þessi leyfi og önnuðust innflutninginn. Að sjálfsögðu hefði orðið við slíkt val að tryggja að um fullnægjandi samkeppni yrði að ræða og fleiri en einn og fleiri en tveir aðilar gætu stundað slíkan innflutning. Á það hefur verið bent að með því að til að mynda aðilar, sem annast sjálfir vinnslu á sambærilegum vörum innan lands eða eru í sölu á slíkum vörum, fengju jafnframt innflutningsleyfin, kynnu að opnast möguleikar til gagnkvæmra viðskipta. Sömu aðilar hefðu þá getað nýtt sér þau viðskiptasambönd til að koma framleiðslu sinni á markað erlendis á móti í gegnum slík gagnkvæmnissambönd við erlenda framleiðendur eða erlenda söluaðila. Með þessum aðferðum tapast allir slíkir möguleikar til að nýta okkur þó a.m.k. í einhverjum mæli möguleika til gagnkvæmni í þessum viðskiptum og það er einn þáttur sem menn hefðu átt að hyggja að áður en farið var út í þessa aðferð um teningakastið.

    Sú hugmynd hefur líka komið fram að hreinlega ætti að bjóða þessar heimildir einhvern veginn út og það er sömuleiðis aðferð sem vel hefði mátt athuga. Við munum ekki að heldur greiða atkvæði með þessu fyrirkomulagi. Enda þótt ljóst sé að þetta þurfi að leysa með einhverjum hætti held ég að þeir sem stjórna framkvæmdinni verði að bera þann kaleik sjálfir að ákveða hvernig staðið verði að þessu.
    Það er ljóst, herra forseti, að ekkert kemur til greina að okkar mati annað en að Íslendingar gerist aðilar að þessu alþjóðlega viðskiptaferli og Alþb. og þingflokkur þess hefur stutt það að við yrðum aðilar að Alþjóðaviðskiptastofnuninni og tækjum þátt í þessari lotu eða þessari niðurstöðu í GATT-ferlinu. Að sjálfsögðu á þá það sama við um þetta frv. að tæplega getur orðið um það nein deila að nauðsynlegt er fyrir okkur að uppfylla samningsskuldbindingar okkar sem við höfum undirgengist. Vissulega má deila um margt í framkvæmdinni en það hlýtur að orka mjög tvímælis að standa gegn því að lokum þó að sitt sýnist hverjum um útfærsluna að standa gegn því að lokum að frumvörp verði hér afgreidd til staðfestingar á þessum skuldbindingum okkar samkvæmt samningunum. Ég hygg að ekki sé nein deila um að lögfestingin eins og hún er hér úr garði gerð felur í sér fullnægingu á samningsskuldbindingum okkar. Það hef ég í raun engan heyrt halda fram nema þá helst hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson í einu tilviki, þ.e. varðandi óbreyttan markaðsaðgang, geti verið um einhverja sveigju á sjálfum samningsforsendunum að ræða en að öðru leyti er hér á ferðinni að lögfesta samningstilboð okkar eins og það var samþykkt og binda í lög hámarkstollabindingarnar sem þak og sem aldrei verður upp úr farið. Að því leyti til held ég að það geti ekki orkað tvímælis að við erum að fullnægja samningsskuldbindingunum og getum þar með gerst aðilar að samningnum og látið hann ganga í gildi á tilsettum tíma 1. júlí nk.
    Spurningin er fyrst og fremst hvernig að því er staðið að festa þetta í sessi. Þar hlýtur verkefnið að vera eins og allir menn sjá að leita einhverrar sanngjarnrar málamiðlunar milli ólíkra sjónarmiða og sumir vilja meina andstæðra hagsmuna þó að það sé ekki endilega víst að svo sé þegar upp er staðið, þ.e. annars vegar að tryggja innlendri framleiðslu og úrvinnslu eðlilegan aðlögunartíma að þessum breytingum og samkeppnisskilyrði gagnvart í mörgum tilvikum niðurgreiddri og ríkisstyrktri framleiðslu erlendis. Hins vegar að ávinningur neytenda verði nokkur af þessum breytingum í formi aukins vöruúrvals og lækkandi matvælaverðs á komandi árum. Í því sambandi er rétt að hafa í huga að okkur hefur orðið þó nokkuð ágengt í þeim efnum innan lands. Mikill árangur hefur náðst í því að lækka tilkostnað fyrir þjóðarbúið vegna landbúnaðarframleiðslunnar og það hefur náðst verulegur árangur í lækkun matvælaverðs innan lands á undanförnum árum. Á sama tíma og matvælaverð umhverfis okkur hefur farið hækkandi og upplýsingar sem efh.- og viðskn. hefur fengið benda m.a. til að þar hafi þróunin verið hröð undanfarna mánuði, matvælaverð almennt sé á nokkuð hraðri uppleið erlendis samanber að tölur sem Neytendasamtökin hafa notast við í útreikningum sínum og eru nokkurra mánaða gamlar virðast þegar þær eru bornar saman við nýjustu tölur frá heildsölum, sem komu fyrir efh.- og viðskn., vera orðnar úreltar og í þá áttina að matvælaverðið eða innkaupsverðið erlendis hafi hækkað talsvert á þeim stutta tíma. Það ætti að þýða að enn sé að draga saman með matvælaverði á Íslandi og því sem raunhæft er að ætla að fáist í innkaupum frá nágrannalöndunum. Sú þróun að þarna minnki bilið ætti að gera okkur auðveldara að ganga í gegnum þessar breytingar ef rétt verður á málum haldið.
