Alþjóðaviðskiptastofnunin

20. fundur
Mánudaginn 12. júní 1995, kl. 22:35:34 (728)


[22:35]
     Egill Jónsson :
    Virðulegi forseti. Þó að þessar umræður hafi verið nokkuð víðfeðmar þá sé ég ekki ástæðu til þess að fara ítarlega yfir þær og sérstaklega með tilliti til þess sem hefur komið fram í ræðum tveggja síðustu hv. ræðumanna sem ég er að sjálfsögðu alveg samþykkur og hefði reyndar getað gert flest þar að mínu máli.
    Það eru einungis þrjú atriði sem ég sé hins vegar ástæðu til þess að árétta við þessa umræðu. Það er í fyrsta lagi það sem hefur komið fram um tollabindingarnar og með hvaða hætti þær eru tilkomnar og hvernig þær annars eru. Þá vil ég leyfa mér að minnast á í þessum efnum stefnu fyrrv. ríkisstjórnar sem kynnt var á Alþingi þann 10. jan. árið 1992 og varð raunar stefna Alþingis í þessu máli. Bókun ríkisstjórnarinnar var þá kynnt á þingfundi þar sem fóru fram umræður um GATT-málið. Eftir að þessi yfirlýsing var gefin var gert hlé á þingstörfum og ekki komu fram á þinginu frekari áherslur í sambandi við GATT-samningana en komu fram í þessari bókun ríkisstjórnarinnar þannig að það verður að líta svo á að þar hafi verið um að ræða skoðun og niðurstöðu Alþingis Íslendinga í heild sinni. Þessa bókun ætla ég ekki að lesa alla heldur einungis það sem varðar sérstaklega GATT-bindingarnar. Það segir í a-lið þar sem verið er að taka málin saman og leggja fram skoðanir:
    ,,a. Ríki sem skuldbindur sig til þess að afnema allar útflutningsbætur hafi rétt til þess frá þeim tíma sem slík aðgerð kemur til framkvæmda að grípa til magntakmarkana á innflutningi á vörum sem útflutningsbætur eru afnumdar á.``
    Með öðrum orðum gerir íslenska ríkisstjórnin þann 2. jan. árið 1992, með vitund alls Alþingis, kröfu til þess að þeirri ákvörðun að fella af útflutningsbætur verði mætt í samningunum um GATT með því að heimilt verði að taka upp sérstakar ákvarðanir um að þær vörur skuli óheimilt að flytja til landsins. Innflutningsbann áfram. Í b-liðnum segir enn fremur, með leyfi virðulegs forseta, og nú bið ég hv. alþm. að taka vel eftir því að þetta var samið og afgreitt í fyrrv. ríkisstjórn, er hennar bókun um málið:
    ,,Þá fjárhæð sem útflutningsbætur eru skornar niður um, umfram hina almennu umsömdu prósentu, 36%, skal heimilt að reikna til góða sem sérstakt álag við tollígildum fyrir þær vörur sem í hlut eiga og/eða sem sérstakar niðurskurðarfríar innanlandsgreiðslur sem bætist við græna boxið.``
    Með öðrum orðum, sá niðurskurður á útflutningsbótum sem samningsbundinn er á aðlögunartímabilinu sex ár, þ.e. það sem er skorið niður umfram 36%, skuli koma sem viðbótartollabindingar, sem viðbótarvörn fyrir innflutninginn. Þetta er bókun fyrrv. ríkisstjórnar sem Alþingi gerði engar athugasemdir við. Þetta er stefna Alþingis eins og hún var áréttuð hér 10. jan. árið 1992. Það er náttúrlega algert grundvallaratriði þegar fjallað er svo um þróun þessara mála síðan að menn hafi það í huga hvaða ákvarðanir voru teknar við upphaf þessara samninga.
