Alþjóðaviðskiptastofnunin

20. fundur
Mánudaginn 12. júní 1995, kl. 23:40:53 (738)


[23:40]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Í ræðu ráðherrans hefur mikið verið rætt um fyrri ríkisstjórn, núverandi ríkisstjórn, embættismannanefndir, ályktun Alþingis og margt fleira. Í mínum huga var þetta mál og er mjög einfalt, hæstv. ráðherra, og mig langar til að spyrja ráðherrann að því hvort hann er ekki sammála þeirri lýsingu. Það sem talið var að samkomulag væri að nást um á Alþingi á sínum tíma var sú stefna að 95--97% af íslenskum landbúnaði mundi áfram njóta slíkrar tollverndar að þeir hefðu sterka stöðu á markaði sem framleiddu slíka vöru. En ætlunin væri að örlítið brot, 3--5%, kæmi hér inn á markaðinn á mun lægra verði í trausti þess að slíkt verð byðist innflytjendum. Það er röng lýsing, hæstv. ráðherra, að það hafi verið kjarninn í því breiða samkomulagi sem var að myndast að hvað þessi 3--5% snertir væri það ljóst að tollastefnan yrði á þann veg að verðið á þeim vörum yrði mun lægra. Aftur á móti nytu 95--97% áfram verulegrar verndar. Það var einmitt réttlætingin sem var gefin fyrir því að veita 95--97% af framleiðslunni þessa miklu vernd að 3--5% væru opin á markaði á betri kjörum. Mig langar til þess að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann væri ekki sammála þessari einföldu almennu lýsingu og geti lýst því með helst jái eða neii án þess að fara í mikinn stjórnkerfisleik í kringum svarið.