    Herra forseti. Eins og ég hef gert grein fyrir er margt óljóst í sambandi við reikningslegar forsendur málsins hvað varðar raunverulegt verð eða innkaupsverð á væntanlegum innflutningi erlendis frá og þar með einnig hversu mikil sú tollvernd er sem verið er að setja upp í einstökum tilvikum og skiptir þar alveg sérstaklega sköpum hver verður raunverulega niðurstaðan gagnvart verðlagningunni á lágmarksmarkaðsaðgangi. Með hliðsjón af því er það skoðun okkar, sem standa að áliti 3. minni hluta, að eðlilegt sé að farið verði yfir þetta mál í heild sinni í ljósi reynslunnar að hæfilegum tíma liðnum. Það mætti hugsa sér að eftir 1--2 ár yrði farið í gagngera endurskoðun á því hvernig til hefði tekist, hvert raunverulegt innkaupsverð á innflutningsvörum væri þá erlendis frá og hver tollverndin hefði orðið í ljósi þess. Ég minni á að hér er að sjálfsögðu allt byggt á heimildarákvæðum. Við höfum það sjálf í okkar höndum að breyta þeim ákvörðunum hvenær sem mönnum sýnist svo, a.m.k. til lækkunar þó að hin leiðin kynni að reynast torsótt að breyta til hækkunar tollum sem einu sinni hefðu verið settir á. Við boðum því í nefndaráliti á þskj. 80, í lok þess sem ég er hér að gera grein fyrir, að við munum flytja brtt. um endurskoðunarákvæði í þessa veru við 3. umr. málsins í ljósi þess einnig hvernig afgreiðsla brtt. hefur farið.
    Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa um þetta öllu fleiri orð. Ég held að öllum sé ljóst að við hljótum að þurfa að ljúka afgreiðslu málsins áður en þingið fer heim þannig að við getum fullnægt samningsskuldbindingum okkar að þessu leyti. Við styðjum sum ákvæði þessa frv. en önnur ekki eftir því hvernig útfærslan á þeim hefur til tekist og sama á við um brtt. sem hér eru fram komnar aðrar frá 1. og 2. minni hluta. Þar getum við stutt ýmis ákvæði sem eru á ferðinni en önnur ekki. Ég tel til að mynda að í 1. tölul. brtt. 2. minni hluta sé farið offari gagnvart því að lækka tolla á lágmarksmarkaðsaðgangi um helming. Slíkt mundi væntanlega leiða til þess að sú vara yrði á mun lægra verði í mörgum tilvikum, til mikilla muna lægra verði en innlend framleiðsla og hlyti að valda meira ójafnvægi en ella. Þar með er líka farið langt undir þær samningsskuldbindingar sem við höfum og það tilboð sem var samþykkt af Íslands hálfu og við sjáum nú ekki standa að mér sýnist rök til þess að ganga svo langt í upphafsskrefinu.
    Enn er ástæða til þess að undirstrika að þessa hluti er hægt að endurskoða og þeim er hægt að

breyta raunar hvenær sem er í ljósi þess hver verður hin raunverulega niðurstaða og sjálfsagt er það svo að að lokum geti ekkert nema reynslan endanlega sýnt fram á það hvert verður hið endanlega verð.
    Ég hygg að það verði ýmsum lærdómsríkt sem hafa á undanförnum árum blandað sér í umræður um mismunandi matvælaverð, annars vegar hér á Íslandi og hins vegar úti í löndum, að átta sig á því sem flestir eru nú farnir að viðurkenna að í reynd er ekkert til sem heitir heimsmarkaðsverð á þessum vörum og þau mjög svo lágu verð sem hafa stundum verið notuð til samanburðar og í útreikningum milli innlends vöruverðs og erlends láta á sér standa þegar heildsalar koma með upplýsingar um hvaða raunverulega innkaupsverð á búvörum þeim standi til boða erlendis frá. Þar eru á ferðinni til muna hærri verð en stundum hafa verið nefnd í umræðunni og notuð til samanburðar hér. Að vísu er rétt að hafa í huga að viðurkennt er að verðþróunin hefur verið upp á við en það skyldi nú ekki vera svo að að hluta til hafi umræðan verið á röngum forsendum og eins og stundum er að grasið sé grænna hinum megin við girðinguna þegar menn horfa á það úr fjarlægð en það eigi eftir að koma á daginn að jafnódýrar matvörur erlendis og stundum hefur verið haldið fram að okkur stæði til boða reynast ekki auðfundnar, að minnsta kosti ef þær eiga að vera sambærilegar að gæðum og framleiðsla okkar er.