Endurskoðun viðskiptabanns á Írak

20. fundur
Mánudaginn 12. júní 1995, kl. 21:54:15 (719)


[21:54]
     Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um endurskoðun viðskiptabanns á Írak. Þetta er þskj. 19 og flutningsmenn ásamt mér eru hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir, Kristín Ástgeirsdóttir og Össur Skarphéðinsson. Tillgr. er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að beita sér á alþjóðavettvangi fyrir því að viðskiptabannið á Írak verði tafarlaust tekið til endurskoðunar. Einnig verði mótuð sú stefna að viðskiptahindrunum verði aldrei beitt við þær aðstæður eða þannig að almenningur, ekki síst börn, líði beinan skort af þeim sökum.``
    Tilefni þessarar tillögu er kunnugt. Það er kunnara en frá þurfi að segja að almenningur, a.m.k. verulegur hluti almennings í Írak, býr nú við hinar hörmulegustu aðstæður og athygli umheimsins hefur í vaxandi mæli dregist að því ástandi.
    Nú er það óumdeilt að ráðstafanir stjórnmálalegs og viðskiptalegs eðlis geta skilað og hafa iðulega skilað miklum árangri í alþjóðastjórnmálum og tillöguna ber alls ekki að skoða sem svo að hún leggist gegn slíkum aðgerðum. Þvert á móti ber auðvitað jafnan að leita friðsamlegra aðferða við lausn deilumála, þ.e. nota allar aðrar aðferðir en beitingu vopnavalds fyrst. Sem dæmi um mikinn árangur slíkra viðskiptalegra og pólitískra aðgerða og pólitískrar einangrunar má nefna þátt þeirra hluta í afnámi hinnar illræmdu aðskilnaðarstefnu í Suður-Afríku. Aðgerðir á viðskiptasviðinu, svo sem vopnasölubann eða ákvarðanir um viðskiptakjör, hafa iðulega reynst áhrifaríkar, en hitt er staðreynd að aukin umræða er nú orðin um það að nauðsynlegt sé að beiting slíkra aðgerða verði þó ávallt að samræmast viðurkenndum mannúðarsjónarmiðum. Menn mega ekki ganga svo langt í þeim tilgangi að ná einu markmiði fram að aðrar reglur séu þverbrotnar. Hörmulegar afleiðingar viðskiptabannsins á Írak og sú staðreynd að Saddam Hussein er þar einn við völd sýna að þörf er á að taka meðferð slíkra aðgerða eða ráðstafana í alþjóðasamskiptum til endurskoðunar.
    Fljótlega eftir að Flóastríðinu lauk fóru að koma fram skelfilegar upplýsingar um ástand mála í Írak. Ljóst er að lífskjör þar eru afar bágborin og aðstæður alls þorra almennings hörmulegar. Fer þar allt saman, langvarandi vígbúnaðarkapphlaup, harðstjórn, óstjórn og styrjaldarrekstur, fyrst í langvinnu stríði við Íran og síðan í Flóastríðinu. Að lokum hefur svo hið alþjóðlega viðskiptabann leitt til vöruskorts og efnahagshruns í landinu.
    Fórnarlömb þessa ástands eru því miður ekki valdhafar, því að harðstjórn landsins virðist fastari í sessi en nokkru sinni, það er almenningur og ekki síst börn. Viðskiptabannið er því ekki að skila neinum sýnilegum árangri varðandi það að knésetja harðstjórn Saddams Husseins eða knýja íröksk stjórnvöld til að bæta framferði sitt. Írakar þverskallast enn við að veita fullnægjandi upplýsingar um kjarnorku- og eiturefnaumsvif sín, eins og kunnugt er. En afleiðingar viðskiptabannsins eru fyrst og fremst enn sem komið er ólýsanlegar hörmungar almennings, vöruskortur og hungursneyð. Algjör skortur er á lyfjum og læknishjálp og það hlýtur að koma að því að hið alþjóðlega samfélag geti ekki horft upp á slíkt ástand sem jafna má við það versta sem þekkist í nokkrum ríkjum, hvað þá heldur borið ábyrgð á því með viðskiptabanni.
    Hvað okkur Íslendinga varðar þá var ákvörðun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um viðskiptabann fullgilt með auglýsingu frá utanrrn. Sú sem nú er í gildi er dags. 28. apríl 1992 og er birt sem fskj. I með þáltill. þessari. Það er því alveg ljóst að við berum fulla ábyrgð á þessu ástandi til jafns við aðra. Þó að Íslendingar eigi að sjálfsögðu ekki fulltrúa í öryggisráðinu og hafi ekki tekið þar, á þeim vettvangi, þátt í efnislegri afgreiðslu málsins þá höfum við fullgilt þær ákvarðanir með auglýsingum á heimavettvangi.
    Sem fskj. með þessari tillögu fylgja, eins og áður sagði, áðurnefnd auglýsing um ráðstafanir til að framfylgja ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 661/1990 og einnig blaðagreinar úr Morgunblaðinu eftir Jóhönnu Kristjónsdóttur blaðamann þar sem er að finna nýlegar og hrollvekjandi upplýsingar um ástand mála í Írak, en höfundur hefur kynnst því af eigin raun og verið þar á ferð oftar en einu sinni síðan Persaflóastríðinu lauk. Einnig var dreift á borð þingmanna allmiklum gagnabunka um ástand mála. Er þar að finna ýmis gögn frá aðilum eins og Rauða krossinum Til að mynda stöðuskýrslu frá því á fyrri hluta árs 1994, sem unnin er af svæðisskrifstofu Rauða krossins í Miðausturlöndum, í Amman. Þar er að finna skýrslu unna af sérfræðingum á vegum UNICEF þar sem reynt var að meta hvaða áhrif afleiðingar af stórminnkuðu matvælaframboði hefði haft á almenning og þá sem veikastir væru fyrir, þ.e. börn og gamalmenni, ófrískar konur o.s.frv. Þar kemur m.a. fram að líklegt er talið að meira en 2,5 millj. barna, ófrískra kvenna og mæðra með börn á brjósti líði nú beinan skort sökum ástandsins. Í öðrum heimildum kemur fram að talið er að allt að hálf milljón barna hafi þegar látið lífið vegna fæðuskorts eða hungurs, vegna skorts á lyfjum og læknishjálp.