    Annað atriði sem ég vil svo líka minnast á og er líka í samræmi við ákvörðun Alþingis er sú ákvörðun frá því í desember sl., þegar aðildin var samþykkt hér með formlegum hætti og skýrlega tekið fram og ég hygg atkvæði greidd af flestum alþingismönnum á þann veg, að fyrir því yrði séð að landbrh. færi með forræði þessara mála. Það er því eðlilegt að við þær lokaafgreiðslur, sem hér fara nú fram, sé þessu fylgt. Þetta er sem sagt í einu og öllu í beinu samhengi við þær ákvarðanir sem hafa verið teknar, upphæð tollabindinganna og síðan forræðismálin og þarf auðvitað engum að koma á óvart þó að þeim áherslum sé fylgt við lokaafgreiðslu málsins hér á Alþingi.
    Þriðja atriðið sem ég vildi svo aðeins minnast á er lágmarkstollurinn, sem hér hefur verið nokkuð ræddur. Væri auðvitað hægt að fara þar mörgum orðum um. En þá er það fyrsta og það er það eina sem ég ætla að segja sérstaklega til varnar fyrir landbúnaðinn. Þá er það fyrsta í þessum efnum að frá því og þetta kemur reyndar fram í áliti meiri hluta landbn. til hv. efh.- og viðskn., að þar er sagt skýrum orðum að á þessu tímabili sem liðið er frá því að GATT-umræðan hófst hér hafa landbúnaðarvörur lækkað hér á landi um 20%. Þær hafa lækkað um það sama og er skuldbindandi fyrir Ísland að verða muni á öllu samningstímabilinu. Þessi 20%, þessa verðlækkun upp á einn fimmta af búvöruverðinu, minnist enginn maður hér á, enginn hv. ræðumaður minnist á þetta. Menn tala bara um að það þurfi að fá innflutning til þess að lækka búvöruverðið. En hvernig fóru menn þá að því að lækka verðið á íslenskum landbúnaðarvörum um einn fimmta á þessum áratug með þeim takmarkaða innflutningi sem um er að ræða? Og það er reyndar mikill misskilningur að það sé ekki samkeppni í sambandi við landbúnaðarframleiðsluna hér á landi. Ég veit ekki betur en það sé bullandi samkeppni á milli kjötgreinanna. Ég veit ekki betur en það sé bullandi samkeppni á milli margháttaðra drykkjarvara sem framleiddar eru og mjólkurvara þó að þetta séu út af fyrir mjög ólíkar vörur. En auðvitað erum við með samkeppni í allri þessari framleiðslu. En aðalatriðið er það að þessi árangur hefur náðst nú á fjórum eða fimm árum, að verðlag á landbúnaðarvörum hér á landi hefur lækkað um einn fimmta. Þetta er hins vegar gagnstætt því sem hefur gerst erlendis. Þar hefur landbúnaðarvöruverðið verið að hækka og því er það að það kemur mörgum nokkuð spánskt fyrir þegar verðlag á mjög mörgum skyldum landbúnaðarvörum hér og erlendis er mjög svipað.
    Þá vil ég að lokum aðeins minna á það í þessari umræðu um lágmarksaðganginn og þörfina á því að gera breytingar á tollum í þeim efnum, jafnframt því sem ég vil líka minna á út frá þeirri samanburðarumræðu sem hér hefur farið fram og ýmsir aðilar í þjóðfélaginu eru bornir fyrir, að þessi innflutningur, sem verið er að tala um, nýtur útflutningsbóta. Útflutningsbætur hafa ekkert verið afnumdar í Danmörku eða í Noregi eða í Evrópu. Og það fer auðvitað eftir því hvernig menn stýra þeim útflutningsbótum hvert verðið á vörunni verður, m.a. hingað til lands. Það er auðvitað margt óuppgert í þessu máli, m.a. það að útflutningsbætur hafa verið teknar af íslenskum landbúnaði langt á undan því sem GATT-samkomulagið gerir ráð fyrir. Verðlækkanir á landbúnaðarvörum hér á landi hafa þegar orðið þannig að þær fullgildi skyldum samningsins og auðvitað eru það þessar staðreyndir sem skipta máli í þeirri umræðu sem fram undan er í sambandi við íslenskan landbúnað.