Mál á dagskrá

21. fundur
Þriðjudaginn 13. júní 1995, kl. 14:20:29 (762)


[14:20]
     Össur Skarphéðinsson :
    Herra forseti. Ég vil að það komi alveg skýrt fram að ég held að það sé vilji allra þingmanna stjórnarandstöðunnar að afgreiða þetta mál sem hæstv. forsrh. hefur nefnt hér í umræðunni við hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson. Það er með engu móti hægt að láta að því liggja að stjórnarandstaðan eða einhverjir þingmenn ætli sér ekki að taka höndum saman við stjórnarliðið í þessu máli þó að nefnd sé sú staðreynd að hér var í gær dreift máli sem ýmsir þingmenn stjórnarandstöðunnar bera fyrir brjósti og reyndar helft stjórnarliðsins líka vegna þess að þar er um að ræða sama frv. og þeir fluttu á síðasta kjörtímabili.
    Ég ítreka það, herra forseti, að ég tel að það sé með engu móti hægt að láta að því liggja, eins og hæstv. forsrh. er að gera, að menn ætli að búa til einhvern pólitískan leikaraskap í kringum þetta mál. Það er alveg ljóst að það er samstaða heillar þjóðar í kringum það án tillits til þess í hvaða pólitíska flokka menn hafa skipað sér. Þannig var tekið á þessu á síðasta kjörtímabili og þannig mun þetta þing líka taka á málinu núna.