    Í grein í enska læknatímaritinu New England Journal of Medicin, sem einnig er birt sem fskj. eða var í þessum upplýsingabunka sem þingmenn fengu á sín borð, hafa nokkrir af færustu sérfræðingum Bretlands á þessu sviði í læknastétt reynt að meta ástandið og komast að svipuðum niðurstöðum. Sú grein er að vísu nokkru eldri, en þeirra niðurstaða var á þeim tíma, síðari hluta árs 1991, að fleiri tugir þúsunda barna hefðu þá þegar látið lífið.
    Það var mat aðila í Jórdan á síðari hluta ársins 1994, þ.e. fyrir um hálfu ári síðan eða svo, að hálf milljón írakskra barna hefði þá látið lífið frá því að Persaflóastríðinu lauk. Sumir ganga svo langt að fullyrða að það horfi til þess að heil kynslóð þurrkist út í landinu.
    Að lokum eru þarna birt með sem fskj. bréf fyrrv. dómsmrh. Bandaríkjanna, Ramsey Clark, til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Hann hefur látið þessi mál mikið til sín taka, skrifað bæði framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna og öryggisráðinu og skorað eindregið á þessa aðila að taka viðskiptabannið til endurskoðunar. Einnig mætti nefna fjölmargar blaðagreinar, forustugreinar í virtum blöðum, eins og helstu stórblöðum austan hafs og vestan, þar sem þessi mál hafa verið til umræðu upp á síðkastið og almennt virðist umræðan leggjast á þá sveif að við núverandi ástand verði ekki lengur unað. Hið alþjóðlega samfélag geti ekki horft á það ástand sem skapast hefur í Írak í kjölfar viðskiptabannsins, allra síst í ljósi þess að aðgerðirnar eru ekki að skila neinum sjáanlegum stjórnmálalegum árangri.
    Auðvitað mætti ræða þessi mál einnig út frá svipuðum afleiðingum af sambærilegum aðgerðum víðar og væri nærtækt að taka áhrifin af viðskiptabanni á Haiti, sem fyrir var eitthvert fátækasta ríki veraldar og bjó um skeið við viðskiptabann með tilheyrandi afleiðingum. Einnig má auðvitað velta fyrir sér afleiðingum langvarandi viðskiptabanns eða þvingunaraðgerða einstakra ríkja gegn öðrum, svo sem áhrif af viðskiptabanni Bandaríkjanna á Kúbu. Þar gegnir þó öðru máli heldur en í þessu tilviki þar sem um er að ræða viðskiptabann sem sett er af Sameinuðu þjóðunum og framfylgt er af velflestum, ef ekki öllum, aðildarríkjum þess. Þar með ber umheimurinn og heimurinn allur í reynd sameiginlega ábyrgð á því ástandi sem þarna er að skapast og það er mín niðurstaða af nokkurri skoðun á þessum málum að það sé óumflýjanlegt að taka beitingu slíkra viðskiptalegra tækja eða ráðstafana í alþjóðasamskiptum til endurskoðunar út frá þessu sjónarmiði, að beiting þeirra verði á hverjum tíma að samræmast viðurkenndum mannúðarsjónarmiðum og megi ekki brjóta í bág við þau grundvallarmannréttindi sem það eru að hafa til hnífs og skeiðar og að almenningur geti lifað mannsæmandi lífi eftir því sem aðstæður eru til í hverju landi fyrir sig.
    Það er von mín að hv. utanrmn. taki mál þetta til velviljaðrar skoðunar. Gjarnan hefði ég viljað heyra eitthvað frá íslenskum stjórnvöldum um þeirra afstöðu í þessum efnum og gjarnan hefði hæstv. utanrrh. mátt vera viðstaddur umræðuna eða tjá sig um þetta mál. En það verður sjálfsagt ekki á allt kosið og hæstv. ráðherra fjarstaddur, sem oftar að undanförnu, erlendis, sjálfsagt og án efa við mikilvæg skyldustörf. En eftir stendur að Alþingi gæti, ef því sýndist svo, látið eitthvað frá sér fara eða beint tilmælum af þessu tagi, sem í raun og veru eru aðalefnisatriði þessarar ályktunar. Flm. er það að sjálfsögðu vel ljóst að við höfum það ekki ein í okkar höndum að ráða miklu um lyktir eða niðurstöður þessa máls á alþjóðavettvangi, en það hlýtur að skipta máli í sjálfu sér, okkar sjálfra vegna, hvaða afstöðu við tökum til hluta af þessu tagi og einnig munar um hverja rödd sem bætist í hópinn í samfélagi þjóðanna sem mælir með því að þetta ástand verði tekið til endurskoðunar.
    Að lokinni þessari umræðu, hæstv. forseti, sem ég vel að merkja þakka fyrir að komst hér á dagskrá, legg ég svo til að málinu verði vísað til síðari umr. og hv. utanrmn.